Thursday, December 24, 2009

"Music with the bark still on it"

Í nokkuð góðri heimildarmynd BBC um ameríska þjóðlagatónlist hittir Tom Paxton naglann á höfuðið þegar að hann segir það sem sé svo heillandi við folk-tónlist sé að hún sé ennþá með börkinn utan á. Hrá og óslípuð. Heimildarmyndina má sjá í heild sinni á youtube.




Á þessari síðu http://www.youtube.com/view_play_list?p=025941B35460BA08&search_query=bbc+documentary+american+folk+music er svo hægt að finna hina 11 hlutana og þar að auki mynd um sögu kántrýtónlistarinnar og mynd um kónginn sjálfan, Hank Williams. Frekar girnilegt gúmmelaðitrít til þess að japla á yfir hátíðirnar.

Wednesday, December 23, 2009

Enn af plötudómum

Í dag birtist annar plötudómur í Morgunblaðinu eftir Ívar Pál. Aftur er ég sammála niðurstöðunni en get ekki sætt mig við leiðina að henni. Nú færir hann a.m.k. rök fyrir því að færa engin rök fyrir máli sínu. Það er þó afskaplega undarlegt að sjá tónlistargagnrýnanda tjá þá skoðun sína að maður eigi ekki að reyna að tala um tónlist ("talking about music is like dancing about architecture" sagði einhver). Að sjálfsögðu er það rétt að við verðum "einfaldlega að hlusta á tónlistina, til að finna hver áhrif hennar eru á tilfinningalífið", en sá sem ritar um menningu fyrir stærsta blað landsins hlýtur að geta sagt okkur eitthvað meira en það.

Frábær frumefni

Í Morgunblaðinu um daginn birtist plötudómur um fyrstu skífu hljómsveitarinnar Monsters of Folk (sem er samnefnd sveitinni). Umfjöllunin er í anda flestallrar menningarrýni blaðanna í dag, stutt og innihaldslaus.

Dómurinn ber fyrirsögnina „Frábær frumefni“ og telur þar fyrir utan mögur 84 orð, 5 setningar. Tónlist sveitarinnar (þ.e. innihaldi plötunnar) er ekki lýst eða hún metin á nokkurn hátt. Jú, „útkoman er óviðjafnanleg“, segir Ívar Páll Jónsson, en hvers vegna eða á hvaða hátt vitum við ekki. Hins vegar fáum við að vita að Monsters of Folk sé súpergrúppa og einnig eru meðlimir hennar og fyrri afrek þeirra talin upp samviskusamlega (þ.e.a.s með hvaða öðrum hljómsveitum þeir hafa spilað). Ef móðir mín læsi umræddan plötudóm væri hún nákvæmlega engu nær um þá tóna sem heyrast á skífunni. Er þetta klassísk tónlist, þungarokk, eða bófarapp? Eða er þetta kannski ekki tónlistardiskur yfir höfuð, tók súpergrúppan sig til og bjó til kvikmynd?


Hver er tilgangur gagnrýninnar ef hún er hvorki innihaldslýsing né gagnrýni yfirleitt?
Almennt hafa plötudómar blaðanna þessa dagana lítið annað gildi en auglýsingargildi (auglýsing fyrir hvern veit ég reyndar ekki enda fjalla þeir oft um plötur sem eru ekki einu sinni fluttar til landsins). Þeir gegna svona svipuðu hlutverki og „word of mouth“. Þessi plata á víst að vera góð, ég man samt ekki hvar ég las það eða hvernig tónlist þetta er. Smekkur þeirra örfáu einstaklinga sem skrifa dómana verða því mótandi, án þess að við fáum þó nokkra hugmynd hvað þeim finnst í rauninni gott eða slæmt við hverja plötu. Textagerðin er snilld, en ég fæ engin dæmi um þá snilld. Hljómaframvindan er frumleg, en á hvaða hátt? Melódíurnar kveikja ákveðnar tilfinningar í brjósti gagnrýnandans en hvaða tilfinningar og hvers vegna? Ég er ekki að segja að mat á gæðum plötu geti ekki verið tilfinningalegt, að gagnrýnandi þurfi að geta útskýrt undur hljómfræðinnar fyrir lesendum (þó að slíkt væri vel þegið) eða metið hana eftir fyrirframgefnum stöðlum, heldur aðeins það, að gagnrýnendum er borgað fyrir að reyna að setja fingurinn á tilfinningarnar sem listin kveikir í þeim og útskýra þær í orðum.

Ég skil eiginlega kveinara eins og Magna í „Á Móti Sól“ sem telja sig lagða í einelti af gagnrýnendum. Allur lýsingarorðaskalinn er notaður, en lýsir engu. Ef engin rök eru færð fyrir því af hverju einhver er rakkaður niður en öðrum hampað, þá getur það alveg eins verið af persónulegum ástæðum (þó svo að ég sé nokk viss um að það hafi ekki verið tilfellið með Magni-ficent).

En við hvern er að sakast? Að hluta til blöðin fyrir að úthluta 100 orðum í einn plötudóm og ætlast til að það verði eitthvað annað en lýsingarorðarúnk. Að hluta til gagnrýnendurnar sem nýta þessi 100 orð sem þeir fá á lélegan hátt í umfjöllun um persónu listamannsins, og að hluta til okkur sjálf sem látum þetta yfir okkur ganga og gerum ekkert í málunum.

Já, í þau örfáu skipti sem umfjöllun um tónlist fær eitthvað pláss í blöðunum eru þær línur notaðar undir frásagnir um tónlistarmennina sjálfa; hvernig Pete Doherty hagaði sér við upptökur eða hversu margar plötur Neil Young hefur gefið út. Umfjöllunin er ekki um poppið heldur poppkúltúrinn. Sjúkdómur að nafni persónudýrkun hefur orðið svo skæður í tónlistarbransanum að oft sjáum við ekki listina fyrir ofbirtunni frá persónu listamannsins. Persóna skaparans verður ekki einungis mikilvægari en sköpunarverkið, heldur kæfir hún verkið. Þessi sjúkdómseinkenni má reyndar finna allri listumfjöllun og mætti jafnvel segja að persónudýrkunin sé kýli á öllu samfélaginu. Og Guð minn góður, ég er eins sekur og hugsast getur. Sönnunargögnin eru m.a. í 90% færslna á minni blessuðu bloggsíðu og á veggjum svefnherbergis míns (en þar hanga myndir af 8 tónlistarmönnum).

En getum við algjörlega slitið í sundur listina og listamanninn, og væri slíkt æskilegt? Á listin að standa ein, eða þarf túlkun á henni alltaf að vera samtvinnuð skoðun okkar á skapara hennar? Eða svo ég orði þetta á poppþýðlegri hátt: verðfellir það hinn stórkostlega slagara Rock‘n‘Roll part.2 að hann sé saminn af barnapervertinum Gary Glitter, eða verður gullfallegur ástaróður Lou Reeds Perfect Day ómerkilegri vegna þess að hann var ortur til heróíns? Hefur það áhrif á skynjun okkar á tónlist Morrisseys að hann sé bersýnilega yfirlætisfullt fífl og verður heimshryggðarrokk Ian Curtis enn magnaðra vegna þess að hann fyrirfór sér?

Svar mitt hlýtur að vera einhvers staðar á milli jás og neis. Stundum, og að vissu leyti.

Listin krefst að sjálfsögðu skapara og er bundin hans sjónarhorni á heiminn, við fáum leiftursýn inn í hugarheim listamannsins. En oft á tíðum geta listaverk talað sjálf, listin virðist koma frá einhverjum æðri sköpunarkrafti og listamaðurinn er aðeins miðillinn sem sköpunin birtist í gegnum. Listin er falleg eða ógnvekjandi óháð tilætlunum listamannsins. Platan Ys (2006) með tónlistarkonunni Joanna Newsom finnst mér persónulega vera slíkt verk. Joanna tekur okkur í ævintýraferð með snjöllum textum og hádramatískum og gullfallegum lögum (eða kannski frekar verkum). Hljómar, melódíur, orð, útsetningar, hljóðfæraleikur og stórkostleg rödd söngkonunnar fléttast saman á eina mögnuðustu heildarupplifun sem ég hef fengið af nokkuru hljóðverki. En hvað veit ég um listakonuna? Jú, hún er ung og sæt og eftir að hún hætti að deita hinn miðaldra Bill Callahan byrjaði hún með einhverjum bandarískum grínista. Svo er upphafslagið á Ys, Emily, samið um systur hennar sem er stjörnufræðingur og þegar textinn er skoðaður út frá því virðist hann jafnvel vera svolítið barnalegt grín ætlað henni. Þessar upplýsingar gagnast mér ekki neitt til þess að njóta tónlistarinnar betur, og hafa jafnvel þveröfug áhrif. Listaverkið sem slíkt veitir mér mun betri mynd af manneskjunni og listakonunni Joönnu Newsom en þær slitróttu upplýsingar sem ég hef öðlast úr blöðunum.

En hins vegar getur vitneskja um listamanninn og fyrirætlanir hans gefið listinni aukna merkingu og dýpt. Jafnvel þó að tónlist Elliotts Smiths geti staðið ein gefur það henni enn tragedískari blæ að við vitum hin sorglegu örlög flytjandans (hann stakk sig í brjóstkassann, tvisvar!). Við fáum staðfestingu á því að treginn og þunglyndið í rödd Smiths er raunverulegur, og mætti því færa rök fyrir að þessar upplýsingar dýpki skilning okkar og tilfinningu fyrir tónlistinni.

Tilgangur þessa pistils er ekki að skjóta sérstaklega á skrif Ívars Páls (þrátt fyrir að umræddur dómur sé klárlega undir meðallagi), heldur á menningarskrif í blöðunum almennt. Dómur Ívars Páls lá bara einstaklega vel við höggi, vegna þess að ég hef verið að hlusta á M.o.F. og pæla í gagnsleysi plötudóma blaðanna.

Það er ýmislegt sem betur mætti fara í tónlistarumfjöllun blaðanna en þar er hins vegar líka fjölmargt gott. Við eigum t.d. nokkra mjög færa poppgrúskara (þá ber helst að nefna Arnar Eggert og Árna Matt) og sá hluti umfjöllunarinnar sem beinist að íslenksri grasrótartónlist er oft á tíðum mjög veglegur (þrátt fyrir að það hafi verið í símskeytastíl, fjallar Mogginn um nánast hverja einustu plötu sem gefin er út á landinu fyrir jólin). En metnaðurinn til þess að gera menningarrýnina að einhverju meira en þunnum skemmtilestri um poppkúltúr er klárlega ekki nógu mikill.

Þeir sem sjá um menningarrýni blaðanna þurfa að fara að skoða málin. Á sá hluti blaðanna aðeins að vera auglýsingasnepill fyrir útgefendur og tónleikahaldara eða vettvangur áhugavekjandi greina og fræðilegra skoðanaskipta? Netið hefur sannað sig sem frábær vettvangur fyrir bæði hlutverkin, eru þá blöðin hreinlega orðin óþörf? Þetta eru spurningar sem allir tónlistarrýnar og menningarpostular blaðanna þurfa að velta fyrir sér.

En hvað finnst mér þá um frumraun Monsters Of Folk. Jú, ég er sammála Ívari Páli, hún er frábær og ég myndi gefa henni fjórar stjörnur af fimm ef ég hefði slíkt vald. En það er efni í aðra grein, - um það er miklu meira að segja.

Tuesday, December 22, 2009

50 bestu plötur áratugarins...

... eða svona frekar uppáhaldsplötur mínar gefnar út á áratugnum (frá 2000-2009). Ákvað að gefa hverjum tónlistarmanni aðeins eina plötu á listanum, nema annað hafi verið einstaklega nauðsynlegt. Listinn er ekkert svakalega fagmannlegur, byggist bara á eigin tilfinningu nákvæmlega núna. Ég er örugglega að gleyma einhverjum plötum, sumir eru þarna af heiðursástæðum og stundum er platan sem valin er ekki endilega besta plata listamannsins á áratugnum heldur sú sem kynnti mig fyrir tónlist hans (eða eitthvað slíkt). Uppröðunin er heldur ekkert gríðarlega útpæld en gefur þó einhverja hugmynd um það hversu mikils ég met hverja plötu.

50. XXX Rottweilerhundar – XXX Rottweilerhundar
49. Nico Muhly – Mothertongue
48. Wolf Parade – Apologies to Queen Mary
47. M.I.A. – Kala
46. Johnny Cash – American Recordings III: Solitary Man
45. Håkan Hellström – Kann ingen sorg for mig Göteborg
44. Against Me! – Re-inventing Axl Rose
43. The Postal Service – Give Up
42. Modest Mouse – Good News For People Who Love Bad News
41. The Libertines – Up The Bracket
40. Queens of the Stone Age – Songs for the deaf
39. Fucked Up – Chemistry of Common Life
38. The Raveonettes – Whip it on
37. Atmosphere – The Lucy Ford EP‘s
36. The Moldy Peaches – The Moldy Peaches
35. I‘m Being Good – Sub Plot
34. Beirut – Gulag Orkestar
33. Four Tet – Rounds
32. Forgotten Lores – Týndi Hlekkurinn
31. Þórir – I believe in this
30. Graveslime – Roughness and Toughness
29. Seabear – The Ghost that carried us away
28. Bonnie 'Prince' Billy – Ease Down the Road
27. Liars – Drum‘s not Dead
26. Of Montreal – Hissing Fauna, are you the destroyer?
25. Beck – Sea Change
24. Ólöf Arnalds – Við og Við
23. Wilco – Yankee Hotel Foxtrot
22. The Streets – A Grand don‘t come for free
21. Kimono –Arctic Death Ship
20. Akron/Family – Love is Simple
19. Bon Iver – For Emma, Forever Ago
18. Vollmar – 13 or so people who need changes
17. Kings of Convenience – Riot on an Empty Street
16. Arcade Fire – Funeral
15. Interpol – Turn on the Bright Lights
14. The Strokes – Is this It?
13. Fleet Foxes – Fleet Foxes
12. Sam Amidon – All is Well
11. Gavin Portland – iii: views of distant towns
10. The Shins – Oh, Inverted World
9. Mount Eerie og Julie Dorian – Lost Wisdom
8. Jeffrey Lewis – The Last Time I took Acid I went Insane
7. Elliott Smith – From a Basement on a Hill
6. The White Stripes – White Blood Cells

5. The Rapture – Echoes











4. The Blood Brothers – Crimes











3. Bright Eyes – I‘m wide awake it‘s morning












2. The Microphones – The Glow Pt.2













1. Joanna Newsom – Ys












Endilega póstaðu þínum óformlega lista í kommentakerfið, þarf ekki að vera meira en svona topp5 eða 10.

Thursday, December 03, 2009

Nekt og jaðarpopp

Það vita það allir sem þekkja mig að ég er óforskammaður áhugamaður um bæði nekt og tónlistarmyndbönd. Því þykir mér fátt skemmtilegra en tónlistarmynbönd yfirfull af berrössuðu fólki.

Sem betur fer er heimurinn að verða æ blygðunarlausari og því þykir ekki lengur neitt tiltökumál að skella nokkrum strípalingum inn í myndbandið manns. MTV hefði kannski sýnt svoleiðis myndbönd eftir miðnætti hér forðum daga (eins og hið frábæra "Smack My Bitch Up" með The Prodigy), en það er líklega helst með tilkomu netsins sem nektin hefur fengið uppreist æru. Leikstjórarnir þurfa ekki lengur að beygja sig undir ritskoðun forpokaðra sjónvarpsstjóra og geta hlaðið nánast hverju sem er inn á netið og náð til mikils fjölda. Það er mér óskiljanlegt að nektin sé enn sums staðar jafn tabú og raun ber vitni (sbr.geirvörtuhneiksli Janet Jackson og Justins) á meðan mömmur horfa á ofbeldisþætti með börnunum sínum á hverju kvöldi á eftir fréttum ríkissjónvarpsins.

Eins og Dylan sagði; „jafnvel forseti bandaríkjanna hlýtur stundum að þurfa að standa nakinn“. Öll erum við nakin undir fötunum en mikill minnihluti mun nokkurn tímann nota skotvopn. Venjuleg nekt er óeðlileg en morð daglegt brauð. Hvernig heimsmynd erum við búa til með slíkri ritskoðun? Hvern er verið að vernda?

-Rage Against the Machine mótmæla ritskoðun á Lollapalooza hátíðinni árið 1993-

Jú, auðvitað hefur klámvæðingin haft sín áhrif í popptónlistarheiminum (og kannski hefur hann átt stóran hlut í helvítis klámvæðingunni). En ég vil eiginlega meina að það sé ekki alvöru nekt sem komi þar fram.

Fólkið í þeim myndböndum sem koma hér fyrir neðan er með raunverulega líkama, bingóspik, flöt brjóst og lítil typpi. Það má eiginlega alveg efast um að það sé raunveruleg nekt sem við séum að sjá í myndböndum Britney og Rihönnu, sílikon og meiköpp o.s.frv. Þetta er ekki hinn fullkomni líkami heldur staðalmynd hins fullkomna líkama, búinn til af förðunar- og sölusérfræðingum.
-Britney Spears mótmælir hlutgervingu kvenlíkamans í myndbandi sínu við Womanizer-

Popp er gervi. Söngurinn er Átó-tjúnaður (svo að engin fölsk nóta heyrist) og líkaminn fótósjoppaður (svo engin misfella sjáist). Jafnvel þó að popptónlistarmenn tönnlist á því hversu mikið þeir séu að opna sig, koma til dyranna eins og þeir séu klæddir (sbr. platan Stripped með Christinu Aguilera og Rated R með Rihönnu) geta þeir aldrei viðurkennt eigin ófullkomleika. Í mínum draumaheimi veinar poppsöngkonan í míkrófóninn og hristir myndarlegt hliðarspikið (Susan Boyle er ekki tekin með því að ég efast um að viðhlæjendur hennar séu vinir).

Stundum finnst mér eins og hin líkamlega sýniþörf poppsins sé til þess eins að fela hina gríðarlegu tilfinningalegu spéhræðslu tónlistarinnar. Aðeins örfáir tónlistarmenn gefa sig alla í tónlistina. Slíkir listamnenn standa í raun standa naktir fyrir framan okkur og öskra sín dýpstu leyndarmál framan í heiminn. Það þarfnast nefnilega raunverulegs hugrekkis að ýta væntingum heimsins frá sér og gera það sem maður sjálfur vill. Þá er oft áhugavert að fylgjast með áheyrendum sem vita ekki sitt rjúkandi ráð, þeir hlæja, roðna síðan og bölva þessari vitleysu. Fæstir höndla heiðarleika því að fæstir höndla sannleikann. Tilfinningaleg nekt er of erfið og verður því líklega alltaf á jaðrinum.

Já, það er ekki sama nekt og séra nekt.
Ég er kominn svolítið langt frá því sem ég var að reyna að segja. Ókei, ég vil semsagt flokka líkamlega nekt í tónlistarmyndböndum í þrjá flokka eftir tilgang sínum.
1. Nektin á að selja og/eða æsa áhorfandann kynferðislega.
2. Nektin á að hneiksla áhorfandann.
3. Nektin hefur fagurfræðilegan tilgang.

Að sjálfsögðu er þetta ekki svona lagskipt. Það er ekki alltaf augljóst nákvæmlega hvaða tilgang nektin hefur í hvert skipti, sumir sjokkera til selja og aðrir hneiksla fyrir hina göfugu list.

Í fyrsta flokknum hefur rappheimurinn verið "framarlega" á merinni. Þar hefur reyndar verið einblínt á kvenlíkamann (jahh, fyrir utan hinn Michelango-íska kjöthleif D‘Angelo-sjá Untitled). Naktir kvenmannskropparnir hafa þá verið notaðir sem stöðutákn tónlistarmannanna við hlið gullkeðjanna, kampavínsins og sportbílanna (ala. Hype Williams). Þessum flokki hef ég ekki mikinn áhuga á, enda nektin heila- og tannlaus.


Línan milli þess að gera sjokkerandi list og list til þess að sjokkera er hárfín. Þessi þunna rauða lína kallast tilgerð. Sumir listamenn hafa verið iðnir við kolann að ögra og hneiksla og viðhaldið vinsældum sínum þannig. Gott dæmi er austur-þýsku rokkararnir í Rammstein, en þeir hafa oft verið beittir og skemmtilegir í myndböndum sínum og hneikslað af þeim sökum. Fyrir stuttu gáfu þeir út myndband við nýjasta slagarann sinn "Pussy". Myndbandið er virkilega slæmt (eins og lagið sjálft) en vakti alheimsathygli vegna þess að í því er hausum Rammsteinanna skeytt á búka klámmyndaleikara sem eru að stunda sína hefðbundnu iðju. Ekki veit ég hvað lá að baki myndbandsgerðinni en það er auðvelt að stimpla hana sem örvæntingafulla tilraun til þess að halda sér í sviðsljósinu og selja nokkrar plötur í viðbót. Þrátt fyrir að hneikslun sé áhugavert fyrirbæri nenni ég ekki að stúdera myndbönd sem hafa hana eina að markmiði.

Myndböndin 5 sem hér á eftir koma eru því öll úr þriðja flokknum (eða hvað? Dæmi nú hver fyrir sig), en eru engu að síður öll stimpluð NSFW (Not Safe For Work). Þetta virðist vera einhver bylgja í jaðarpoppheiminum núna. Útlensku myndböndin komu öll á síðustu vikum.


The Flaming Lips - Watching The Planets (leikstjórn: Wayne Coyne og George Salisbury)
"No, no, no, I've got no secrets" syngur Wayne Coyne í nýjasta myndbandi The Flaming Lips og afhjúpar síðan sín allra helgustu vé, þegar að hópur nakinna hjólreiðamanna og –kvenna, rífur hann úr fötunum. Það er greinilega ýmislegt sem hendir Wayne þegar hann fer í göngtúr í skóginum í plastkúlunni sinni.






Sigurrós - Gobbledigook (leikstjórn: Arni & Kinski)
Sigurrós hafa verið óhræddir (óhræsir?) við að gera myndbönd svona alveg á mörkum þess sem telst ásættanlegt. Þroskaheftir englar, samkynhneigðir fótboltastrákar og frímínútur á atómöld hafa m.a. skotið upp kollinum. Samt hefur líklega ekkert myndband þeirra vakið jafn mikla athygli og þetta hér. Hópur af ungu fólki hleypur nakið um í náttúrunni, ber á bumbur við varðeld og nýtur lífsins í útópíu hippans. Þau eru svona eins og flokkur af dýrum á vappi um skóginn (fyrir utan sígarettuna og íþróttaskóna).

Sigur Rós - Gobbledigook from Sigur Rós on Vimeo.


Girls - Lust For Life (leikstjórn: Aaron Brown)
Girls eru allt of hipp og kúl fyrir lífið. Til að byrja með þoldi ég ekki þetta band, fannst tónlistin ekkert sérstök og attitúdið tilgerðarlegt. Það er feitur „við erum ung, villt og er alveg sama“-fílingur í gangi þarna. Fílingur sem ég er frekar svag fyrir, og því gaf ég mig á endanum, núna finnst mér þetta yndislegt band.

„But now I‘m just crazy, I'm totally mad.
Yeah I‘m just crazy, I‘m fucked in the head“


Hljómur sveitarinnar er ófrumlegur (og reynir ekki að vera neitt annað) en melódíurnar eru fáránlega grípandi. Samansafn af klisjum raulaðar yfir skítugan indírokk-gítar. Myndbandið er ágætt, tekið á gamaldags filmu og nær að fanga „frelsið er yndislegt“ stemmningu tónlistarinnar nokkuð vel. Þetta er víst allt vinafólk bandsins frá San Francisco sem er að bera sig og leika listir.





P.s. Þetta er fyrsta kúl bandið síðan 93 sem klæðist Nirvana-bolum (tveir þumlar upp!).

Bárujárn - Skuggasörf (leikstjórn: Katrín Ólafsdóttir og Steinunn)
Hryllings-sörf-rokkabillíanarkistabandið Bárujárn hefur verið eitt ferskasta bandið í íslensku grasrótinni undanfarna mánuði. Fjögurra laga EP-plata kom út fyrir nokkrum vikum/mánuðum og hljómar nokkuð vel. Það er óheftur greddukraftur í bandinu sem getur af sér myrkraverkastemmningu í anda The Cramps.

„Eittvað nýtt, eitthvað nýtt, ég þarf eitthvað nýtt“

Myndbandið við lagið Skuggasörf gerðu kvikmyndakonan Katrín Ólafsdóttir og myndlistarkonan Steinunn, og er það undir áhrifum frá Actionisma-hreyfingunni frá Vínarborg http://en.wikipedia.org/wiki/Viennese_Actionism . Hér er það engin helvítis krúttnekt heldur er líkaminn notaður sem strigi fyrir litskrúðug og subbuleg málverk. Skeggjaðir menn í sleik, íslenksi fáninn brennur og rúsínan í pylsuendanum er þegar pissað er í gegnum fisk. Mest hneykslandi tónlistarmyndband íslandssögunnar?





Yeasayer - Ampling Alp (leikstjórn: Radical Friend)

Ég fíla þetta band ekkert sérstaklega en myndbandið er mjög töff, þó alveg elgsúrt. Speglaandlitin eru að gera góða hluti.
http://pitchfork.com/tv/#/musicvideo/3918-yeasayer-amblin-alp-we-are-free-secretly-canadian

Monday, June 29, 2009

Tónleikahryna

Það er alveg nóg af spennandi tónleikum í vikunni. Mér til mikillar mæðu hittist það þannig á að kemst ég ekki á neina þeirra. Skrambinn.

Fyrst ber að nefna tónleika hins japanska Shugo Tokumaru, sem spilar ásamt Amiinu í Norræna húsinu á miðvikudag. Shugo spilar alveg ótrúlega sumarlegt tilrauna-indí-krútt-popp. Ef Animal Collective væri Japanskur gaur í krónískt góðu skapi. Algjör snilld eiginlega. Mér skilst að það sé frítt meira að segja! Ég skalla þann í magann sem sleppir þessu vísvitandi. http://www.101tokyo.is/











Sama kvöld spila Megas og Ólöf Arnalds (eða Megasóló eins og systir mín hélt að ég hefði sagt) á Kaffi Rósenberg. Tónleikarnir eru annað giggið í tónleikaröð Reykjavík Grapevine, Fuglabúrið. Þar er tveimur tónlistarmönnum att saman í bardaga upp á líf eða dauða... eða svona næstum því. 1000 kall er smápeningur fyrir þessa tvo mögnuðu listamenn.

Kvöldið eftir spilar bandaríski þjóðlagasöngvarinn Joe Pug á Rosenberg ásamt Bob Justman og Snorra Sprengjuhelgasyni. Svaka beisik fólk hjá Joe, en samt örugglega alveg þess virði að kíkja á. Hann er víst 25 ára Norður-Kaliforníubúi á leið til Noregs. Reyndar verður ekki síður áhugavert að sjá Snorra spila, enda ætlar hann sér að gefa út plötu í lok sumars. Fyrsta lagið hljómar bara nokkuð vel. 1000 kall inn.



Sunday, June 21, 2009

Tónlistarmyndband

Ókei, ég veit að það er svolítið tæpt að vera alltaf að blogga um sjálfan sig á tónlistarbloggsíðu en ég ætla að gefa skít í það í dag. Ég er nefnilega gríðarlega stoltur að kynna frumraun mína sem tónlistarmyndabandagerðamaður. Myndbandið er leir-hreyfimynd við lag dönsk/norsk/íslensku alt-folk hljómsveitarinnar Artery Music. Myndbandið er unnið á rúmum fjórum mánuðum í bílskúrnum mínum og er gert í samvinnu við norska vinkonu mína Idu Grimsgaard.


Ef Vimeo er eitthhvað leiðinlegt er líka hægt að horfa á http://www.youtube.com/watch?v=FlGbT7ZSKTQ

eða kíkja á www.myspace.com/kristjanspilartonlist

The Moldy Peaches

10 mínútur af sjaldséðu myndefni frá gerð fyrstu (og u.þ.b. einu) plötu The Moldy Peaches. Gullnáma fyrir aðdáendur en ómerkilegt drasl fyrir aðra.

Monday, February 09, 2009

Sunnudagur

Blitzen Trapper eru að gera allt vitlaust í mínum herbúðum þessa dagana. Sérstkalega á sunnudögum.


Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com