Thursday, December 03, 2009

Nekt og jaðarpopp

Það vita það allir sem þekkja mig að ég er óforskammaður áhugamaður um bæði nekt og tónlistarmyndbönd. Því þykir mér fátt skemmtilegra en tónlistarmynbönd yfirfull af berrössuðu fólki.

Sem betur fer er heimurinn að verða æ blygðunarlausari og því þykir ekki lengur neitt tiltökumál að skella nokkrum strípalingum inn í myndbandið manns. MTV hefði kannski sýnt svoleiðis myndbönd eftir miðnætti hér forðum daga (eins og hið frábæra "Smack My Bitch Up" með The Prodigy), en það er líklega helst með tilkomu netsins sem nektin hefur fengið uppreist æru. Leikstjórarnir þurfa ekki lengur að beygja sig undir ritskoðun forpokaðra sjónvarpsstjóra og geta hlaðið nánast hverju sem er inn á netið og náð til mikils fjölda. Það er mér óskiljanlegt að nektin sé enn sums staðar jafn tabú og raun ber vitni (sbr.geirvörtuhneiksli Janet Jackson og Justins) á meðan mömmur horfa á ofbeldisþætti með börnunum sínum á hverju kvöldi á eftir fréttum ríkissjónvarpsins.

Eins og Dylan sagði; „jafnvel forseti bandaríkjanna hlýtur stundum að þurfa að standa nakinn“. Öll erum við nakin undir fötunum en mikill minnihluti mun nokkurn tímann nota skotvopn. Venjuleg nekt er óeðlileg en morð daglegt brauð. Hvernig heimsmynd erum við búa til með slíkri ritskoðun? Hvern er verið að vernda?

-Rage Against the Machine mótmæla ritskoðun á Lollapalooza hátíðinni árið 1993-

Jú, auðvitað hefur klámvæðingin haft sín áhrif í popptónlistarheiminum (og kannski hefur hann átt stóran hlut í helvítis klámvæðingunni). En ég vil eiginlega meina að það sé ekki alvöru nekt sem komi þar fram.

Fólkið í þeim myndböndum sem koma hér fyrir neðan er með raunverulega líkama, bingóspik, flöt brjóst og lítil typpi. Það má eiginlega alveg efast um að það sé raunveruleg nekt sem við séum að sjá í myndböndum Britney og Rihönnu, sílikon og meiköpp o.s.frv. Þetta er ekki hinn fullkomni líkami heldur staðalmynd hins fullkomna líkama, búinn til af förðunar- og sölusérfræðingum.
-Britney Spears mótmælir hlutgervingu kvenlíkamans í myndbandi sínu við Womanizer-

Popp er gervi. Söngurinn er Átó-tjúnaður (svo að engin fölsk nóta heyrist) og líkaminn fótósjoppaður (svo engin misfella sjáist). Jafnvel þó að popptónlistarmenn tönnlist á því hversu mikið þeir séu að opna sig, koma til dyranna eins og þeir séu klæddir (sbr. platan Stripped með Christinu Aguilera og Rated R með Rihönnu) geta þeir aldrei viðurkennt eigin ófullkomleika. Í mínum draumaheimi veinar poppsöngkonan í míkrófóninn og hristir myndarlegt hliðarspikið (Susan Boyle er ekki tekin með því að ég efast um að viðhlæjendur hennar séu vinir).

Stundum finnst mér eins og hin líkamlega sýniþörf poppsins sé til þess eins að fela hina gríðarlegu tilfinningalegu spéhræðslu tónlistarinnar. Aðeins örfáir tónlistarmenn gefa sig alla í tónlistina. Slíkir listamnenn standa í raun standa naktir fyrir framan okkur og öskra sín dýpstu leyndarmál framan í heiminn. Það þarfnast nefnilega raunverulegs hugrekkis að ýta væntingum heimsins frá sér og gera það sem maður sjálfur vill. Þá er oft áhugavert að fylgjast með áheyrendum sem vita ekki sitt rjúkandi ráð, þeir hlæja, roðna síðan og bölva þessari vitleysu. Fæstir höndla heiðarleika því að fæstir höndla sannleikann. Tilfinningaleg nekt er of erfið og verður því líklega alltaf á jaðrinum.

Já, það er ekki sama nekt og séra nekt.
Ég er kominn svolítið langt frá því sem ég var að reyna að segja. Ókei, ég vil semsagt flokka líkamlega nekt í tónlistarmyndböndum í þrjá flokka eftir tilgang sínum.
1. Nektin á að selja og/eða æsa áhorfandann kynferðislega.
2. Nektin á að hneiksla áhorfandann.
3. Nektin hefur fagurfræðilegan tilgang.

Að sjálfsögðu er þetta ekki svona lagskipt. Það er ekki alltaf augljóst nákvæmlega hvaða tilgang nektin hefur í hvert skipti, sumir sjokkera til selja og aðrir hneiksla fyrir hina göfugu list.

Í fyrsta flokknum hefur rappheimurinn verið "framarlega" á merinni. Þar hefur reyndar verið einblínt á kvenlíkamann (jahh, fyrir utan hinn Michelango-íska kjöthleif D‘Angelo-sjá Untitled). Naktir kvenmannskropparnir hafa þá verið notaðir sem stöðutákn tónlistarmannanna við hlið gullkeðjanna, kampavínsins og sportbílanna (ala. Hype Williams). Þessum flokki hef ég ekki mikinn áhuga á, enda nektin heila- og tannlaus.


Línan milli þess að gera sjokkerandi list og list til þess að sjokkera er hárfín. Þessi þunna rauða lína kallast tilgerð. Sumir listamenn hafa verið iðnir við kolann að ögra og hneiksla og viðhaldið vinsældum sínum þannig. Gott dæmi er austur-þýsku rokkararnir í Rammstein, en þeir hafa oft verið beittir og skemmtilegir í myndböndum sínum og hneikslað af þeim sökum. Fyrir stuttu gáfu þeir út myndband við nýjasta slagarann sinn "Pussy". Myndbandið er virkilega slæmt (eins og lagið sjálft) en vakti alheimsathygli vegna þess að í því er hausum Rammsteinanna skeytt á búka klámmyndaleikara sem eru að stunda sína hefðbundnu iðju. Ekki veit ég hvað lá að baki myndbandsgerðinni en það er auðvelt að stimpla hana sem örvæntingafulla tilraun til þess að halda sér í sviðsljósinu og selja nokkrar plötur í viðbót. Þrátt fyrir að hneikslun sé áhugavert fyrirbæri nenni ég ekki að stúdera myndbönd sem hafa hana eina að markmiði.

Myndböndin 5 sem hér á eftir koma eru því öll úr þriðja flokknum (eða hvað? Dæmi nú hver fyrir sig), en eru engu að síður öll stimpluð NSFW (Not Safe For Work). Þetta virðist vera einhver bylgja í jaðarpoppheiminum núna. Útlensku myndböndin komu öll á síðustu vikum.


The Flaming Lips - Watching The Planets (leikstjórn: Wayne Coyne og George Salisbury)
"No, no, no, I've got no secrets" syngur Wayne Coyne í nýjasta myndbandi The Flaming Lips og afhjúpar síðan sín allra helgustu vé, þegar að hópur nakinna hjólreiðamanna og –kvenna, rífur hann úr fötunum. Það er greinilega ýmislegt sem hendir Wayne þegar hann fer í göngtúr í skóginum í plastkúlunni sinni.






Sigurrós - Gobbledigook (leikstjórn: Arni & Kinski)
Sigurrós hafa verið óhræddir (óhræsir?) við að gera myndbönd svona alveg á mörkum þess sem telst ásættanlegt. Þroskaheftir englar, samkynhneigðir fótboltastrákar og frímínútur á atómöld hafa m.a. skotið upp kollinum. Samt hefur líklega ekkert myndband þeirra vakið jafn mikla athygli og þetta hér. Hópur af ungu fólki hleypur nakið um í náttúrunni, ber á bumbur við varðeld og nýtur lífsins í útópíu hippans. Þau eru svona eins og flokkur af dýrum á vappi um skóginn (fyrir utan sígarettuna og íþróttaskóna).

Sigur Rós - Gobbledigook from Sigur Rós on Vimeo.


Girls - Lust For Life (leikstjórn: Aaron Brown)
Girls eru allt of hipp og kúl fyrir lífið. Til að byrja með þoldi ég ekki þetta band, fannst tónlistin ekkert sérstök og attitúdið tilgerðarlegt. Það er feitur „við erum ung, villt og er alveg sama“-fílingur í gangi þarna. Fílingur sem ég er frekar svag fyrir, og því gaf ég mig á endanum, núna finnst mér þetta yndislegt band.

„But now I‘m just crazy, I'm totally mad.
Yeah I‘m just crazy, I‘m fucked in the head“


Hljómur sveitarinnar er ófrumlegur (og reynir ekki að vera neitt annað) en melódíurnar eru fáránlega grípandi. Samansafn af klisjum raulaðar yfir skítugan indírokk-gítar. Myndbandið er ágætt, tekið á gamaldags filmu og nær að fanga „frelsið er yndislegt“ stemmningu tónlistarinnar nokkuð vel. Þetta er víst allt vinafólk bandsins frá San Francisco sem er að bera sig og leika listir.





P.s. Þetta er fyrsta kúl bandið síðan 93 sem klæðist Nirvana-bolum (tveir þumlar upp!).

Bárujárn - Skuggasörf (leikstjórn: Katrín Ólafsdóttir og Steinunn)
Hryllings-sörf-rokkabillíanarkistabandið Bárujárn hefur verið eitt ferskasta bandið í íslensku grasrótinni undanfarna mánuði. Fjögurra laga EP-plata kom út fyrir nokkrum vikum/mánuðum og hljómar nokkuð vel. Það er óheftur greddukraftur í bandinu sem getur af sér myrkraverkastemmningu í anda The Cramps.

„Eittvað nýtt, eitthvað nýtt, ég þarf eitthvað nýtt“

Myndbandið við lagið Skuggasörf gerðu kvikmyndakonan Katrín Ólafsdóttir og myndlistarkonan Steinunn, og er það undir áhrifum frá Actionisma-hreyfingunni frá Vínarborg http://en.wikipedia.org/wiki/Viennese_Actionism . Hér er það engin helvítis krúttnekt heldur er líkaminn notaður sem strigi fyrir litskrúðug og subbuleg málverk. Skeggjaðir menn í sleik, íslenksi fáninn brennur og rúsínan í pylsuendanum er þegar pissað er í gegnum fisk. Mest hneykslandi tónlistarmyndband íslandssögunnar?





Yeasayer - Ampling Alp (leikstjórn: Radical Friend)

Ég fíla þetta band ekkert sérstaklega en myndbandið er mjög töff, þó alveg elgsúrt. Speglaandlitin eru að gera góða hluti.
http://pitchfork.com/tv/#/musicvideo/3918-yeasayer-amblin-alp-we-are-free-secretly-canadian

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com