Wednesday, December 23, 2009

Frábær frumefni

Í Morgunblaðinu um daginn birtist plötudómur um fyrstu skífu hljómsveitarinnar Monsters of Folk (sem er samnefnd sveitinni). Umfjöllunin er í anda flestallrar menningarrýni blaðanna í dag, stutt og innihaldslaus.

Dómurinn ber fyrirsögnina „Frábær frumefni“ og telur þar fyrir utan mögur 84 orð, 5 setningar. Tónlist sveitarinnar (þ.e. innihaldi plötunnar) er ekki lýst eða hún metin á nokkurn hátt. Jú, „útkoman er óviðjafnanleg“, segir Ívar Páll Jónsson, en hvers vegna eða á hvaða hátt vitum við ekki. Hins vegar fáum við að vita að Monsters of Folk sé súpergrúppa og einnig eru meðlimir hennar og fyrri afrek þeirra talin upp samviskusamlega (þ.e.a.s með hvaða öðrum hljómsveitum þeir hafa spilað). Ef móðir mín læsi umræddan plötudóm væri hún nákvæmlega engu nær um þá tóna sem heyrast á skífunni. Er þetta klassísk tónlist, þungarokk, eða bófarapp? Eða er þetta kannski ekki tónlistardiskur yfir höfuð, tók súpergrúppan sig til og bjó til kvikmynd?


Hver er tilgangur gagnrýninnar ef hún er hvorki innihaldslýsing né gagnrýni yfirleitt?
Almennt hafa plötudómar blaðanna þessa dagana lítið annað gildi en auglýsingargildi (auglýsing fyrir hvern veit ég reyndar ekki enda fjalla þeir oft um plötur sem eru ekki einu sinni fluttar til landsins). Þeir gegna svona svipuðu hlutverki og „word of mouth“. Þessi plata á víst að vera góð, ég man samt ekki hvar ég las það eða hvernig tónlist þetta er. Smekkur þeirra örfáu einstaklinga sem skrifa dómana verða því mótandi, án þess að við fáum þó nokkra hugmynd hvað þeim finnst í rauninni gott eða slæmt við hverja plötu. Textagerðin er snilld, en ég fæ engin dæmi um þá snilld. Hljómaframvindan er frumleg, en á hvaða hátt? Melódíurnar kveikja ákveðnar tilfinningar í brjósti gagnrýnandans en hvaða tilfinningar og hvers vegna? Ég er ekki að segja að mat á gæðum plötu geti ekki verið tilfinningalegt, að gagnrýnandi þurfi að geta útskýrt undur hljómfræðinnar fyrir lesendum (þó að slíkt væri vel þegið) eða metið hana eftir fyrirframgefnum stöðlum, heldur aðeins það, að gagnrýnendum er borgað fyrir að reyna að setja fingurinn á tilfinningarnar sem listin kveikir í þeim og útskýra þær í orðum.

Ég skil eiginlega kveinara eins og Magna í „Á Móti Sól“ sem telja sig lagða í einelti af gagnrýnendum. Allur lýsingarorðaskalinn er notaður, en lýsir engu. Ef engin rök eru færð fyrir því af hverju einhver er rakkaður niður en öðrum hampað, þá getur það alveg eins verið af persónulegum ástæðum (þó svo að ég sé nokk viss um að það hafi ekki verið tilfellið með Magni-ficent).

En við hvern er að sakast? Að hluta til blöðin fyrir að úthluta 100 orðum í einn plötudóm og ætlast til að það verði eitthvað annað en lýsingarorðarúnk. Að hluta til gagnrýnendurnar sem nýta þessi 100 orð sem þeir fá á lélegan hátt í umfjöllun um persónu listamannsins, og að hluta til okkur sjálf sem látum þetta yfir okkur ganga og gerum ekkert í málunum.

Já, í þau örfáu skipti sem umfjöllun um tónlist fær eitthvað pláss í blöðunum eru þær línur notaðar undir frásagnir um tónlistarmennina sjálfa; hvernig Pete Doherty hagaði sér við upptökur eða hversu margar plötur Neil Young hefur gefið út. Umfjöllunin er ekki um poppið heldur poppkúltúrinn. Sjúkdómur að nafni persónudýrkun hefur orðið svo skæður í tónlistarbransanum að oft sjáum við ekki listina fyrir ofbirtunni frá persónu listamannsins. Persóna skaparans verður ekki einungis mikilvægari en sköpunarverkið, heldur kæfir hún verkið. Þessi sjúkdómseinkenni má reyndar finna allri listumfjöllun og mætti jafnvel segja að persónudýrkunin sé kýli á öllu samfélaginu. Og Guð minn góður, ég er eins sekur og hugsast getur. Sönnunargögnin eru m.a. í 90% færslna á minni blessuðu bloggsíðu og á veggjum svefnherbergis míns (en þar hanga myndir af 8 tónlistarmönnum).

En getum við algjörlega slitið í sundur listina og listamanninn, og væri slíkt æskilegt? Á listin að standa ein, eða þarf túlkun á henni alltaf að vera samtvinnuð skoðun okkar á skapara hennar? Eða svo ég orði þetta á poppþýðlegri hátt: verðfellir það hinn stórkostlega slagara Rock‘n‘Roll part.2 að hann sé saminn af barnapervertinum Gary Glitter, eða verður gullfallegur ástaróður Lou Reeds Perfect Day ómerkilegri vegna þess að hann var ortur til heróíns? Hefur það áhrif á skynjun okkar á tónlist Morrisseys að hann sé bersýnilega yfirlætisfullt fífl og verður heimshryggðarrokk Ian Curtis enn magnaðra vegna þess að hann fyrirfór sér?

Svar mitt hlýtur að vera einhvers staðar á milli jás og neis. Stundum, og að vissu leyti.

Listin krefst að sjálfsögðu skapara og er bundin hans sjónarhorni á heiminn, við fáum leiftursýn inn í hugarheim listamannsins. En oft á tíðum geta listaverk talað sjálf, listin virðist koma frá einhverjum æðri sköpunarkrafti og listamaðurinn er aðeins miðillinn sem sköpunin birtist í gegnum. Listin er falleg eða ógnvekjandi óháð tilætlunum listamannsins. Platan Ys (2006) með tónlistarkonunni Joanna Newsom finnst mér persónulega vera slíkt verk. Joanna tekur okkur í ævintýraferð með snjöllum textum og hádramatískum og gullfallegum lögum (eða kannski frekar verkum). Hljómar, melódíur, orð, útsetningar, hljóðfæraleikur og stórkostleg rödd söngkonunnar fléttast saman á eina mögnuðustu heildarupplifun sem ég hef fengið af nokkuru hljóðverki. En hvað veit ég um listakonuna? Jú, hún er ung og sæt og eftir að hún hætti að deita hinn miðaldra Bill Callahan byrjaði hún með einhverjum bandarískum grínista. Svo er upphafslagið á Ys, Emily, samið um systur hennar sem er stjörnufræðingur og þegar textinn er skoðaður út frá því virðist hann jafnvel vera svolítið barnalegt grín ætlað henni. Þessar upplýsingar gagnast mér ekki neitt til þess að njóta tónlistarinnar betur, og hafa jafnvel þveröfug áhrif. Listaverkið sem slíkt veitir mér mun betri mynd af manneskjunni og listakonunni Joönnu Newsom en þær slitróttu upplýsingar sem ég hef öðlast úr blöðunum.

En hins vegar getur vitneskja um listamanninn og fyrirætlanir hans gefið listinni aukna merkingu og dýpt. Jafnvel þó að tónlist Elliotts Smiths geti staðið ein gefur það henni enn tragedískari blæ að við vitum hin sorglegu örlög flytjandans (hann stakk sig í brjóstkassann, tvisvar!). Við fáum staðfestingu á því að treginn og þunglyndið í rödd Smiths er raunverulegur, og mætti því færa rök fyrir að þessar upplýsingar dýpki skilning okkar og tilfinningu fyrir tónlistinni.

Tilgangur þessa pistils er ekki að skjóta sérstaklega á skrif Ívars Páls (þrátt fyrir að umræddur dómur sé klárlega undir meðallagi), heldur á menningarskrif í blöðunum almennt. Dómur Ívars Páls lá bara einstaklega vel við höggi, vegna þess að ég hef verið að hlusta á M.o.F. og pæla í gagnsleysi plötudóma blaðanna.

Það er ýmislegt sem betur mætti fara í tónlistarumfjöllun blaðanna en þar er hins vegar líka fjölmargt gott. Við eigum t.d. nokkra mjög færa poppgrúskara (þá ber helst að nefna Arnar Eggert og Árna Matt) og sá hluti umfjöllunarinnar sem beinist að íslenksri grasrótartónlist er oft á tíðum mjög veglegur (þrátt fyrir að það hafi verið í símskeytastíl, fjallar Mogginn um nánast hverja einustu plötu sem gefin er út á landinu fyrir jólin). En metnaðurinn til þess að gera menningarrýnina að einhverju meira en þunnum skemmtilestri um poppkúltúr er klárlega ekki nógu mikill.

Þeir sem sjá um menningarrýni blaðanna þurfa að fara að skoða málin. Á sá hluti blaðanna aðeins að vera auglýsingasnepill fyrir útgefendur og tónleikahaldara eða vettvangur áhugavekjandi greina og fræðilegra skoðanaskipta? Netið hefur sannað sig sem frábær vettvangur fyrir bæði hlutverkin, eru þá blöðin hreinlega orðin óþörf? Þetta eru spurningar sem allir tónlistarrýnar og menningarpostular blaðanna þurfa að velta fyrir sér.

En hvað finnst mér þá um frumraun Monsters Of Folk. Jú, ég er sammála Ívari Páli, hún er frábær og ég myndi gefa henni fjórar stjörnur af fimm ef ég hefði slíkt vald. En það er efni í aðra grein, - um það er miklu meira að segja.
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com