Sunday, June 24, 2007

5 myndbönd 2

Það fer alveg ótrúlega mikið í taugarnar á mér þegar metnaðarfullar hljómsveitir með metnaðarfull lög gera metnaðarlaus tónlistarmyndbönd. Að sama skapi kætir það mig gríðarlega mikið þegar metnaður er lagður í myndböndin. Tónlistarmyndbönd geta dregið miðlungslag upp í að verða mjög gott og fullkomnað snilld frábærra laga. Samspil tónlistar og hins sjónræna þáttar getur skapað fullkomna heild og gert skynjun á lagi enn magnaðri. Einhverjir glöggir lesendur benda eflaust á að hljómsveitir (eða hljómlistarmenn) eigi að einbeita sér að því að gera tónlist en ekki myndbönd enda felist það í orðinu. Þetta finnst mér heimskulegt. Ef tónlistarmenn hafa ekki metnað í að gera eitthvað meira en að taka upp lélegt myndskeið af sjálfum sér að mæma lagið í stúdíói (jú, stundum gengur það upp en í hverfandi fáum tilvikum) eiga þeir bara að sleppa því að gera myndbönd (Pearl Jam slepptu því bara lengi vel). Það þarf svo lítið til þess að gera myndbandið góða skemmtun eða fá mann til þess að hugsa.

Hér eru 5 myndbönd sem eru til fyrirmyndar:

Fyrsta myndbandið sem ég ætla að sýna æstum aðdáendum mínum er frá 1989 og er við lagið Here Comes Your Man með indí-öldungunum frá Boston, Pixies. Hér hefðu þau getað mæmað lagið ,,eðlilega”, en varahreyfingar söngvaranna gera myndbandið óvænt og skemmtilegt og sýnir í raun að þau gera sér fulla grein fyrir fáránleika ,,mæmsins”.



Myndband Jonathans Glazers við lag U.N.K.L.E og Thom Yorke ,,Rabbit in your headlight” er líklega með þekktari tónlistarmyndböndum allra tíma og hefur það endað ofarlega á flestum listum yfir þau bestu. Í stíl við lagið er myndbandið nokkuð skuggalegt og óhugnalegt og kannski ekki það besta sem maður gerir að horfa á það rétt fyrir svefninn. Endirinn er svo gríðarlega flottur og óvæntur, ég efast um að það séu einhverjar djúpar pælingar bakvið söguþráðinn en það er vissulega aukaatriði.



Næsta myndband er með þeim súrari sem ég hef séð, en frábær skemmtun samt sem áður.
Einstaklega hugmyndaríkt og fyndið. Þetta eru verðandi Íslandsvinirnir í Of Montreal frá Georgíu-fylki Bandaríkjanna með hið skemmtilega nefnda lag ,,Heimdalsgate like a Promothean curse” af hinni frábæru Hissing fauna, are you the destroyer? sem kom út í ár.



Einn af þeim sem hefur fullkomnað þetta listform er eðalleikstjórinn Spike Jonze. Hér er myndband sem hann gerði árið 1996 við lagið Drop með dönsurunum/röppurunum í Pharcyde. Myndbandið er allt tekið upp aftur á bak og síðan snúið við, alveg fáránlegt að þeim takist að hreyfa varirnar og dansa í takt við lagið.
p.s. takið eftir Mike D úr Beastie Boys sem birtist í eina sekúndu.



Síðasta myndbandið er það eina sem einblínir á texta lagsins, enda textinn með þeim svalari sem ég hef heyrt á þessu ári. Þetta er gæðaskíturinn Thou shalt always kill með þeim kumpánum Dan Le Sac (sem gerir takinn) og hinum eitursvala Scroobius Pip (sem ,,rappar”).



Minni líka á fyrri færsluna mína um myndbönd. Skoða

Labels: , , , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com