Monday, May 07, 2007

5 líffræðilög

Nú velta einhverjir því fyrir sér hvernig í andskotanum ég geti réttlætt það að blogga í miðjum stúdentsprófum og einmitt fyrir Líffræðiprófið sem á að heita mikilvægasta prófið á náttúrufræðibraut. Jú, ég fann einfalda lausn á þessu… Ég blogga bara um líffræði. Ekki hætta að lesa, það verður líka einhver tónlist.

Air – Biological
Mér fannst nafnið bara of gott til að sleppa því að hafa þetta með í líffræðiþemanu. Ekki eitt af betri lögum Lofts en þó ágætt. Einnig vil ég benda á að tónlist Lofts er mjög fín til þess að læra við, þá mæli ég sérstaklega með Premier Symptoms, veit ekki af hverju ég hef tekið svo miklu ástfóstri við þá plötu.


Seabear – Arms
Síðasta föstudag nældi ég mér í fyrstu breiðskífu Seabear; The Ghost that carried us away og það voru vægast sagt góð kaup. Einstaklega þægileg og góð plata. Ég er ekki frá því að Arms sé bara besta íslenska lag ársins hingað til. Hmmm?... ég er eiginlega búinn að gleyma hvernig ég ætlaði að tengja þetta við líffræði en það tengdist eitthvað nafni lagsins, enda eru hendur mjög merkilegt fyrirbæri, svona líffræðilega séð.

Hlusta

Defiance, Ohio – Bikes and bridges
Megintilgangur þessa stórgóða lags frá fólk-pönk-krökkunum í Defiance, Ohio er greinilega að leiðrétt hinn hvimleiða misskilning um hjartað.

,, hearts aren't made of glass, they're made of muscle and blood and something else”

Já það er vísindalega sannað að hjartað er ekki gert úr gleri. Hjartað er nefnilega hnefastórt keilulaga, vöðvalíffæri sem er staðsett milli lungnanna inni í svonefndu gollurshúsi.

Hlusta

Green Day – Brain Stew
Popppönkararnir í Green Day kunna svo sannarlega sitthvað fyrir sér í líffræði, hér syngja þeir um heilastöppuna. En fyrir þá sem ekki vita skiptist heilinn í 4 heilahol, tvö þeirra eru hliðlæg og eru í hvelaheila, þriðja holið er í milliheila og það síðasta er í heilastofni og litla heila.


Ljótu Hálfvitarnir – Bjór, meiri bjór.
Hér syngja Þingeyjingarnir átta (níu skv. öðrum heimildum) um að alkohol sé lausnin. Það er vissulega göfugur málstaður en þeir mættu einnig koma því á framfæri að alkóhol er þvaglosandi efni sem hamlar losun á ADH, en það er einmitt þvagtemprandi hormón sem er losað frá afturhluta heiladinguls.
Hlusta

Ég skora á alla lesendur sem hafa ekkert að gera að nefna fleiri lög sem er mögulega hægt að tengja við líffræði. Það væri sérstaklega frábært ef einhver veit um lag sem fjallar um innri temprun hjartsláttar.

Labels: , , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com