Sunday, February 25, 2007

5 sunnudagslög

Aimee Mann – High on a Sunday 51
Við hefjum leikinn á bandarísku tónlistarkonunni Aimee Mann. Með aðstoð http://www.mymusic.blog.is/ sá ég hana spila á tónleikastaðnum Vega í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum. Ég og félagar mínir Vilhjálmur og Sigurður vorum að ég held einu manneskjurnar undir fertugu á staðnum, en það var samt frábært. Aimee byrjaði í nýbylgjubandinu 'til Tuesday árið 1982 en eftir að sveitin hætti árið 1988 lenti Aimee í samningavandræðum, gat ekki losnað undan samningi og gat því ekkert gefið út í 5 ár og lögin hrúguðust upp hjá henni. Síðan hún gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1993 hefur hún gefið út 5 breiðskífur og hefur einnig unnið sér það til frægðar að sjá um tónlistina í hinni mögnuðu kvikmynd Magnolia.

Johnny Cash – Sunday Morning Coming Down
Gott timburmanna-kántrí frá Johnny Cash, en lagið er samið af góðvini hans og okkar íslendinga Kris Kristofferssyni. Lagið kom upphaflega út á fyrstu plötu Kris en Johnny söng það árið 1970 í sjónvarpsþættinum sínum og olli það miklu fjaðrafoki, mörgum siðprúðum miðríkjamæðrum blöskraði algjörlega þegar Johnny söng ,,I´m wishing, Lord, that I was stoned”. Kris átti lengi í miklu ströggli með að komast inn í tónlistarheiminn og leiddi sér eiginlega inn bakdyramegin. Hann vann um tíma sem húsvörður hjá Columbia Records í Nashville en honum var stranglega bannað að reyna að nálgas listamenn útgáfunnar láta þá fá efni eftir sig. En Kris dó ekki ráðalaus og ákvað að fljúga þyrlu að húsi Johnny Cash og ná þannig tali af honum. Kris lenti í bakgarðinum og Johnny og June sáu að þessi maður hafði greinilega metnað og ákvaðu að hlusta á það sem hann hafði fram að færa. Bæði urðu þau strax mjög hrifin af lagasmíðunum og Kris sjálfum. Johnny söng ótal mörg lög eftir hann á ferlinum. Sunday Morning Coming Down er þekktasta lag Kris í flutningi Johnny’s en hans allra frægasta er þó líklega Me and Bobby McGee í flutningi Janis Joplin. En Kris er fleira til lista lagt, hann hefur leikið í ótal kvikmyndum og þáttum, oftast leikur hann eitthvað rosalegt hörkutól í Hollywood B-myndum eða spagettívestrum. Meðal mynda hans eru Pat Garrett & Billy the Kid, Blade I, II og III og Planet of the Apes (og auðvitað Stagecoach). Vægast sagt gæðamyndir!



Johnny and the Rest – Sunday Blues
Blúsbandið Jón og Afgángarnir er hérna með raf-magnaðan Sunnudagsblús. Keli söngvari hljómsveitarinnar leyfir okkur hérna að heyra í sinni mögnuðu rokk/blús söngrödd , klárlega einn öflugasti rokksöngvari á landinu, þrátt fyrir ungan aldur. Röddin minnir oft á Jenna í Brain Police og jafnvel Jack White stundum (eins kjánalega og það hljómar). Bandið hefur verið til í nokkur ár en hefur loks síðustu mánuði verið að vekja athygli. Spiluðu þeir m.a. hjá Jóni Ólafs og virtust gömlu blúskempurnar vera mjög ánægðir með þá. Einnig hafa þeir verið mjög duglegir við spilamennsku, aðallega á Sportbarnum og Classic Rock og eru orðnir eitt þéttasta neðanjarðarband Reykjavíkur.

Hér má heyra lagið.

Singapore Sling – Sunday Club
Lagið Sunday Club er af annarri plötu hinnar eitursvölu Singapore Sling, Life is killing my rock’n’roll. Lagið er mjög dæmigert fyrir hljómsveitina, skítugur gítar, surg (feedback), letilegar trommur og töffaralegt raul frá höfuðpaurnum Henriki Bjarnasyni. Hef reyndar heyrt ýmislegt misjafnt talað um persónuleika hljómsveitarmeðlima, en þannig er það bara, þú ert ekki kúl nema þú sért drullusokkur.

Morrissey – Everyday is like Sunday
Svo ætla ég að enda á þessari snilld frá Morrissey. Þetta er lokalagið á tónleikum Morrissey´s í Dallas 17.júní árið 1991. Þetta er eiginlega svona ,,Indie Kids gone mad".





Lögin eru komin á tónlistarspilarann á www.kristjangud.blog.is ef hann virkar það er að segja, þessi moggabloggsspilari er ekki alveg að gera sig.

Labels: , , , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com