Saturday, August 23, 2008

Eftir blóðbaðið...

Ein sérstakasta og jafnframt ein besta öfgarokkhljómsveit síðasta áratugar er bandaríska síð-harðkjarnasveitin The Blood Brothers frá Seattle í Washington. Stórkostlegur og hugmyndaríkur hljóðfæraleikur og tveir snældubrjálaðir söngvarar sem sungu súrrealíska texta um samúræja, risapáfagauka, vændiskonur, sveðjur og ást sem rímar við viðbjóðslegt bílslys. Það var mikill missir þegar að bandið lagði upp laupana í fyrra eftir 10 ára starfsemi sem skilaði sér í 5 frábærum breiðskífum og tveimur EP plötum. Allir 5 meðlimir sveitarinnar hafa ávallt verið verið duglegir að dunda sér í ýmisu öðru en Blóðbræðramúsík, dæmi um góð hliðarverkefni BB meðlima eru danspönkbandið Neon Blonde og thrashcore brjálæðið Head Wound City (ásamt Nick Zinner úr YeahYeahYeah’s og tveimur gæjum úr The Locust).


Myndband við lagið Ambulance vs. Ambulance af Burn Piano Island, Burn (2003)

Nú eftir breiköppið hafa þrjú ný bönd (með mismunandi áherslur) verið stofnuð og vel þess virði að kíkja á þau. Því miður virðast þau ekki vera alveg jafn kynngimögnuð og Blood Brothers og virðast allir meðlimirnir vera að leita í áttina að hlustendavænni músík en áður. Annar söngvaranna, Johnny Whitney, segist meira að segja að í dag hafi hann mun meiri áhuga á poppi en pönktónlist.

Jaguar Love inniheldur helíumsöngfuglinn Johnny Whitney (rödd hans hefur verið líkt við Robert Plant á sterum eða Perry Farrell eftir kynskiptiaðgerð) og gítarleikarann frábæra Cody Votolato ásamt J Clarke úr Pretty Girls Make Graves. Þeir gáfu út frumraun sína Take me to the Sea á Matador útgáfunni síðla sumars. Hægt er að hlusta á plötuna í heild sinni á mæspeis síðu Jaguar Love. Músíkin er eðal indí-art-popprokk með ýmiskonar stílbrigðum og –brotum. Annaðhvort elskar þú Johnny eða hatar, ég elska...


Past Lives er hljómsveit hins 3/5 hluta Blood Brothers. Þar eru söngvarinn (sem er lítið síðri en Johnny) Jordan Blilie, bassa- og hljómborðsleikarinn Morgan Henderson, trommuleikarinn Mark Gajdahar og gítarleikarinn Devin Welch (sem var um tíma blóðbróðir). Past Lives gáfu út sína fyrstu EP plötu á Suicide Squeeze 4.ágúst og ber hún nafnið Strange Symnetry. Tónlistin er einhverskonar indírokk eða síð-pönk með math og hardcore áhrifum. Hægt er að hlusta á Strange Symnetry á Mæspeis svæði hljómsveitarinnar. Þó að í fréttatilkynningunni um andlát The Blood Brothers hafi verið talað um að þeir hafi skilið í góðu virðist vera einhver rígur í gangi, sem sést kannski best á því að Past Lives köstuðu út sinni plötu óvænt viku fyrir útkomu Jaguar Love plötunnar. Og ef það er ekki nóg, þá eru þeir ekki vinir á Mæspeis!


Ef nýju hljómsveitirnar eru afkomendur Blood Brothers er Champagne Champagne klárlega bastarðurinn í fjölskyldunni. Kampavín Kampavín er elektró-popp skotið hipp-hopp, eins langt frá tónlist BB og hugsast getur. Maðurinn á bakvið bandið er trommuleikarinn (og nú taktsmiðurinn) Mark Gajdahar sem nú kallar sig DJ Gajamagic. Yfir takta kappans rappar svo froðukjafturinn MC Pearl Dragon og Thomas Gray er hæpmaðurinn. CC hafa verið iðnir við tónleikahald undanfarna mánuði og hafa vakið athygli fyrir góða stemmningu. Gajdahar spilar taktana af tölvunni sinni en syngur einnig bakraddir og spilar á melódikku og fleiri hljóðfæri.


www.myspace.com/thebloodbrothersband
www.myspace.com/neonblondebats
www.myspace.com/headwoundcity
www.myspace.com/jaguarloveband
www.myspace.com/pastlivesmusic
www.myspace.com/champagnechampagne
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com