Monday, July 28, 2008

Roskilde – 4.hluti – Laugardagur

VARÚÐ... þessi póstur er langur (nánar tiltekið 1685 orð)

Þegar að ég vaknaði snemma á laugardagsmorgun lofaði ég sjálfum mér að endurtaka mistök gærkvöldsins aldrei aftur. Nú yrði það meiri músík, enginn bjór... ókei, minni bjór. Ég ákvað að taka daginn snemma og kíkti strax klukkan 12:45 í Astoria á Wildbird & Peacedrum: Villifuglinn og Friðardrumban er dúett skipaður hressum krökkum frá Svíþjóð. Strákurinn lemur húðir á meðan stelpan ýmist syngur eða öskrar yfir. Þau kynntust víst í tónlistarháskóla þar sem þeim fannst of mikil áhersla á tækni en lítil á innlifun. Þau gefa því öllum hefðbundnum spilareglum fingurinn og gefa tilfinningunum lausan tauminn. Á köflum tókst þeim að láta styrk laganna yfirgnæfa tómleikann sem fylgdi hljóðfæraskipaninni. Best tókst þeim til í rólegri lögunum (þar sem orgel og önnur hljóðfæri voru einnig brúkuð) og þegar að þau sungu saman. En oftast fannst mér þau hljóma eins og óþekkir krakkar sem hafa komist í trommusettið hans pabba og míkrafón. www.myspace.com/wildbirdsandpeacedrums

Næst kíkti ég á danska kamelljónið A Kid Hereafter (Frederik Thaae) sem spilaði á þrennum tónleikum á hátíðinni. Hverjir tónleikar höfðu sitt þema; popppönk, metall og strengjapopp. Þennan dag var það metalfílingur í kallinum. Þetta var svona hálfgert söngleikjagrindcore, eða smile-metal eins og hann nefndi það sjálfur. Hundleiðinlegt alveg hreint. Nenni ekki að eyða mínum tíma eða ykkar í meiri útskýringar. www.myspace.com/akidhereafter

Ég hélt áfram með skandinavískt þema og kíkti á sænska hjartaknúsarann José Gonzalez. Hvert einasta lag Josés hljómar u.þ.b. nákvæmlega eins, svo að eftir nokkur lög varð ég þreyttur á fyrirsjáanleikanum. Flutningurinn var óaðfinnanlegur en tilfinningalausari en hreingerningarþjarkur. Þegar ég var að lauma mér út hljómaði hittarinn Heartbeats úr skopparaboltaauglýsingunni. Pælið þið í því hvað það er ömurlegt að vera frægur fyrir að flytja lag einhvers annars, og ekki nóg með það, heldur sló það í gegn í auglýsingu. Jósé verður nú að fara að bomba út fleiri slögörum til að hrista þetta af sér. www.myspace.com/josegonzalez

Nú stóð valið á milli Tokyo Police Club frá Kanada og Efterklang frá Danmörku. Þar sem Roskilde er draumaspilastaður allra danskra hljómsveita grunaði mig að Efterklang myndi flagga öllu, sem og þeir gerðu, og kíkti því þangað. En fyrst þurftu tónleikagestir að bíða í rúman hálftíma vegna skipulagsleysis hátíðarhaldara. Í fyrsta lagi voru þeir, eitt vinsælasta danska bandið í dag, látnir spila í Astoria, eina lokaða tjaldinu þ.e.a.s. sem hefur aðeins tvo (eða þrjá?) litla innganga. Menn hefðu nú alveg getað sagt sér að þeir myndu fylla það. Þegar að of mikið fólk mætti þurfti að bíða eftir aukaöryggisvörðum til að halda aftur af mannfjöldanum. Þetta jók bara á hitann, svitann og óróann í tjaldinu. Eníveis... svo byrjuðu tónleikarnir. Efterklang fannst mér góðir. En ýmislegt skemmdi fyrir. Frá Orange heyrðust djúpir bassatónar frá tónleikum rapparans L.O.C. og trufluðu á angurværustu augnablikum tónleikanna. Svo voru vinir þeirra í hljómsveitinni Slaraffenland þeim til halds og trausts, stundum hjálpuðu þeir til með flutninginn en þess á milli voru þeir með allt of æfð fíflalæti, sápukúlur og bréfskutlur sem þeir köstuðu í tónleikagesti. Fíflalætin gerðu þó eitthvað fyrir hinn sjónræna hluta tónleikanna (sem var mjög glæsilegur). Efterklang voru í hvítu einkennisbúningum sínum með skikkjur og aukamennirnir í rauðum íþróttagöllum. Tónleikarnir voru gríðarkraftmiklir (enda fokking mörg hljóðfæri í bandinu). Hljómsveitin hefur skapað sér sinn eigin stíl, einhvers konar epískt (en þó hresst) mix af Arcade Fire og SigurRós með bæði lifandi og rafrænum hljóðum og flottum raddútsetningum. Nokkuð gott en fæstum laganna tekst þó að hrifsa mig til sín. www.myspace.com/efterklang

Næstu tímana tók ég því rólega en kíkti þó við á Joan as Police Woman sem var skítsæmileg. Mikill fjöldi miðaldra fólks var saman komin til að hlýða á Jóhönnu. Joan Wasser hefur unnið með ýmsum flinkum listamönnum s.s. Anthony (úr The Johnsons), Rufus Wainwright og þáverandi kærasta sínum, Jeff Buckley. Nú kallar hún sig semsagt Joan as Police Woman og hefur gefuð út tvær plötur undir því nafni. Joan spilaði bæði á píanó og gítar og með henn spiluðu bassafantur og trommari. Voða mellow músík. www.myspace.com/joanaspolicewoman

Ég sá útundan mér örlítið af Judas Priest. Leður, gaddar, rokk´n´mótorhjól. Ekki mín tegund af kaffi.

Nú fóru málin að vandast. Hávaðahetjurnar í My Bloody Valentine og hinn síungi Neil Young spiluðu á u.þ.b. sama tíma. Ég afréð að kíkja á byrjunina á MBV. Ég mætti snemma til að ná góðu stæði og var því orðinn vel spenntur þegar að fyrstu drunurnur heyrðust frá gítarmagnara Kevin Shields. Strax var talið í snilldina I only said af Loveless. MBV stóðu undir nafni og spiluðu ógeeeeeðslega hátt. Eftir hvert lag skiptu báðir gítarleikararnir um gítar og fengu alltaf nýjan Fender Jaguar, einfaldur smekkur hjá krökkunum. Fyrst velti ég því fyrir mér hvort að þau væru bara að koma saman aftur til að græða pening (eins og t.d. Pixies og Happy Mondays) því að þau stóðu með hálfgerðan fýlusvip og horfðu niður á tærnar sína á meðan þau spiluðu. Svo áttaði ég mig á því að ég væri auðvitað að horfa á alvöru Shoegaze-band. Ég sá aðeins nokkur lög en voru þau öll ótrúlega góð, hafa greinilega engu gleymt þrátt fyrir langt hlé. Tónleikarnir fengu líka gríðarlega góða dóma í dönsku pressunni. Ég flýtti mér því næst yfir á Orange þar sem að gamlinginn Neil Young var um það bil að byrja. www.myspace.com/mybloodyvalentine

Njáll (ekki lengur) Ungi stóð undir mínum væntingum sem voru þónokkrar. Ég bjóst reyndar allt eins við því að hann myndi bara vera gamall og súr. En nei, það var þvílíkur kraftur í kallinum, spilaði mikið af nýjum lögum (hann er einn af fáum gömlum kempum sem semja ennþá góða tónlist), kóverlög og gamla krádplísera. Þó fannst mér fullmikið af gítarsólóum og hvert einasta lag endaði með nokkurra mínútna hávaða/sólói/brjálæði sem varð skiljanlega svolítið þreytt eftir fyrstu lögin. En ætli Neil verði ekki að fá að hafa gaman að þessu líka, það getur varla verið gaman að spila Heart of Gold í trilljónasta skipti. Eins og flestir var ég mjög sáttur með nokkurn fjölda laga af meistarastykkinu Harvest. Best fannst mér Needle and the Damage Done sem hefur alltaf hreyft við mínu litla hjarta. Ég náði ekki að klára tónleikana því mér fannst ég verða að kíkja í örfáar mínútur á tónleika Girl Talk. www.myspace.com/neilyoung Myndbandið sýnir hluta af útgáfu Neils af bítlasnilldinni A day in the life.









Girl Talk er listamannsnafn ameríkanans Greg Gillis sem hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár. Hann er nýbúinn að gefa út fjórðu breiðskífu sína Feed the Animals hjá Illegal Arts útgáfunni. Hann sló eiginlega í gegn í netheimum með plötunni Night Ripper árið 2006. Tónlistin er merkileg að því leyti að ekkert í henni er samið af Gillis. Hann blandar aðeins saman lögum eftir aðra tónlistarmenn (t.d. takti úr einu lagi og söng/rapp úr öðru). Í hvert lag notar hann búta úr að minnsta kosti 12 öðrum lögum til að búa til nýtt lag. Hann blandar oft á tíðum mjög mismunandi stefnum, rokki, rappi, elektró og fleiru og bakar þannig einstaklega dansvæna böku. Hann er þekktur fyrir villta sviðsframkomu. Þetta kvöld var engin undantekning. Hann fékk fullt af fólki upp á svið sem dansaði eins og það ætti lífið að leysa. Klæddur eins og tenniskappi frá níunda áratugnum stóð Greg kengboginn yfir tölvunni á milli þess sem að hann hoppaði um sviðið með áhorfendunum. Svo greip hann líka í hljóðnemann og kallaði hey, og áhorfendaskarinn svaraði hó. Stemmningin í Cosmopol var ólýsanleg og hver einasti maður í tjaldinu var dansandi, jafnvel súrustu fýlupúkar hnykktu mjöðmunum og stöppuðu í takt við tónlistina. www.myspace.com/girltalkmusic

Nú var ég farinn að verða ansi þreyttur en fékk mér smá hressingu og lét mig hafa það. Næst var nefnilega á svið sú hljómsveit sem ég beið hvað spenntastur eftir, Liars. Liars sönnuðu sig sem eitt framsæknasta band síðustu ára með hinni stórkostlegu Drums not Dead árið 2006. Hljómsveitin byrjaði sem hluti af Diskó-Pönk senunni í New York en flutti til Berlínar og færði sig fljótt yfir í einhverskonar tilraunakennda hávaðablöndu af indírokki, síðpönki, og No Wave (stefna sem var upp á sitt besta í NY í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins, einkenndist af hávaða, skorti á melódíum og níhílisma, dæmi um NoWave bönd eru DNA, Teenage Jesus & The Jerks og jafnvel Sonic Youth í byrjun ferilsins). Ekki var mikill fjöldi af fólki í litla Pavillion tjaldinu enda músíkin langt frá því að vera allra. Þeir sem mættu virtust þó flestir vera jafn spenntir og ég. Lygararnir komu fram sem kvartett en ekki tríó eins og venjulega og fékk því höfuðpaurinn, hinn ástralski, Angus Andrew að leika lausum hala án þess að vera bundinn við gítarinn. Hann er jafn undarlegur í persónu og hann hljómar. Persónulega fannst mér tónleikarnir mjööög góðir. Þeim tókst að endurskapa hina sérstöku stemmningu platnanna og fengu fólk jafnvel til að syngja með í nokkrum laganna. Þeir fáu áhorfendur sem voru mættir voru vel með á nótunum og dönsuðu við sítrónusúra tónlistina. Aðallega tóku þeir lög af nýjustu plötunni Liars sem kom út í fyrra og DND. www.myspace.com/liarsliarsliars

Þar sem ég hafði ekki náð að plata neinn með mér á Liars var ég einn þegar að ég kíkti yfir á Chemical Brothers. Stemmningin var gríðarleg. Tugþúsundir manna dansandi í Hróarskeldunóttinni við dúndrandi danstónlist og geðveikt ljósasjóv. Þegar að myndavélum risaskjánna var beint að efnabræðrunum sást hve gamlir þeir eru að verða. Tónlistin gaf það þó engan veginn til kynna. Því miður var ég einn, ógeðslega þreyttur og ekki á neinum ólöglegum lyfjum og nennti því ekki að stíga dans með mannfjöldanum. www.myspace.com/thechemicalbrothers

Ég rölti yfir að Cosmopol, fékk mér sæti fyrir utan og hlustaði á krónprinsa Dubstepsins Skream og Benga sem spila núna undir nafninu Magnetic Man. Wahwah-bassinn var auðvitað dýpri en Atlantshafið og taktarnir einstaklega vel slípaðir.

Klukkan var að verða 02:00 og ég fór að huga að heimferð. Ákvað þó að ég yrði að koma við í Pavillion og sjá pönkkálfana í No Age. Nýjasta LP-platan þeirra, Nouns, fékk nýlega 9,2 hjá Pitchforkmedia og verður það að teljast mjög hátt á þeim bænum. Tónlist tvíeykisins fannst mér mjög áhugaverð en ég verð samt að viðurkenna að þeir náðu ekki alveg að grípa mig. Það er þó skiljanlegt þar sem að ég var gjörsamlega uppgefinn eftir 14 tíma á tónleikasvæðinu. Ég held að ég skuldi þeim algjörlega annan séns. Þegar ég var byrjaður að dotta aftast í fámennu tjaldinu fór ég svo loksins heim. www.myspace.com/nonoage
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com