Monday, July 28, 2008

conor oberst conor oberst

Eins og svo margir aðrir legg ég ávallt við hlustir þegar að fyrrverandi undrabarnið Conor Oberst (Bright Eyes) gefur út nýtt efni. Þann 5.ágúst kemur út fjórtánda plata kappans og sú fyrsta undir eigin nafni í 12 ár. Hún ber hið einkar frumlega nafn, Conor Oberst. Með honum á plötunni spilar hljómsveitin The Mystic Valley Band.

Hann er greinilega eitthvað að losna við feimnina því að auk þess að nefna plötuna eftir sér er hann í fyrsta skipti á sínu eigin plötuumslagi.

Platan er talsvert ólík síðustu plötu hans, Cassadaga, hún er hrárri og á vissan hátt persónulegri. Textarnir eru um ferðalög, sambandsslit, krabbameinssjúkan strák og litla sem enga pólitík. Tónlistin er auðmeltanleg sveitatónlist sem nær því miður aldrei að komast með tærnar þar sem skífur eins og Letting off the Happiness, Lifted or The Story Is in the Soil, Keep Your Ear to the Ground, Fevers&Mirrors og I´m wide awake it´s morning eru með hælana. Hann er greinilega að verða sáttari með lífið því að þetta er ljúf plata sem rennur ábyggilega ágætlega niður með heitum kakóbolla.

Þrátt fyrir að Conor syngi nú aftur undir sínu nafni þurfa aðdáendur Bright Eyes engu að kvíða. Upptökur á næstu plötu "hljómsveitarinnar" hefjast í Nóvember.

Einnig hefur heyrst að Conor sé að vinna með M.Ward og Jim James (úr My Morning Jacket) að gerð samstarfsplötu. Djöfull hljómar það spennandi.

Hægt er að hlusta á alla nýju plötuna hér... http://www.conoroberst.com/album/

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com