Tuesday, July 17, 2007

Roskilde Festval: Fyrri hluti

Nú fara allar bloggsíður líklega að yfirfyllast af ferðasögum frá nýafstaðinni Hróaskelduhátíð, en mér er alveg sama og ætla að segja ykkur hvað mér fannst um böndin. Ef þið viljið heyra um það þegar tjaldið mitt sökk, þegar ég borðaði stærsta hamborgara sem ég hef séð eða þegar ég datt með hálsinn á stól á Justice þá er ég alltaf til í að segja frá því í eigin persónu. Þar sem þessi færsla er nokkuð löng og athyglisgáfa nútímamanneskju er skuggalega lítil ætla ég að birta hana í tveimur hlutum, sá seinni kemur að öllum líkindum á morgun.

Fimmtudagur/ Rigningardagurinn mikli:
Hátíðin hófst hjá mér í Arena tjaldinu með kanadísku krökkunum í Arcade Fire. Ég bjóst við miklu en aldrei hefði ég búist við þvílíkum krafti, spilagleði og töffaraskap. Arcade Fire hófu hátíðina svo sannarlega með stæl, mér fannst þau á köflum betri en á plötunum og sviðsuppstillingin var ótrúlega töff. Tónleikarnir hófust á myndbandi af brjálaðri predikun með einhverjum ofurkristnum kvenpredikara og enduðu á Wake Up. Í þessu einnar mínútu myndskeiði af laginu Rebellion (Lies) má sjá hve söngvarinn Win Butler var orðinn pirraður á lélegum hljóðnemastatífum, greinilega eðal-dramadrottning.
Eftir smá Vegan-snarl kíktum við á James Murphy og félaga í LCD Soundsystem, hressleikinn var í fyrirrúmi en samt fannst mér eitthvað vanta upp á. Krafturinn var ekki nógu mikill. Þau náðu ekki að skapa jafn mikla stemmningu og tónlistin býður upp á.
Eins og sönnum íslendingum sæmir biðum við félagarnir síðan spenntir eftir Björk. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sé heila tónleika með henni og skemmti ég mér einstaklega vel. Ég hef ekki kynnt mér tónlistina hennar nógu vel og hefði það verið skemmtilegra að þekkja lögin en það kom svo sem ekki að sök. Allt bandið var magnað, Björk, blástursstelpurnar, Jónas Sen og gæjarnir á undarlegu hljóðfærunum sem litu út eins og radar (sjá mynd). Maður hefði eflaust notið tónleikanna enn betur ef maður hefði ekki haft áhyggjur af tjaldinu sem var að sökkva á sama tíma.

Föstudagur:
Föstudaginn byrjuðum við ekki fyrr en 19:30 (enda þurfti að redda nýju tjaldi o.fl.) með helgömlu New York rapp/pönkurunum í Beastie Boys. Voru þeir líklega mesta tilhlökkunarefni mitt fyrir hátíðina og létum við það ekki aftra okkur að á sama tíma voru mörg spennandi bönd að spila (þ.e. Boris (Japan), Konono N°1 (Kongó), og Klaxons (UK)). Strákarnir stóðu undir væntingum, tóku nokkur pönk lög, nokkur lög af nýju instrumental plötunni og einnig þónokkra slagara, enduðu á Sabotage og tileinkuðu það góðvini sínum George W. Bush. Hljóðið var reyndar eitthvað að stríða þeim en það bættu þeir upp með óendanlegum svalleika. Ógleymanleg minning að hlusta á Intergalactic og þvílíka slagara í góðu veðri með góðum vinum, drekkandi vont rauðvín úr poka. Hér má líta á Intergalactic á tónleikunum.
Brasilísku rafrokkpoppararnir í Cansei de Ser Sexy (CSS) spiluðu næst í Odeon tjaldinu og voru gríðarlega hress. Líklega einir bestu og heitustu tónleikar hátíðarinnar. Sveitina skipa fimm stelpur og einn strákur og voru þau gífurlega þétt og sýndi söngkonan mikla tilburði og skartaði einnig glæsilegum samfesting sem gladdi alla sem hrífast af kynþokkafullum konum.
Queens of the Stone Age hófu leik á Appelsínugula sviðinu um leið og CSS byrjuðu sína tónleika. QOTSA spiluðu þónokkuð lengur svo okkur tókst að sjá síðustu lögin hjá þessu magnaða rokkbandi. Þeir voru mjög þéttir, hljóðið feitt og Joshua Homme eitursvalur að venju. Ég hefði viljað sjá meira af þeim en stundum verður maður að velja og hafna. Eftir að Drottningarnar luku sér af kíktum við á Peter, Björn and John sem voru skítsæmilegir, það er eitthvað sem er ekki að klikka hjá mér og þessum strákum. Eftir að þeir tóku Young Folks ásamt Jamie úr Klaxons beiluðum við og ætluðum að sjá Cold War Kids en fréttum þá að þeir kæmu ekki fram. Þá var haldið á Lee ,,Scratch” Perry og Adrian Sherwood. Það var ágætis skemmtun að sjá reggígoðsögnina Lee ,,Scratch” raula yfir takta Adrians. Hann var svo sem aðallega að einbeita sér að því að mála á vegginn og að vera ótrúlega svalur og útúr-blingaður. Ég hef sjaldan fundið jafn ,,lífræna” lykt og á þessum tónleikum. Síðustu tónleikar kvöldsins voru svo með íslands og Singapore Sling vinunum The Brian Jonestown Massacre. Brjálaða einvaldinum í BrianJonestown Anton Newcombe (sem skartaði bol merktum 12 tónum) og félögum tókst svo sannarlega að skemmta mér. Bæði með einföldu og einhæfu hipparokki sínu og töffaraskap. Anton reyndi ósjaldan að ,,pikka fæt” við áhorfendur, seinna stöðvaði hann tónleikana til að kenna hinum meðlimunum nýtt lag og að lokum var hann við það að ráðast á annan gítarleikarann sem klúðraði hljómunum sínum aftur og aftur.
ANTON: Dont fuck up your chords you fuckin rockstar! When your band plays roskilde, you can fuck up the chords but not now!. [u.þ.b. orðrétt]
Síðan þegar einhver hæfði gítarinn hans með vatnsglasi:
ANTON: Do you like to throw things at starving babys? I feed my kids with this fucking guitar!
Ef einhver trúir þessu ekki þá mæli ég með að sá hinn sami kíki á heimildarmyndina Dig! um bandið sem fæst m.a. á Aðalvideoleigunni.

Hægt er að sjá myndbönd frá flestum tónleikunum á YouTube með því að leita að roskilde 2007 og nafni hljómsveitar. Mest eru þetta þó stutt myndbrot í lélegum gæðum og með lélegu hljóði.

Labels: , , , , , , , , , , , , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com