Roskilde festival – 3.hluti – Föstudagur
Eftir þessa hressu byrjun á deginum kíkti ég yfir í Lounge tjaldið og tók því rólega í sandinum á meðan hinn sænski Krusseldorf spilaði sína tjilluðu ambient elektrómúsík. Roskilde vefsíðan kallar tónlistina intellegent dub. Það finnst mér asnaleg skilgreining en þar sem ég get ekki boðið betri lýsingu verður það að nægja. Huggulegt. http://www.myspace.com/krusseldorf
Nokkrir bjórar í viðbót og allir voru tilbúnir í Kongunga Leonríkis sem spiluðu á Appelsínusviðinu klukkan sjö. Predikarasynirnir (+frændinn) eru nokkurn veginn komnir úr sveittu sveitarokkinu yfir í einhvers konar indí-leikvangarokk. Það var gott þar sem að Orange hentar auðvitað einkar vel til leikvangarokks. Mér finnst nú gamla stöffið skemmtilegra en skemmti mér þó konunglega (hehei!). Kings of Leon spiluðu efni af öllum plötunum þremur sem og spánýtt dót. Guð almáttugur var með þeim í liði og splæsti í sól og sumaryl, sem smellpassaði auðvitað við hressandi tónana. http://www.myspace.com/kingsofleon

Næst var kíkt á Seasick Steve sem spilaði í minnsta tjaldinu, Pavillion. Steve þessi er bandarískur sveitablúsari sem hefur lifað ýmislegt, búið á götunni, baskað fyrir salti í grautinn og ferðast víðsvegar um heiminn en býr þessa dagana í Noregi (sem getur nú reyndar seint talist töff fyrir svona ref eins og hann). Stebbi mætti íklæddur smekkbuxum og skógarhöggsskyrtu og skartaði auðvitað sínu síða gráa skeggi. Kallinn náði upp mikilli stemmningu vopnaður engu öðru en gömlum gítar og rámri röddu (jú, og trommum í nokkrum lögum). Slagarar eins og Things go up og Chiggers (sem fjallar um pöddur í suðurríkjunum) fengu að hljóma. Tónleikarnir voru líklega óvæntasta ánægja hátíðarinnar hjá mér að þessu sinni. Eintóm gleði og sjóveiki. www.myspace.com/seasicksteve Á myndbandinu sést ekki mikið merkilegt en lagið er nett.
Það var ekki komið nóg af blús þetta kvöldið því stuttu seinna hóf Nick Cave upp raust sína og söng No Pussy Blues (enga fýsu að fá) með töffurunum í Grinderman. Drulluskítugt gráfiðringsrokkið fór vel í tónleikagesti þó að Ellefan (eða eitthvað álíka skítugt pleis) hefði hentað betur sem tónleikastaður. Grinderman er tiltölulega nýtt band, aðeins búið að gefa út eina plötu og spiluðu því aðeins í rétt rúman klukkutíma. Mulningsmannslögin nægðu ekki einu sinni í uppklappið og brugðu þeir á það ráð að enda á Bad Seeds laginu Tupelo. Nick var í stuði og verður eiginlega bara meira töff með aldrinum. www.myspace.com/grinderman

Nick brosir sínu breiðasta í rauða Michael Jackson leðurjakkanum sínum.
Eftir tónleikana fór ég heim í tjald í þeim tilgangi að klæða mig í meiri föt. Mér fannst auðvitað frábær hugmynd að leggja mig í smástund áður en að ég héldi aftur á tónleikasvæðið. Ég ekki fyrr en næsta morgun. Ég fór auðvitað á feitan bömmer yfir því að hafa misst af Battles og The Streets. Mig langaði þó ekki að fara að gráta fyrr en ég sá myndbönd frá tónleikum Mike ,,Streets” Skinners. Einhver sagði að myndir segi meira en mörg orð. Líklega segja myndbönd meira en myndir svo að ég get bara sleppt því að tala. Fyrra myndbandið sýnir tvennuna Blinded by the lights og Dry your eyes af A Grand don´t come for free og seinna myndbandið sýnir magnaðar lokamínútur tónleikanna (sem fengu 6/6 í nokkrum dönskum blöðum).
Annars spilar Skinner annð hvert ár á hátíðinni (allavega 06 og 08) þannig að kannski þarf maður bara að mæta 2010 til þess að bæta upp fyrir þetta.
<< Home