Monday, February 09, 2009

Sunnudagur

Blitzen Trapper eru að gera allt vitlaust í mínum herbúðum þessa dagana. Sérstkalega á sunnudögum.


Saturday, February 07, 2009

Vegas baby! Vegas!

Ég er að fara í Swingers partý í kvöld. Nei, engin makaskipti né kynlíf, heldur mun góður hópur manna horfa á hina mjög svo mögnuðu mynd Swingers frá árinu 1996 og klæða sig upp í tilheyrandi klæðnað. Myndin sem er skrifuð af Jon Favreau (ásamt vinum) inniheldur fjöldan allan af yndislegum frösum, samtölum og swingtónlist. Í þessu atriði er hinn sorgbitni Mike (Favraeu) loksins að komast yfir gömlu kærustuna sína og býður Lorraine (Heather Graham) upp í sveiflu. Lagið heitir Go Daddy-O og er með hljómsveitinni Big Bad Vodoo Daddy



Við skulum halda okkur við saxafóninn því Ska goðsagnirnar í Madness eru eitt þeim þremur böndum sem eru staðfest á Hróarskelduhátíðina 2009. Mér og öllu glaðlyndu fólki til mikillar gleði (já, og hin böndin eru Coldplay og Slipknot). Madness eru að halda upp á 30 ára afmæli sitt í ár og munu gefa út sína níundu hljóðversplötu annan mars og mun hún bera nafnið Liberty of the Northern Folgate. Hér er einn af fjölmörgum klassíkerum hljómsveitarinnar, Nightboat to Cairo. Myndbandið sýnir vel fíflaganginn í þessu bandi, sérstaklega í endann þegar einhver potar í rassinn á Chas Smash. Nýja dótið er að finna á mæspeis = www.myspace.com/madnessofficial



Peter, Bjorn og John hafa hingað til ekki náð að heilla mig almennilega. Jújú, maður raular með YoungFolks og svona (ég kann nefnilega ekki að flauta) en ekkert mikið meira.
Mér fannst þeir m.a. konunglega leiðinlegir á Roskilde 2007. Það er þó ýmislegt ágætt við þremenningana, m.a. er til fyrirmyndar hve fjölbreytt músíkin er. Tveir fyrstu singlarnir af nýju plötunni eru engar undantekningar á því. Bæði Lay it Down og Nothing to Worry About eru bara nokkuð skemmtileg (mig grunar að bassatrommudrifið rímix af Nothing to Worry About gæti alveg vakið lukku á dansgólfum bæjarins). Góð myndbönd líka.



Thursday, February 05, 2009

Janúar-mixteip

Janúar 2009 var sögulegur mánuður fyrir margra hluta sakir.
Þetta eru lögin sem ég dansaði við í takt við bumbur byltingarinnar með piparþrútin augun og raulaði meðan oslóartréð brann dátt á austurvelli.
Öfugt við mánuðinn byrjar mixteipið með rokki en endar í rólegheitum.

1. Reykjavík! – Kate Bush
Reykjavík! er besta rokkhljómsveit Íslands í dag. Mig skortir hálfpartinn orð til að lýsa kraftinum, greddunni og blóðskorpinni rokkgeðsýkinni á nýju plötunni, sem ber hinn mjög svo viðeigandi titil The Blood. Hljómur Rvk! er einstakur, minnir mig helst á The Blood Brothers að spila rokkabillý; tveir söngvarar öskrandi úr sér lungun í undarlega bjöguðum melódíum við magnþrunginn töffaragítar. Rvk! eru óhræddir við prófa nýja hluti en hljóma þó alltaf eins og lækjartorg kl. hálf sex, aðfaranótt sunnudags.Ég einfaldlega held ekki legvatni yfir þessu. Svo er sandpappírsumslagið einnig stórkostlegt, nema að það rispar öll hin plötuumslögin.

2. Animal Collective - lag nr.6 á nýju plötunni
Ég hef ekki ennþá hlustað á nýjustu afurð Animal Collevtive í heild sinni en ætla mér að gera það í gríðarlega náinni framtíð. Það sem ég hef heyrt er raðfullnægjandi (kemur kannski ekki á óvart). Umslag plötunnar er ofboðslega sækadelískt.

3. Håkan Hellström – En vän med en bil
Ég uppgötvaði Hákon Helstraum í janúar. Hann er þónokkur stjarna í nágrannalöndunum Svíþjóð og Noregi, en það er ekki fyrr en nú tæpum áratug eftir útgáfu fyrstu plötunnar sem ég kemst á snoðir um kappann. Þetta lag er annað lagið á frumburðinum Kann ingen sörg for mig Göteborg sem hefur selst í 80.000 eintökum í heimalandi hans, Ikea, en það jafngildir platínumsölu. Tónlist Hákonar kemur mér ætíð í gott skap, enda hreinræktuð sænsk indípoppsnilld, glaðvær, kæruleysislega ófullkomin og ástleitin.

4. Man Man – I´d rather go blind (upprunalega með Ettu James)
Einstaklega hressandi útgáfa af hundgömlu lagi amerísku blús/sálar/jazz/R&B/Gospel gyðjunnar Ettu James. Skemmtileg er sú tilviljun að fyrsta lagið á forsetavígsluballinu dönsuðu Obama hjónin við annan Ettu James slagara, At last, sem Beyonce Knowles söng. Hún leikur einmitt Ettu í kvikmyndinni Cadillac Records sem kemur út bráðlega.... en það kemur þessu lagi lítið við.

5. The Magnetic Fields – A Chicken with it´s head cut off
Ópus Stephen Merritts og félaga í The Magnetic Fields er 69 Love songs (sem inniheldur hvað annað en 69 ástarlög). Brjáluð hugmynd sem hefði mistekist í höndum nánast allra annarra tónlistarmanna á hnettinum. Platan spannar allt litróf ástar og ástarlaga. Frá söknuði, sorg og óendurgoldinni ást til kynlífs, hvolpaskota og hinnar einu sönnu. Allt sett í berstrípaðan poppbúning. Að velja eitt lag er ógjörningur, ugla sat á kvisti.... ókei ég valdi tvö
5 og 1/2. The Magnetic Fields - I don´t want to get over you

6. Herman Dune - I wish that I could see you soon
Krúttípúttílag frá þykjustubræðrunum David-Ivar og Néman Herman Dune. Andþýðutónlistargleði (antifolk) frá frakklandi/sviss. Þeir hafa m.a. spilað sem tónleikasveit Julie Dorian og Kimyu Dawson og eru orðnir svolitlar neðanjarðarhetjur.

7. Sin Fang Bous - Poirot
Sólóskífa Sindra úr Seabear veldur ekki vonbrigðum. Lágtemmt indíkrúttelektrópopp með ýmsum undarlegum tilbrigðum. Svo ég haldi áfram að tala um umslög platna, þá er öll vinna við Clangour til fyrirmyndar. Artífartí og flott.

8. Bon Iver – Blood Bank
Justin Vernon er kominn úr fjallakofanum sínum og búinn að geta af sér þröngskífuna Blood Bank EP. Hún er ekki eingetin eins og For Emma, Forever Ago heldur unnin með hljómsveit. Þetta er titillagið.

9. Alela Diane – White as Diamond
Rakst á þetta á einhverju tónlistarbloggi í janúar. Þetta hefur fengið að rúlla þónokkuð oft.
Fallegt lag og sérstök rödd. Þetta er af annarri plötu Diane To be Still sem kemur út í Febrúar á Rough Trade.

10. Hezikiah Jones – Agnes of the World
Einhvern tímann heyrði ég í Hezikiah Jones í Marzípan (eða Karate, ekki alveg viss). Ég hugsaði: ,,vá, þetta er geðveikt, ég verð að tjekka á þessu”, svo gleymdi ég því. Þetta lag rak svo fjörur mínar um daginn þegar ég var að velta mér um í brimróti vefsjávarins mér til mikillar gleði. Einstaklega gott alt.kántrý (öðruvísi sveitatónlist?).

11. Bob Justman - Most of all
Platan Happiness & Woe með Bob Justman kom út stuttu fyrir jól eftir ógeðslega langa bið. Ég ætlaði að koma með einhverja svaka flotta skilgreiningu á tónlist Bobbís en það er eiginlega ekki hægt. Platan sveiflast frá lágstemmdu og brothættu alt.kántrýi í tilfinningaþrungið píanórokk og þangað yfir í skítugan öldurhúsablús ala Tom Waits á Bone Machine. Samt hengur hún vel saman. Hljóðfæraleikur og hljóðvinnsla óaðfinnanleg (eftir því sem mér best heyrist). Ég var ekki viss við hverju var að búast, en platan stendur undir öllum mínum væntingum og mögulega aðeins meira. Plötuumslagið rímar vel við tónlistina, svolítið myrk og óræð mynd af tónlistarmanninum framan á.

12. Phosphorescent – Reasons to Quit (upprunalega með Willie Nelson)
Eitt mest spilaða lagið hjá mér í janúar. Hreint út sagt stórkostleg útgáfa af stórkostlegu lagi Nelsons. Phosphorescent var einmitt að gefa út plötu fyrir skömmu sem nefnist To Willie, og er eins og nafnið gefur til kynna tökulagaplata unnin eingöngu úr lögum hasskúrekans knáa með tíkarspenana.
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com