Wednesday, August 23, 2006

5 ábreiður

Adam Green – What a Waster (The Libertines)
Lagið What a Waster (Waster: e-r sem er alltaf dópaður eða fullur sbr.Wasted eða e-r sem klúðrar e-u sbr.Wasting) kom upphaflega út árið 2000 með bresku vandræðagemsunum í The Libertines (Siðleysingjarnir) og var fysta smáskífulag hljómsveitarinnar. Hér er það í útgáfu bandaríska and-þjóðlagasöngvarans Adam Green. Adam er 25 ára, fæddur í New York-borg þann 28.Maí 1981 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann fest sig í sessi sem aðalstjarnan í Bandarísku anti-folk senunni. Árið 1995 hitti hann Kimyu Dawson og stofnuðu þau hina kynngimögnuðu sveit The Moldy Peaches. Saman gáfu þau út eina breiðskífu en síðan skildu leiðir og hófu þau bæði sólóferil. Adam hefur gefið út 4 plötur og hefur fengið mikla spilun á háskólaútvarpsstöðvum í bandaríkjunum en einnig hann hefur einnig fengið þónokkra athygli í Evrópu (sérstaklega í Þýskalandi) og er það ekki síst The Libertines ábreiðunni að þakka. Adam Green er góðvinur bæði Carl Barats og Pete Dohertys (sem voru aðalmennirnir í The Libertines en eru núna í Dirty Pretty Things og Babyshambles) og hefur hann spilað á nokkrum tónleikum með þeim. Aðaleinkenni Adams eru textarnir sem eru oft klúrir, ögrandi og öfugsnúnir en tónlistinni hefur verið líkt við snillinga eins og Leonard Cohen og Jonathan Richman (gaurinn úr There´s something about Mary).


Elliott Smith - Jealous Guy (John Lennon)
Jealous Guy kom út árið 1971 á annarri (og jafnframt vinsælustu) sólóplötu Lennons, Imagine. Lennon samdi lagið upphaflega á Indlandi fyrir hvíta albúmið og hét lagið þá Child of Nature. Lagið komst ekki á plötuna, en eftir að bítlarnir hættu breytti hann textanum og tók það upp. Lagið fjallaði um hann sjálfan, en hann var víst afbrýðisamasti maður í heiminum, hann lét Yoko Ono t.d. skrifa listi yfir alla sem hún hafði sofið hjá áður en þau byrjuðu saman. Lagið átti ekki að vera afsökunarbeiðni, bara útskýring á því hvernig hann væri. Tveimur árum áður en lagið kom út fæddist Steven Paul Smith (sem varð seinna Elliott Smith) í Texas í Bandaríkjunum. Elliott aldist upp við tónlist bítlanna og varð mikill aðdáandi fjórmenninganna frá Liverpool. Hann átti erfiða æsku, pabbi hans var í hernum og bjó hann hjá mömmu sinni og ofbeldisfullum stjúpföður til 14 ára aldurs. Þá flutti hann til föður síns sem bjó þá í Portland í Oregon fylki. Þar byrjaði Elliott að drekka og nota eiturlyf en einnig að taka upp tónlist. Hann kláraði menntaskóla og háskóla þar sem hann tók sálfræði og stjórnmálafræði sem aðalgreinar. Áður en hann gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1994 vann hann ýmis skítastörf og söng í bílskúrsbandinu Heatmiser. Meðan Elliott lifði gaf hann út 5 breiðskífur og sú sjötta kom út ári eftir dauða hans. Tónlist Elliotts er lágstemmd en poppuð, textarnir oft myrkir og ljóðrænir og fjalla oftar en ekki um eiturlyf og þunglyndi. Mjög einkennandi er tvöföld röddin, þá er söngurinn tekinn upp tvisvar og lagður saman og gefur það mjög sérstaka dýpt í röddina sem gefur mér oft hálfgerðan hroll. Í gegnum allan ferilinn spilaði hann bítlalög (og lög einstakra bítla) á tónleikum, en eina bítlalagið sem hann tók upp var Because fyrir myndina American Beauty. Hann ætlaði einnig að taka upp Hey Jude fyrir kvikmyndina The Royal Tenenbaums en var mjög niðurdreginn og ekki í ástandi til að taka upp svo að hann hætti við það. Elliott Smith barðist lengi við þunglyndi og eiturlyfjafíkn og hafði að minnsta kosti einu sinni reynt sjálfsmorð (hoppaði fram af bjargi, en lenti á tré og lifði af). Hann varð háður heróíni (eins og John Lennon) um það leyti sem hann gaf út Figure 8 árið 2000. Eftir það varð hann þunglyndari en áður, hann þjáðist af svefnleysi, átröskun, vænisýki (paranoia) og reyndi oftar en einu sinni að taka of stóran skammt af eiturlyfjum. Stuttu áður en hann lést virtist hann þó aftur vera kominn á beinu brautina, hættur að drekka og dópa og var farinn að vinna á fullu að nýju plötunni sinni From a basement on a hill. En þann 21.Október 2003 lenti hann í heiftarlegu rifrildi við kærustuna sína sem endaði með því að hann stakk sig tvisvar í bringuna með eldhúshníf. Uppi hafa verið getgátur um að þetta hafi ekki verið sjálfsmorð. Þá er oftast bent á undirskriftina á sjálfsmorðsbréfinu, en á því stendur Elliot, með einu t-i. Elliott Smith varð 34 ára, lifði 6 árum skemur en Lennon sem var myrtur árið 1980. Elliott á líklega einn stærst “költ”-aðdáendahóp í heimi, hundruðir netsíða eru tileinkaðar honum og er hægt að verða sér út um ótrúlegt magn af óútgefinni tónlist með honum.

Iron Horse – Float on (Modest Mouse)
Það er ekki mikið sem ég get sagt um þetta, fann lagið fyrir tilviljun á netinu. Það kom upphaflega út árið 2004 á hinni stórskemmtilegu plötu Good news for people who love bad news með bandarísku indí-rokk sveitinni Modest Mouse. Hér er það flutt af bandarísku bluegrass-sveitinni Iron Horse sem hefur m.a. annars gert plötur til heiðurs Metallica, Ozzy Osbourne og Led Zeppelin, allt í bluegrass stíl. Fyrir þá sem ekki vita er Blágrasa-tónlist angi af amerískri kántrítónlist. Stefnan varð til á fjórða áratug 20.aldar og er hún kennd við hljómsveitina Bill Monroe and the Blue Grass Boys. Hljóðfærin sem eru notuð er oftast banjó, mandólín, bassi, fiðla og þjóðlagagítar. Blágrasa-tónlist var notuð í myndinni O´brother, where art thou? Árið 2000 og kynnti tónlistina fyrir mun stærri hóp en hafði áður hlustað á hana.


Sebadoh – Pink Moon (Nick Drake)
Lagið Pink Moon kom upphaflega út árið 1972 á samnefndri plötu með breska kassagítarraularanum Nick Drake. Platan var sú síðasta sem hann gerði áður en hann lést af of stórum skammti af þunglyndislyfjum aðeins 26 ára gamall. Sebadoh rokkuðu lagið upp og gáfu það út árið 1992 á plötunni Smash your head on a punk rock. Hljómsveitin er leidd af tónlistarlúðanum og snillingnum Lou Barlow (sem var í Dinosaur Jr., er í The Folk Implosion og hefur gefið út eina sólóplötu). Hljómsveitin hefur oft verið skilgreind sem indie-Lo-fi (ef einhver hefur gott íslenskt nafn á indí-tónlist eða lo-fi tónlist, endilega kommentið) eða eitthvað svoleiðis þó að oft á tíðum sé hún meira þjóðlagarokk að mínu mati. Hljómsveitin lagði upp laupana árið 2000 en hefur spilað á nokkrum tónleikum á síðustu árum.


The Shins - We Will Become Silhouettes (The Postal Service)
Það er ekki mjög langt síðan ég skrifaði um The Shins og bendi ég áhugasömum á 5 plötur sem kalla fram líkamleg áhrif hjá mér frá 29.apríl 2006. Ég lofa að ég mun skrifa um The Postal Service seinna enda ótrúlega gott band en ég nenni því ekki núna. Hér er samt myndbandið við upphaflega lagið, leikstjóri er sá sami og gerði Napoleon Dynamite.


Upprunalegu útgáfurnar er hægt að heyra á www.radioblogclub.com

Labels: , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com