Sunday, June 24, 2007

5 myndbönd 2

Það fer alveg ótrúlega mikið í taugarnar á mér þegar metnaðarfullar hljómsveitir með metnaðarfull lög gera metnaðarlaus tónlistarmyndbönd. Að sama skapi kætir það mig gríðarlega mikið þegar metnaður er lagður í myndböndin. Tónlistarmyndbönd geta dregið miðlungslag upp í að verða mjög gott og fullkomnað snilld frábærra laga. Samspil tónlistar og hins sjónræna þáttar getur skapað fullkomna heild og gert skynjun á lagi enn magnaðri. Einhverjir glöggir lesendur benda eflaust á að hljómsveitir (eða hljómlistarmenn) eigi að einbeita sér að því að gera tónlist en ekki myndbönd enda felist það í orðinu. Þetta finnst mér heimskulegt. Ef tónlistarmenn hafa ekki metnað í að gera eitthvað meira en að taka upp lélegt myndskeið af sjálfum sér að mæma lagið í stúdíói (jú, stundum gengur það upp en í hverfandi fáum tilvikum) eiga þeir bara að sleppa því að gera myndbönd (Pearl Jam slepptu því bara lengi vel). Það þarf svo lítið til þess að gera myndbandið góða skemmtun eða fá mann til þess að hugsa.

Hér eru 5 myndbönd sem eru til fyrirmyndar:

Fyrsta myndbandið sem ég ætla að sýna æstum aðdáendum mínum er frá 1989 og er við lagið Here Comes Your Man með indí-öldungunum frá Boston, Pixies. Hér hefðu þau getað mæmað lagið ,,eðlilega”, en varahreyfingar söngvaranna gera myndbandið óvænt og skemmtilegt og sýnir í raun að þau gera sér fulla grein fyrir fáránleika ,,mæmsins”.



Myndband Jonathans Glazers við lag U.N.K.L.E og Thom Yorke ,,Rabbit in your headlight” er líklega með þekktari tónlistarmyndböndum allra tíma og hefur það endað ofarlega á flestum listum yfir þau bestu. Í stíl við lagið er myndbandið nokkuð skuggalegt og óhugnalegt og kannski ekki það besta sem maður gerir að horfa á það rétt fyrir svefninn. Endirinn er svo gríðarlega flottur og óvæntur, ég efast um að það séu einhverjar djúpar pælingar bakvið söguþráðinn en það er vissulega aukaatriði.



Næsta myndband er með þeim súrari sem ég hef séð, en frábær skemmtun samt sem áður.
Einstaklega hugmyndaríkt og fyndið. Þetta eru verðandi Íslandsvinirnir í Of Montreal frá Georgíu-fylki Bandaríkjanna með hið skemmtilega nefnda lag ,,Heimdalsgate like a Promothean curse” af hinni frábæru Hissing fauna, are you the destroyer? sem kom út í ár.



Einn af þeim sem hefur fullkomnað þetta listform er eðalleikstjórinn Spike Jonze. Hér er myndband sem hann gerði árið 1996 við lagið Drop með dönsurunum/röppurunum í Pharcyde. Myndbandið er allt tekið upp aftur á bak og síðan snúið við, alveg fáránlegt að þeim takist að hreyfa varirnar og dansa í takt við lagið.
p.s. takið eftir Mike D úr Beastie Boys sem birtist í eina sekúndu.



Síðasta myndbandið er það eina sem einblínir á texta lagsins, enda textinn með þeim svalari sem ég hef heyrt á þessu ári. Þetta er gæðaskíturinn Thou shalt always kill með þeim kumpánum Dan Le Sac (sem gerir takinn) og hinum eitursvala Scroobius Pip (sem ,,rappar”).



Minni líka á fyrri færsluna mína um myndbönd. Skoða

Labels: , , , , , , ,

Tuesday, June 19, 2007

BERTEL! og <3Svanhvít!

Ég er ekki vanur að vera fyrstur með fréttirnar, að minnsta kosti ekki í heimi mp3-bloggara sem keppast um að blogga um fáránlega ný/heit/upphæpuð útlensk bönd sem flest hverfa sjónum áður en hægt er að blikka auga. Aftur á móti tel ég mig fylgjast nokkuð vel með íslenskri jaðar- og grasrótartónlist og nú finnst mér kominn tími til þess að ég fari að blogga um það sem ég þekki best.

Á dögunum kom út langþráður frumburður indí-popp-elektró-rokk.is sveitarinnar BERTEL! og nefnist hann því skemmtilega nafni BERTEL!. Bandið hefur verið starfandi í a.m.k 4 ár eftir því sem ég best man. Skiljanlega hefur hljómur piltanna breyst umtalsvert á þessum árum, enda eru þeir óðum að vaxa úr grasi. Upphaflega spiluðu þeir hressandi en að sama skapi nokkuð barnalegt botnleðjuskotið rokk, þeir hafa alltaf haldið í hressleikann en nú eru lagasmíðarnar þroskaðri og hljómurinn elektrónískari en áður og ósjaldan eru notaðir tveir hljóðgervlar, gítar og trommur. Platan inniheldur 7 lög og elstu eru líklega u.þ.b. 2 ára, þeir gefa út sjálfir en eitthvað útlenskt fyrirtæki sér um að dreifa plötunni til útvarpsstöðva og stórlaxa úti í heimi. Gallar plötunnar eru fáir og varla hægt að taka mark á þeim fáu athugasemdum sem ég geri við plötuna þar sem ég er bundinn þónokkrum lögunum órjúfanlegum tilfinningalegum böndum og því með mínar eigin hugmyndir um hvernig þau eigi að hljóma. Á Myspace svæði BERTEL!s er hægt að heyra þrjú lög, ofurslagarana He-man og Sunshine & Lollipops og hið glænýja Electronic Love is like a river. Á rokk.is er hægt að heyra nokkur eldri lög sem voru líklega með seinustu lögunum áður en hljómur þeirra breyttist.

www.myspace.com/bertel
http://rokk.is/default.asp?Flytjandi_ID=338&sida=um_flytjanda

<3svanhvít! var stofnuð viku fyrir Músiktilraunir í ár og var planið held ég upphaflega að fokka í hljóðmönnum keppninnar með því að hafa meðlimina og hljóðfærin óeðlilega mörg. Að lokum urðu meðlimirnir 11 (tólfti náði að koma sér inn á úrslitum MT en hefur ekki verið meira með). Hið sérstaka nafn er að komið af því að nokkrir meðlimir bandsins voru í aðdáanda klúbbi Svanhvítar Júlíusdóttur þáverandi forseta Framtíðarinnar, nafnið er venjulega borið fram ,,minn'enþrírsvanhvít” en sumir vilja segja ,,hjartasvanhvít”. Eins og allir vita vakti þetta flipp 11 MR-inga mikla athygli og hlaut hljómsveitin annað sætið verðskuldað. Sveitin spilar glaðværa indí-popp tónlist sem hljómar ekki eins og neitt sem ég man eftir að hafa heyrt. Tónleikar sveitarinnar eru alltaf eftirminnilegir m.a. vegna þeirra meðlima sem spila á óheðfbundin hljóðfæri s.s. potta, ryksugu og töfragítar (gítar sem er ekki tengdur í neinn magnara). Hægt er að hlusta á öll lögin sem minnaen3svanhvít! spiluðu á MT á myspace svæðinu þeirra og svo er hægt að hlaða niður laginu Systir Svanhvítar er skattstjóra (á það ekki að vera skattstjóri?).
http://www.myspace.com/minnaen3svanhvit
http://rokk.is/default.asp?Flytjandi_ID=3470&sida=um_flytjanda

Annað sem ég er að hlusta á þessa stundina:
Tom Waits – Orphans: Brawlers, Bawlers and Bastards
CSS – Cansei de Ser Sexy
Deerhoof – Friend Opportunity
Roskilde Mixteipið sem ég gerði fyrir Frey

Nú er ég farinn að sofa

Labels: , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com