Monday, June 29, 2009

Tónleikahryna

Það er alveg nóg af spennandi tónleikum í vikunni. Mér til mikillar mæðu hittist það þannig á að kemst ég ekki á neina þeirra. Skrambinn.

Fyrst ber að nefna tónleika hins japanska Shugo Tokumaru, sem spilar ásamt Amiinu í Norræna húsinu á miðvikudag. Shugo spilar alveg ótrúlega sumarlegt tilrauna-indí-krútt-popp. Ef Animal Collective væri Japanskur gaur í krónískt góðu skapi. Algjör snilld eiginlega. Mér skilst að það sé frítt meira að segja! Ég skalla þann í magann sem sleppir þessu vísvitandi. http://www.101tokyo.is/











Sama kvöld spila Megas og Ólöf Arnalds (eða Megasóló eins og systir mín hélt að ég hefði sagt) á Kaffi Rósenberg. Tónleikarnir eru annað giggið í tónleikaröð Reykjavík Grapevine, Fuglabúrið. Þar er tveimur tónlistarmönnum att saman í bardaga upp á líf eða dauða... eða svona næstum því. 1000 kall er smápeningur fyrir þessa tvo mögnuðu listamenn.

Kvöldið eftir spilar bandaríski þjóðlagasöngvarinn Joe Pug á Rosenberg ásamt Bob Justman og Snorra Sprengjuhelgasyni. Svaka beisik fólk hjá Joe, en samt örugglega alveg þess virði að kíkja á. Hann er víst 25 ára Norður-Kaliforníubúi á leið til Noregs. Reyndar verður ekki síður áhugavert að sjá Snorra spila, enda ætlar hann sér að gefa út plötu í lok sumars. Fyrsta lagið hljómar bara nokkuð vel. 1000 kall inn.



Sunday, June 21, 2009

Tónlistarmyndband

Ókei, ég veit að það er svolítið tæpt að vera alltaf að blogga um sjálfan sig á tónlistarbloggsíðu en ég ætla að gefa skít í það í dag. Ég er nefnilega gríðarlega stoltur að kynna frumraun mína sem tónlistarmyndabandagerðamaður. Myndbandið er leir-hreyfimynd við lag dönsk/norsk/íslensku alt-folk hljómsveitarinnar Artery Music. Myndbandið er unnið á rúmum fjórum mánuðum í bílskúrnum mínum og er gert í samvinnu við norska vinkonu mína Idu Grimsgaard.


Ef Vimeo er eitthhvað leiðinlegt er líka hægt að horfa á http://www.youtube.com/watch?v=FlGbT7ZSKTQ

eða kíkja á www.myspace.com/kristjanspilartonlist

The Moldy Peaches

10 mínútur af sjaldséðu myndefni frá gerð fyrstu (og u.þ.b. einu) plötu The Moldy Peaches. Gullnáma fyrir aðdáendur en ómerkilegt drasl fyrir aðra.
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com