Thursday, July 19, 2007

Roskilde Festival: Annar hluti

Laugardagur:
Dagurinn hófst snemma (14:30) með The National frá Bandaríkjunum. Ekki er langt síðan að þeir gáfu út breiðskífuna Boxer sem hefur fengið góða dóma víðast hvar. The National spila dramantískt indírokk drifið áfram af baritónbarkanum Matt Berninger. Þeir áttu nokkra góða spretti og eftir að hafa fengið hroll í öðru laginu sem við sáum bjóst ég við miklu en flest lögin voru heldur auðgleymanleg. Eftir hádegis/morgunmat og smá chillax var ákveðið að hlýða á Aronas sem spiluðu einvhers konar nútíma dans-jazz. Forsprakkinn, píanóleikarinn, Aron Ottignon er eitt mesta undrabarn í sögu Nýsjálenskrar jazz-tónlistar og er greinilega mjög flinkur. Pælingarnar fannst mér svolítið eins og tónlist vina minna í Hress/Fresh, bara ekki jafn grípandi og skemmtileg. Hlustið frekar á þá! Eftir nokkur lög fór ég heim í tjald að leggja mig fyrir átök kvöldsins. Átökin hófust svo fyrir alvöru með The Flaming Lips. Þeir hófu tónleikana með látum, fólk í asnalegum búningum dansaði á sviðinu, söngvarinn Wayne Coyne ,,crowd surfaði” í kúlu eins og ofnæmissjúklingar nota í bíómyndum (sjá myndskeið).
Risastórar blöðrur, uppblásnar fígúrur, risahendur og glimmer voru einnig á svæðinu. Alla tónleikana héldu þeir uppi þessarri súrrealísku stemmningu en tónlistin var ekki alveg í sama stíl, spiluðu mikið af rólegu dóti. Aðallega tóku þeir lög af tveimur nýjustu plötunum en lögin Yoshimi battles the Pink Robots og The Yeah Yeah Yeah Song stóðu upp úr að mínu mati. Áður en tónleikunum lauk kíkti ég á endasprettinn hjá Soulsavers og Mark Lanegan sem spiluðu næstum því guðdómlegt helþungt gospel tripp-hopp. Lanegan stóð sig með mikilli prýði, alveg rosaleg rödd sem hann býr yfir. Ætla að næla mér í nýju plötuna þeirra við fyrsta tækifæri. Næst var ferðinni heitið á Loney, Dear. Ég hafði heyrt eitt lag með þessum sænska gutta sem hefur verið sagður litli bróðir Jens Lekmans og Sufjan Stevens. Þetta lag fannst mér mjög gott, en aftur á móti fannst mér önnur lög á tónleikunum alveg hundleiðinleg, svo að eftir fjögur lög yfirgaf ég Pavillion-tjaldið og kíkti á The Whitest Boy Alive. Þeir héldu uppi alveg gríðarlegri dansstemmningu með sínu ofur-chillaða indí-(dans)-poppi. Erlend Oye var nördalega svalur að venju og var spilagleðin og samhljómur sveitarinnar alveg til fyrirmyndar. Þá var komið að Grizzly Bear sem spila rólyndis alternative kántrí eða kántrískotið indípopp. Þeim tókst vel upp, engin flugeldasýning en ég skemmti mér nokkuð vel. Þegar Grizzly Bear höfðu lokið sér af í Pavillion tjaldinu sá ég endann á The Who og skemmti mér ekki vel. Þreytan var farin að segja til sín og einnig leiddist mér flutningurinn (Reyndar skemmtilegt að heyra Pete Townsend syngja ,,I hope I die before I get old”). Ég ákvað nú samt að bíða eftir Red Hot Chili Peppers sem drógu líklega fleiri á hátíðina en nokkuð annað band. Allt svæðið hjá appelsínugula sviðinu var stútfullt. Piprarnir stóðu aftur á móti engan veginn undir væntingum, söngvarinn Anthony Kiedis var eitthvað hálfslappur greyið og gat sjaldnast sungið meira enn eitt eða tvö lög áður en hann þurfti hvíld og hinir djömmuðu í nokkrar mínútur meðan hann náði andanum. Lagavalið var ekkert sérstakt (lítið um almennilega hittara) en það gladdi mitt litla hjarta að þeir sáu sér fært að spila Ramones-snilldina Havana Affair. Eftir rúman klukkutíma af bragðlitum Rauðum en ekkert svo heitum Chili Piprum fór ég heim í háttinn.

Sunnudagur:
Sunnudaginn hófum við á norksu glysrokkurunum The Ark. Gæjar sem vilja vera eins og Bon Jovi og söngvari sem ætti að leika í norsku útgáfunni af Hedwig and the angry inch. Þó þetta geti hljómað fyndið og jafnvel spennandi fannst mér það ekki, þvert á móti einstaklega leiðinlegt. Við biðum með mikilli eftirvæntingu eftir Zach Condon og hljómsveitinni hans Beirut (reyndar mættum við aðeins of seint út af risahamborgurum sem við snæddum í morgunmat). Beirut blandar saman ýmis konar evrópskri þjóðlagatónlist s.s. sígauna, balkan og spænskri við vinsældavænt indí-fólk. Útkoman er ótrúlega heillandi og afslappað andrúmsloftið sem meðlimirnir sköpuðu var magnað. Hljómsveitinn drakk rauðvín af stút og skemmti sér greinilega mjög vel undir styrkri stjórn hins 21 árs Zachs sem spilaði m.a. á ukulele og trompet. Mæli algjörlega með því að þið athugið á þessari hljómsveit. Hér getið þið séð þau taka lagið Le Moribon eftir belgíska tónlistarmanninn Jacques Brel.
Wilco var næst á dagskrá í Arena tjaldinu og skemmti ég mér vel. Einlægt kántrí-rokk Jeff Tweedy og félaga hitti mig beint í hjartastað, annars vegar þegar lögin voru sem rólegust og hins vegar þegar þau voru sem súrust. Stundum duttu þeir niður í eitthvað miðjumoð en oftast fór allt bandið á kostum, en að öðrum ólöstuðum stóð gítarleikarinn Nels Cline uppi sem sigurvegari (ef tónleikarnir voru keppni). Nels þessi var á sínum tíma meðlimur í The Geraldine Fibbers sem ég hef ósjaldan hafið upp til skýjanna við litlar undirtektir. Ef þú fílar þau láttu mig vita... Eftir Wilco tók ég lífinu með ró og sá örfá lög hjá Akron/Family og Tönnig (minnir mig) en það var of lítið til að ég geti sagt eitthvað af viti um þessar hljómsveitir. Næst var hins vegar eitt af þeim böndum sem mig hlakkaði virkilega til að sjá; Against Me!. Fyrrverandi Fólk-pönk anarkistarnir (núverandi pönk anarkistarnir) stóðu sig með mikilli prýði, voru kraftmiklir, þéttir, reiðir og hressir. Spiluðu dálítið af fólk-pönki þó að rafmagnsgítarar séu núna brúkaðir. Nóg var um sing-a-long og þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir var nóg um sviðsdýfur og almennt pönk-viðhorf. Frábærir tónleikar! Eftir tónleikana borðaði ég ókínverskasta kínamat sem ég hef smakkað og sá síðan blálokin á Muse sem voru þrjátíuogfimmfalt betri en þegar þeir spiluðu á Íslandi hér um árið. Þá rifjaðist upp fyrir mér um stund af hverju ég fílaði Muse og um leið gleymdi ég öllum okkar ágreiningsmálum. Það sem ég sá var einstaklega kraftmikil slagarasúpa Muse drengjanna. Fyrir tilviljun kíkti ég síðan á norksu ærlsarokkarana í Datarock. Þeir björguðu sjálfsvirðingu Noregs sem The Ark höfðu næstum því eyðilagt fyrr um daginn. Hressleikinn uppmálaður. Ef ég á að líkja þeim við einhver bönd dettur mér fyrst í hug Skátar og The Rapture, en Datarock eru þó muuuun steiktari og hljóðgervlar spila stærra hlutverk í tónlistinni. Eftir þennan óvænta glaðning fór ég yfir á appelsínugula sviðið þar sem Basement Jaxx voru næstir á dagskrá. Aðeins örfáum mínútum fyrir tónleikana var mjög fámennt fyrir framan sviðið, ekki einu sinni fullt í fremsta boxið. Ég ákvað að næla mér í öl og þegar komið var að mér í röðinni hljómaði ofur-hittarinn Red Alert frá sviðinu, allir í röðinni byrjuðu að dilla sér í takt við eitraðan taktinn. Brátt fylltist svæðið og var nánast ómögulegt að standa kyrr, takturinn sameinaðist hjartslættinum og fætur og hendur hreyfðist ósjálfrátt í takt við tónlistina. Sviðsframkoman var frábær, fullt af gestasöngvurum og ber þar helst að nefna þrjár spikfeitar blökkukonur sem sungu eins og englar. Tónleikarnir enduðu svo á flugeldasýningu undir gleðibombunni Bingo Bango. Þar með lauk tónleikahaldi á stóra sviðinu. En alvöru partýdýr ( = ég) hættu ekki þá heldur var tekið smá pásu og síðan farið á síðustu tónleika hátíðarinnar, ofur upphæpaða franska danstónlistardúettinn Justice. Þeir gáfu nýlega út plötuna † sem hefur verið að fá góða dóma og stóðu þeir sig með mikilli prýði. Krossinn spilaði stórt hlutverk á tónleikunum en milli þeirra var risastór kross (sjá mynd) sem blikkaði í takt við tónlistina og ásótti mann í svefni næstu nætur, svo áhrifamikill var hann. Einstaklega góður endir á frábærri hátíð.

Það allra besta: Arcade Fire [hlusta], Beastie Boys [hlusta], CSS [hlusta], The Brian Jonestown Massacre [hlusta], Beirut [hlusta], Against Me! [hlusta] og Basement Jaxx [hlusta].

Á flestum góðum tónleikum sem ég sá var geimvera að ríða kú, þetta tvíeyki hefur víst verið á hátíðinni á hverju ári í nokkur ár og er orðið nokkuð frægt. Jeff Tweedy söngvari Wilco sagði einmitt á tónleikum sveitarinnar ,,some of our songs are pretty sad but it´s hard trying to keep a straight face with that alien fucking a cow in front of you”. Hér getið þið séð geimveruna og kúna á tónleikum Beirut á Sunnudeginum.

Labels: , , , , , , , , , , , , , , , , ,

Tuesday, July 17, 2007

Roskilde Festval: Fyrri hluti

Nú fara allar bloggsíður líklega að yfirfyllast af ferðasögum frá nýafstaðinni Hróaskelduhátíð, en mér er alveg sama og ætla að segja ykkur hvað mér fannst um böndin. Ef þið viljið heyra um það þegar tjaldið mitt sökk, þegar ég borðaði stærsta hamborgara sem ég hef séð eða þegar ég datt með hálsinn á stól á Justice þá er ég alltaf til í að segja frá því í eigin persónu. Þar sem þessi færsla er nokkuð löng og athyglisgáfa nútímamanneskju er skuggalega lítil ætla ég að birta hana í tveimur hlutum, sá seinni kemur að öllum líkindum á morgun.

Fimmtudagur/ Rigningardagurinn mikli:
Hátíðin hófst hjá mér í Arena tjaldinu með kanadísku krökkunum í Arcade Fire. Ég bjóst við miklu en aldrei hefði ég búist við þvílíkum krafti, spilagleði og töffaraskap. Arcade Fire hófu hátíðina svo sannarlega með stæl, mér fannst þau á köflum betri en á plötunum og sviðsuppstillingin var ótrúlega töff. Tónleikarnir hófust á myndbandi af brjálaðri predikun með einhverjum ofurkristnum kvenpredikara og enduðu á Wake Up. Í þessu einnar mínútu myndskeiði af laginu Rebellion (Lies) má sjá hve söngvarinn Win Butler var orðinn pirraður á lélegum hljóðnemastatífum, greinilega eðal-dramadrottning.
Eftir smá Vegan-snarl kíktum við á James Murphy og félaga í LCD Soundsystem, hressleikinn var í fyrirrúmi en samt fannst mér eitthvað vanta upp á. Krafturinn var ekki nógu mikill. Þau náðu ekki að skapa jafn mikla stemmningu og tónlistin býður upp á.
Eins og sönnum íslendingum sæmir biðum við félagarnir síðan spenntir eftir Björk. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sé heila tónleika með henni og skemmti ég mér einstaklega vel. Ég hef ekki kynnt mér tónlistina hennar nógu vel og hefði það verið skemmtilegra að þekkja lögin en það kom svo sem ekki að sök. Allt bandið var magnað, Björk, blástursstelpurnar, Jónas Sen og gæjarnir á undarlegu hljóðfærunum sem litu út eins og radar (sjá mynd). Maður hefði eflaust notið tónleikanna enn betur ef maður hefði ekki haft áhyggjur af tjaldinu sem var að sökkva á sama tíma.

Föstudagur:
Föstudaginn byrjuðum við ekki fyrr en 19:30 (enda þurfti að redda nýju tjaldi o.fl.) með helgömlu New York rapp/pönkurunum í Beastie Boys. Voru þeir líklega mesta tilhlökkunarefni mitt fyrir hátíðina og létum við það ekki aftra okkur að á sama tíma voru mörg spennandi bönd að spila (þ.e. Boris (Japan), Konono N°1 (Kongó), og Klaxons (UK)). Strákarnir stóðu undir væntingum, tóku nokkur pönk lög, nokkur lög af nýju instrumental plötunni og einnig þónokkra slagara, enduðu á Sabotage og tileinkuðu það góðvini sínum George W. Bush. Hljóðið var reyndar eitthvað að stríða þeim en það bættu þeir upp með óendanlegum svalleika. Ógleymanleg minning að hlusta á Intergalactic og þvílíka slagara í góðu veðri með góðum vinum, drekkandi vont rauðvín úr poka. Hér má líta á Intergalactic á tónleikunum.
Brasilísku rafrokkpoppararnir í Cansei de Ser Sexy (CSS) spiluðu næst í Odeon tjaldinu og voru gríðarlega hress. Líklega einir bestu og heitustu tónleikar hátíðarinnar. Sveitina skipa fimm stelpur og einn strákur og voru þau gífurlega þétt og sýndi söngkonan mikla tilburði og skartaði einnig glæsilegum samfesting sem gladdi alla sem hrífast af kynþokkafullum konum.
Queens of the Stone Age hófu leik á Appelsínugula sviðinu um leið og CSS byrjuðu sína tónleika. QOTSA spiluðu þónokkuð lengur svo okkur tókst að sjá síðustu lögin hjá þessu magnaða rokkbandi. Þeir voru mjög þéttir, hljóðið feitt og Joshua Homme eitursvalur að venju. Ég hefði viljað sjá meira af þeim en stundum verður maður að velja og hafna. Eftir að Drottningarnar luku sér af kíktum við á Peter, Björn and John sem voru skítsæmilegir, það er eitthvað sem er ekki að klikka hjá mér og þessum strákum. Eftir að þeir tóku Young Folks ásamt Jamie úr Klaxons beiluðum við og ætluðum að sjá Cold War Kids en fréttum þá að þeir kæmu ekki fram. Þá var haldið á Lee ,,Scratch” Perry og Adrian Sherwood. Það var ágætis skemmtun að sjá reggígoðsögnina Lee ,,Scratch” raula yfir takta Adrians. Hann var svo sem aðallega að einbeita sér að því að mála á vegginn og að vera ótrúlega svalur og útúr-blingaður. Ég hef sjaldan fundið jafn ,,lífræna” lykt og á þessum tónleikum. Síðustu tónleikar kvöldsins voru svo með íslands og Singapore Sling vinunum The Brian Jonestown Massacre. Brjálaða einvaldinum í BrianJonestown Anton Newcombe (sem skartaði bol merktum 12 tónum) og félögum tókst svo sannarlega að skemmta mér. Bæði með einföldu og einhæfu hipparokki sínu og töffaraskap. Anton reyndi ósjaldan að ,,pikka fæt” við áhorfendur, seinna stöðvaði hann tónleikana til að kenna hinum meðlimunum nýtt lag og að lokum var hann við það að ráðast á annan gítarleikarann sem klúðraði hljómunum sínum aftur og aftur.
ANTON: Dont fuck up your chords you fuckin rockstar! When your band plays roskilde, you can fuck up the chords but not now!. [u.þ.b. orðrétt]
Síðan þegar einhver hæfði gítarinn hans með vatnsglasi:
ANTON: Do you like to throw things at starving babys? I feed my kids with this fucking guitar!
Ef einhver trúir þessu ekki þá mæli ég með að sá hinn sami kíki á heimildarmyndina Dig! um bandið sem fæst m.a. á Aðalvideoleigunni.

Hægt er að sjá myndbönd frá flestum tónleikunum á YouTube með því að leita að roskilde 2007 og nafni hljómsveitar. Mest eru þetta þó stutt myndbrot í lélegum gæðum og með lélegu hljóði.

Labels: , , , , , , , , , , , , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com