Tuesday, October 17, 2006

5 íslensk bönd á Airwaves

Ég hef ákveðið að taka við áskorun í fyrsta skipti. Þetta er fyrir þig Villi

Ultra Mega Teknóbandið Stefán – Cockpitter

Þessi hljómsveit er mögnuð upplifun á tónleikum og algjör vitleysa að sleppa því að sjá hana á Airwaves jafnvel fyrir eitthvað ömurlegt indíband sem heitir We Are Scientist. Af fullri virðingu við piltana í bandinu skiptir tónlistin minnstu máli á tónleikum hjá þeim. Augu allra beinast að stjörnu bandsins Sigurði Ásgeiri Árnasyni. Honum hefur verið líkt við Mark E. Smith úr The Fall og er það ekki slæm líking. Siggi lætur öllum illum látum og ef hann er ekki haugadrukkinn poppar hann gingsen og drekkur tugi kaffibolla fyrir tónleika.

Sjá má þá flytja lagið í kastljósinu hér http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301624/6 og bendi ég á að þetta er aðeins fimmtungur af því sem sést á tónleikum með þeim.

My Summer As A Salvation Soldier – Nupur Lala
Það er alltaf skylda að sjá Þóri spila, alveg sama hvar, alveg sama hvenær. Airwaves-helgina spilar hann að minnsta kosti þrisvar með MSAASS sem inniheldur síðast þegar ég vissi trommur, bassa, selló, gítar/banjó/píanó og Þóri Georg. Hann er búinn að semja fullt af nýjum lögum og tekur vonandi helling af þeim. Þórir er ekki fullur og poppar ekki gingsen fyrir tónleika (svo að ég viti) og er þar að leiðandi ekki jafn hress og Teknó-Siggi en einstaklega góður þó. Mæli ég einnig með báðum plötunum hans svona í byrjun vetrar, einkar huggulegt að setjast niður við arineld með heitt súkkulaði og MSAASS í græjunum meðan snjóstormurinn bylur á glugganum.

http://www.rokk.is/mp3/th/thorir_nupur_lala.mp3

Gavin Portland - ...is only a word
Gavin Portland er frábærlega gott band. Níðþungt indí-rokk með kok-rífandi öskri lýsir ágætlega tónlistarstefnu Gavins. Hljómsveitin er m.a. skipuð meðlimum Fighting Shit og I Adapt (sem er ekki slæmt). Söngvarinn er reyndar fluttur til útlanda, ekki man ég hvert, en hann hefur að minnsta kosti ákveðið að heiðra okkur með nærveru sinni um helgina. Einnig voru þeir að setja íslandsmet með því að taka upp og klára heila breiðskífu á aðeins 14 tímum. Þess má geta að fyrrnefndur Þórir er gítarleikari þessarar mætu sveitar.

http://www.rokk.is/mp3/g/gavin_portland_is_only_a_word.mp3

Lay Low – Please don´t hate me
Lovísa spilar blús og syngur. Gítarleikurinn er frábær, söngurinn enn betri og lagasmíðarnar bestar. Fyrsta sólóplata hennar kemur út á Föstudaginn hjá Cod Music sem er dótturfyrirtæki Senu. Ég get ekki betur séð en að diskurinn beri nafnið Please dont hate me eins og eitt af hennar þrælskemmtilegu lögum. Hún spilar einnig á gítar og hljómborð í Benny Crespo’s Gang sem er voða vinsæl hljómsveit mjá tónlistarspekúlöntum en ég fíla þau ekki. Það er að minnsta kosti mjög gaman að sjáLay Low spila, það get ég ábyrgst.

Heyra má lagið á http://www.myspace.com/baralovisa

Jakobínarína – Power to the Lonely
Eftir síðustu Airwaves-hátíð byrjaði allt að gerast hjá þessum strákum, þeir eru að túra um Evrópu og er ekki langt í fyrstu plötuna þeirra, sem kemur út hjá Rough Trade útgáfufyrirtækinu (The Strokes, The Libertines, Emilíana Torrini). Söngvaranum hefur eins og Teknó-Sigga verið líkt við Mark E. Smith. Sviðsframkoma þeirra er gífurlega skemmtileg og dansa þeir um eins og þeir séu leikskólabörn með njálg í rassinum, einstaklega hressandi.

Hlusta hér à http://www.myspace.com/jakobinarina

Labels: , , , , ,

Sunday, October 08, 2006

5 airwaves-bönd

Islands – Swans (Life after death)
Kandaíska indí-popp hljómsveitin Islands er ástæðan fyrir því að allir ættu að fara á Airwaves. Þetta er eina hljómsveitin sem ég má ekki missa af. Hún var stofnuð af þeim Nicholas Thorburn (sem kallar sig Neil Diamonds) og trommaranum Jamie Thompson (sem kallar sig J'aime Tambeur). Áður voru þeir saman í hljómsveitinni The Unicorns. Þeir söfnuðu í kringum sig góðum mannskap og tóku upp plötuna Return to the Sea sem var tekin upp í herbergi Jamies í Montreal og kom út 3.apríl á þeirra eigin útgáfufyrirtæki Equator. Tæpum tveimur mánuðum seinna hætti Jamie í Islands, en sveitin hefur haldið áfram að spila á tónleikum og stefnir á að byrja á nýrri plötu í byrjun næsta árs. Meðlimir sveitarinnar eru 7 í augnablikinu og ættu tónleikarnir að verða mikið augna- og eyrnakonfekt. Eyjarnar nota ýmis hljóðfæri sem eru ekki hefðbundin í popp-tónlist m.a. fiðlur, banjó og klarinett.



The Klaxons – Atlantis to Interzone
The Klaxons eru klárlega heitasta bandið í indí-heiminum í dag. Meðlimir eru 3 og eru allir frá London. Tónlistinni þeirra hefur verið lýst sem New-Rave af því að hún er samin undir áhrifum frá reifi tíunda áratugarins, hljómurinn svipar að mínu mati til Síðpönk-raf-rokkbanda eins og The Rapture. The Klaxons byrjuðu að halda fullt af vöruskemmupartíum og gáfu út fyrstu smáskífuna sína sjálfir, þetta vakti athygli Polydor útgáfufyrirtækisins sem gerði samning við þá og er fyrsta breiðskífan þeirra væntanleg á næsta ári.


Wolf Parade – You are a runner and I am my fathers son
Hljómsveitin Wolf Parade var stofnuð 2003 þá var Spencer Krug beðinn um að hita upp fyrir Arcade Fire. Spencer hringdi í nokkra vini sína og fengu þeir fullt af hljóðfærum lánuð og sömdu nokkur lög. Þetta þótti heppnast svona vel að hljómsveitin er ennþá starfandi þremur árum seinna og hefur gefið út eina plötu Apologies to the Queen Mary. Það var Isaac Brock forsprakki Modest Mouse sem stjórnaði upptökum á plötunni og má finna smá bragð (er hægt að heyra bragð?) af áhrifum frá þeirri góðu hlómsveit. Wolf Parade eru hluti af Kanadísku-bylgjunni (The Arcade Fire, Islands) sem hefur riðið yfir indí-rokk heiminn síðustu ár.



Hérna áttu að vera Cold War Kids sem ég var orðinn mjög spenntur að sjá en því miður eru þeir hættir við að koma. Ég mæli með að fólk hlusti á lagið Hospital Beds með þessu bráðskemmtilega bandi.

Jenny Wilson – Let my shoes lead me forward
Jenní þessi er frá Sölvesborg í suðurhluta Svíþjóðar og er að slá í gegn með fyrstu sólóplötunni sinni Love and Youth. Hún hefur áður m.a. samið lag með löndum sínum í hljómsveitinni The Knife. Áhrifavaldar hennar eru allt frá (Smog) til Missy Elliott. Tónlistin er einhverskonar lágstemmt dans-popp, nokkuð hresst bara. Þess má einnig geta að Jenny eignaðist sitt fyrsta barn fyrir skömmu, þann 25.september.

Uppfært 16.október
Var að lesa þetta á heimasíðu Iceland Airwaves:
Bad news. We are very sorry to announce that due to illness Jenny Wilson will not be performing at the Iceland Airwaves festival this year. She was scheduled to play Saturday night, October 21 at the National Theatre Basement. In cooperation with Wilson's manager we've worked hard on find a replacement, and here we have some good news. Jens Lekman will be performing at Airwaves 2006 as Jenny Wilson's replacement.

The Go! Team – Huddle Formation
The Go! Team er fáranlega svalt breskt band sem verður einstaklega spennandi að sjá. Meðlimir eru 3 strákar og 3 stelpur frá Brighton og söngkonan heitir Ninja, hve magnað er það? Hljóðfæraskipanin er mjög mismunandi en stundum er 2 trommarar og svo eru ýmis hljóðfæri notuð sem og sömpl (Stuttir hlutar úr öðrum lögum eru klipptir saman og settir inn í lagið). Leiðtoginn og stofnandinn er kvikmyndagerðarmaðurinn Ian Parton.
The Go! Team spilar mjög hressa, dansvæna en um leið ruglandi indí-tónlist. Bendi ég á Rokkland þátt þann 24.september þar sem fjallað var um hljómsveitina, má heyra hann hér http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4251172.

Labels: , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com