Sunday, February 25, 2007

5 sunnudagslög

Aimee Mann – High on a Sunday 51
Við hefjum leikinn á bandarísku tónlistarkonunni Aimee Mann. Með aðstoð http://www.mymusic.blog.is/ sá ég hana spila á tónleikastaðnum Vega í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum. Ég og félagar mínir Vilhjálmur og Sigurður vorum að ég held einu manneskjurnar undir fertugu á staðnum, en það var samt frábært. Aimee byrjaði í nýbylgjubandinu 'til Tuesday árið 1982 en eftir að sveitin hætti árið 1988 lenti Aimee í samningavandræðum, gat ekki losnað undan samningi og gat því ekkert gefið út í 5 ár og lögin hrúguðust upp hjá henni. Síðan hún gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1993 hefur hún gefið út 5 breiðskífur og hefur einnig unnið sér það til frægðar að sjá um tónlistina í hinni mögnuðu kvikmynd Magnolia.

Johnny Cash – Sunday Morning Coming Down
Gott timburmanna-kántrí frá Johnny Cash, en lagið er samið af góðvini hans og okkar íslendinga Kris Kristofferssyni. Lagið kom upphaflega út á fyrstu plötu Kris en Johnny söng það árið 1970 í sjónvarpsþættinum sínum og olli það miklu fjaðrafoki, mörgum siðprúðum miðríkjamæðrum blöskraði algjörlega þegar Johnny söng ,,I´m wishing, Lord, that I was stoned”. Kris átti lengi í miklu ströggli með að komast inn í tónlistarheiminn og leiddi sér eiginlega inn bakdyramegin. Hann vann um tíma sem húsvörður hjá Columbia Records í Nashville en honum var stranglega bannað að reyna að nálgas listamenn útgáfunnar láta þá fá efni eftir sig. En Kris dó ekki ráðalaus og ákvað að fljúga þyrlu að húsi Johnny Cash og ná þannig tali af honum. Kris lenti í bakgarðinum og Johnny og June sáu að þessi maður hafði greinilega metnað og ákvaðu að hlusta á það sem hann hafði fram að færa. Bæði urðu þau strax mjög hrifin af lagasmíðunum og Kris sjálfum. Johnny söng ótal mörg lög eftir hann á ferlinum. Sunday Morning Coming Down er þekktasta lag Kris í flutningi Johnny’s en hans allra frægasta er þó líklega Me and Bobby McGee í flutningi Janis Joplin. En Kris er fleira til lista lagt, hann hefur leikið í ótal kvikmyndum og þáttum, oftast leikur hann eitthvað rosalegt hörkutól í Hollywood B-myndum eða spagettívestrum. Meðal mynda hans eru Pat Garrett & Billy the Kid, Blade I, II og III og Planet of the Apes (og auðvitað Stagecoach). Vægast sagt gæðamyndir!



Johnny and the Rest – Sunday Blues
Blúsbandið Jón og Afgángarnir er hérna með raf-magnaðan Sunnudagsblús. Keli söngvari hljómsveitarinnar leyfir okkur hérna að heyra í sinni mögnuðu rokk/blús söngrödd , klárlega einn öflugasti rokksöngvari á landinu, þrátt fyrir ungan aldur. Röddin minnir oft á Jenna í Brain Police og jafnvel Jack White stundum (eins kjánalega og það hljómar). Bandið hefur verið til í nokkur ár en hefur loks síðustu mánuði verið að vekja athygli. Spiluðu þeir m.a. hjá Jóni Ólafs og virtust gömlu blúskempurnar vera mjög ánægðir með þá. Einnig hafa þeir verið mjög duglegir við spilamennsku, aðallega á Sportbarnum og Classic Rock og eru orðnir eitt þéttasta neðanjarðarband Reykjavíkur.

Hér má heyra lagið.

Singapore Sling – Sunday Club
Lagið Sunday Club er af annarri plötu hinnar eitursvölu Singapore Sling, Life is killing my rock’n’roll. Lagið er mjög dæmigert fyrir hljómsveitina, skítugur gítar, surg (feedback), letilegar trommur og töffaralegt raul frá höfuðpaurnum Henriki Bjarnasyni. Hef reyndar heyrt ýmislegt misjafnt talað um persónuleika hljómsveitarmeðlima, en þannig er það bara, þú ert ekki kúl nema þú sért drullusokkur.

Morrissey – Everyday is like Sunday
Svo ætla ég að enda á þessari snilld frá Morrissey. Þetta er lokalagið á tónleikum Morrissey´s í Dallas 17.júní árið 1991. Þetta er eiginlega svona ,,Indie Kids gone mad".





Lögin eru komin á tónlistarspilarann á www.kristjangud.blog.is ef hann virkar það er að segja, þessi moggabloggsspilari er ekki alveg að gera sig.

Labels: , , , , , , ,

Sunday, February 18, 2007

Breskt

Þessu ungu Lundúnarstelpu sá ég á tónleikum á Café Amsterdam fyrir einskæra tilviljun á síðasta ári. Þá ætlaði ég að mæta og sjá Noregsvinina í UMTB Stefáni en svo vildi til að Kate Nash bættist (öllum til mikillar gleði) við dagskrána á síðustu stundu. Kate er svona artí-krútt, voða sæt, brosandi í blómakjól að spila á píanóið sitt eða gítarinn sinn með alveg fáránlega mikinn London-hreim. Textarnir eru oft í Antifolk stíl og innihalda margir hverjir dónaleg orð. Áhrifin frá hinni Rúss-Amerísku Reginu Spektor eru einnig greinileg og svo er ekkert fjarri lagi að líkja henni við Lily Allen. Á þessum tónleikum sem ég sá var hún með trommarann Jay með sér, sem spilaði einnig á gítar í nokkrum lögum og leit út fyrir að vera ekki deginum eldri en 15 ára. Ég held að hún hafi verið á landinu til að taka upp plötu, af hverju hér? Það veit ég ekki. Kannski er það orðið eitthvað kúl núna að taka upp plötur á Íslandinu. Ég veit ekki hvort platan sé komin út en hún á líklega að koma út á þessu ári á Moshi Moshi útgáfufyrirtækinu. Í tónlistarspilaranum eru lögin The Nicest Thing og Little Red. Myspace

Næst skulum við færa okkur yfir til Brighton, en það er heimili fjórmenninganna í gæðabandinu I´m being good. Meðlimir eru Andrew Clare (Höfuðpaur/söngvari/gítarleikari), Tom Barnes, Dave Ewan Campell og Stuart O’ Hare. Tónlist I´m being good er líklega eins langt frá angurværu krúttlegu píanó-poppi Kötu. Þeir eru ósköp venjulegir lúðar, komnir á fertugsaldurinn að berja á hljóðfærin sín og fá þannig út vel skipulagða og bjagaða hljóðóreiðu. Hljómsveitin hefur í a.m.k 15 ár (veit ekki nákvæmlega hvenær þeir byrjuðu) fært heiminum hágæða stærðfræði-hávaða-rokk og hafa m.a. tvisvar komið til Íslands og heilluðu mig gjörsamlega upp úr converse-skónum mínum í fyrra skiptið (hafði aldrei heyrt í þeim þá). Þeir hafa gefið út 5 breiðskífur (þar af eitt smáskífu og b-hliðasafn og eitt safn af spunalögum) á sinni eigin útgáfu sem ber nafnið Infinite Chug. Lögin sem eru í spilaranum á http://www.kristjangud.blog.is/ eru; Sixteen Children Eyes af Family Snaps frá árinu 2005, Nostalgic for fake times og Waste of Bullets af smáskífusafninu 8 of us R dead sem kom út árið 2002 og síðast en ekki síst Joust af meistaraverkinu Sub Plot frá 2000. Athugið að þau lög sem ég vel hingað inn á síðuna eru mun hlustendavænni en megnið af því sem I´m being good hafa gert. Heimasíða - MySpace - Heimasíða Infinite Chug

Greinilegt er að áhrif heimsókna I´m being good er farið að gæta í íslensku neðanjarðarsenunni. Hljómsveitin Me the Slumbering Napoleon spilar t.d. hávaðarokk sem er mjög litað af áhrifavöldunum, IBG og Polvo. Efnilegt band þarna á ferð. MySpace

Labels: , , , ,

Monday, February 12, 2007

Háskólarokk

Ekki fyrir svo löngu þegar ég var á gangi í miðborg Reykjavíkur, ákvað ég skyndilega að seilast niður í vasann minn og skipta um tónlist í spilastokknum (iPod-inum) mínum. Það sem varð fyrir valinu var Down in the Backyard með Heróglym sem kom út á samnefndri (að mig minnir) stuttskífu fyrir tveimur árum (aftur er ég ekki viss). Heróglymur er eitt af fáum háskólarokkböndum íslenskrar rokksögu, að minnsta kosti eitt af fáum sem eru góð. Heróglymur er nefnilega drullu-gott band. Reyndar hef ég það frá ónefndum nafna mínum í sveitinni að bandið sé fallið í dauðadá og óvíst hvort það lifni aftur við. Einhverjir dauðakippir eru þó í bandinu og vaknaði það um daginn og vildi kalla sig Winterman. Heimildarmaðurinn minn sagði þó að meðlimir hljómsveitarinn myndu vafalaust halda áfram að gera tónlist, ýmist í sitthvoru lagi, eða nokkrir saman. Heróglym skipuðu tvíburabræðurnir Kristján (bassi) og Daníel (trommur, gítarleikarinn Pétur og Gítarleikarinn/Söngvarinn Doddi, sem hefur gert garðinn frægan með einsmannsbandinu með frumlega nafnið Doddi, sem og raftónlistarverkefninu Enkídú. Reyndar er enginn meðlima hljómsveitarinnar kominn á háskólaaldur en það skiptir ekki öllu máli. Einhvern tímann líkti einhver þeim við gæðabandið ...And You Will Know Us By The Trail Of The Dead, held meira að segja að það hafi bara verið ég.

Heróglymur - Down in the Backyard

Annað íslenskt band sem mætti jafnvel kalla háskólarokk, þó að sú skilgreining sé mjög vafasöm, er Lada Sport. Að minnsta kosti er þetta nýja lag með þeim svolítið Weezer skotið (ekki skemmir fyrir að gítarleikarinn er með gott Rivers Cuomo-útlit í gangi) og réttlætir það þessa skilgreiningu. Þeir gáfu út EP-plötuna Personal Humour fyrir nokkrum árum og seldist hún nokkuð auðveldlega upp. Þess má geta að ég er búinn að týna mínu eintaki og ef einhver sem á hann vill brenna diskinn fyrir mig væri það vel þegið. Frá því að sú plata kom út hafa orðið mannaskipti á gítarnum, gamli gítarleikarinn var seldur til Jakobínurínu en nýr var fenginn úr gæðabandinu Isidor, sem hefur verið hljóðlátt mjög lengi (kannski dautt?). Lagið Love Donors, sem hægt er að hlusta á með því að smella á slóðina hér fyrir neðan, er af væntanlegri breiðskífu piltanna sem kemur út einhvern tíman á næstunni. Hljómurinn hefur breyst þónokkuð síðan á síðustu plötu, söngvarinn hefur bætt sig (nýji gítarleikarinn syngur reyndar í þessu lagi) og textarnir eru orðnir örlítið vitrænni.

Lada Sport - Love Donors

myspace - youtube

Fyrst að ég er byrjaður að nefna meistarana í Weezer verð ég setja inn einhver lög með þeim.

Tired of Sex
Af plötunni Pinkerton frá 1996



El Schorcho
Einnig af Pinkerton frá 1996



Island in the Sun
Af plötunni Weezer (græna albúmið) frá 2001

Þetta myndband eftir Spike Jonze er eiginlega bara yndislegt (afsakið orðalagið). Takið eftir því að aðeins þrír meðlimir sveitarinnar eru í myndbandi, bassaleikarinn Mikey Welch (bassaleikari númer tvö af þremur) var farinn á geðveikrahæli.



Keep fishin’
Af plötunni Maladroit frá 2002

Viðbrögð söngvarans Rivers Cuomo þegar honum var sagt frá hugmyndinni að þessu myndbandi voru: ,,that´s so gay”. En hann hefur greinilega gefið sig á endanum.



p.s. lögin úr síðasta bloggi eiga að vera komin í tónlistarspilarann á www.kristjangud.blog.is

Labels: , , ,

Friday, February 02, 2007

Skammdegisógeð

Úti er rigning og rok, viðbjóðsleg rigning og ógeðslegt rok. Eina sem hægt er að gera í svona horbjóðslegu veðri er að leggjast upp í sófa með heitt kakó, góða bók og hlusta á þunglyndislega tónlist. Hér er gott sándtrakk í það.

Vollmar – A widow
Alveg sama hvernig veðrið er, verður manni sjálfkrafa kalt af því að hlusta á þetta lag. Vindurinn sem ber á glugganum er svo napur að argasti guðleysingi þakkar guði fyrir að vera inni. Svoleiðis líður mér núna. Ég veit ekki mikið um Vollmar, ég held að maðurinn á bakvið bandið sé Justin Vollmar frá Bloomington í Indiana-fylki Bandaríkjanna, svo minnir mig að bróðir hans komi eitthvað nálægt þessu. Lagið A Widow er af plötunni 13 or so people who need chances sem ég keypti á tónleikum hljómsveitarinnar á Kaffi Hljómalind 19.Nóvember 2005. Þar spilaði líka Drekka, en hann er eigandi Blue Sanct útgáfunnar sem gefur út tónlist Vollmar. Diskurinn í heild sinni er frábær, lágstemmdur og melódískur (ólíkt tónlist Drekka sem mörgum þykir líklega eintómur hávaði). Án þess að ég hafi gert mér grein fyrir því er platan ein sú mest spilaða í tölvunni minni. Frábær í skammdegisþunglyndið.

Johnny Cash (ásamt Bonnie “Prince” Billy) – I see a Darkness

Ég hef hvorki fjallað um Cash né Will Oldham á þessari síðu minni og er það einstakleg skammarlegt, en nú bæti ég úr því. Þetta lag er gott þegar maður sér ekkert nema myrkur. Hér leiða þessir meistarar saman hesta sína undir stjórn Rick Rubins. Lagið kom út árið 2000 á þriðju American Recordings plötu Johnny´s. Ameríku-upptökurnar urðu til þess að endurvekja vinsældir Cash sem hafði þótt ókúl alltof lengi. Persónulega finnst mér fyrsta og þriðja platan sterkastar, fyrsta vegna góðra lagasmíða Johnnys en sú þriðja aðallega vegna magnaðra endurgerða. I see a Darkness er samið af Will Oldham sem gengur undir ótal nöfnum m.a. Bonnie “Prince” Billy og kom upphaflega út á samnefndri plötu meistarans. Þess má geta að Will (Bonnie) tók nýjustu plötu sína The Letting Go í Gróðurhúsinu, upptökuveri Valgeirs Sigurðarsonar í Breiðholti.

Bright Eyes – If winter ends
If winter ends er upphafslag á annarri breiðskífu Bright Eyes sem er hliðarsjálf undrabarnsins Conor Oberst’s frá Nebraska (hann heldur því reyndar fram að fleiri meðlimir séu í hljómsveitinni en það er mjög mismunandi hverjir það eru). Letting off the Happiness kom út árið 1998 þegar Conor var 18 ára, áður hafði hann gefið út kasettur og 7 tommu plötur undir eigin nafni (sú fyrsta þegar hann var 13 ára). Hann hefur greinilega átt erfitt oft á tíðum og má heyra það í myrkum textum og oft þunglyndislegum laglínum. Svo virðist sem að veturnir í Nebraska hafi verið jafn langir og hér á fróni, því að texti lagsins fjallar um þránna eftir sumrinu, að minnsta kosti einhverju öðru en vetri. Platan er voðalega Lo-Fi, gítarsurgi (feedback) og rennigítar (slide-guitar) er skemmtilega blandað saman . Umslagið og upplýsingar á því er persónlegt og um lagið If winter ends stendur t.d.: ,,Recorded at home on four-track March 1997. I sang and played guitar. The keyboards and samples were added later at Mike Mogis’ house. I don´t remember who ended up playing the keyboard part (it wasn´t very hard)”. Stúíóplötur Bright Eyes eru nú orðnar 7 talsins og sú áttunda, Cassadaga, kemur í búðir í apríl.

My Summer as a Salvation Soldier - Stagedives & Highfives
Hér önnur einsmannshljómsveit á ferð, Þórir, óskabarn íslensku harðkjarnasenunnar. Þetta kveikir líka í mér öflugar og andstæðar tilfinningar, að vissu leyti er það svolítil depurð en um leið bjartsýni, sátt með lífið þó það sé oft á tíðum erfitt. Einfalt gítarspil, grípandi laglína og persónulegur texti gerir þetta lag eitt af betri lögum Þóris.

The grass is always greener on the other side they say.
I´ll make my own side the other and be satisfied that way.
I keep my fingers in my pockets, just to keep from being cold.
I sing along to Minor Threat songs to keep from growing old.
And I´ll never sing the same old tune, my friends did before me.
I´ll be as true to this as anyone could be.
Fingerpointing to my walkman as I walk my way to work,
I walk under the streetlight the whole way
couse it´s still dark, and it´s still dark, it´s still dark.
Got memories so bad, but some I have are pretty good.
In a dark and gloomy basement where we played for our salvation
and for a while we forgot wars and murders, hunger and starvation.
We just sang, we just sang.


Elliott Smith – I didn´t understand
Konungur þunglyndisins má ekki vera skilinn útundan, það er auðvitað Elliott Smith. Ég hef ekki ennþá heyrt lag með þessum manni sem er lélegt, frábær popp-lagasmiður.. Af ótal ástæðum finnst mér þetta besta lag Elliott’s.

My feelings never change a bit i always feel like shit
I don't know why i guess that i "just do"


Melankólían og vonleysið er fullkomið. Textinn virðist fjalla um sambandsslit, sem honum finnst hann bera ábyrgð á. Hann elskar engann og trúir því ekki að nokkur maður geti elskað hann. Honum finnst hann eiga skilið að vera einn, alltaf! Sjálfsálit mannsins er í molum, þunglyndið er svarthol. Útsetning lagsins er mjög einföld, margföld rödd Elliott´s er það eina sem heyrist og leggur það áherslu á einmanaleika textans. Englakór þjakaður af öllum áhyggjum alheimsins, kannski eins og raddirnar sem bergmáluðu í hausnum á skáldinu.
29. Desember 2005 spilaði Pétur Ben þetta lag stórvel á Elliott Smith-tribute tónleikum á Gauk á Stöng.
Eins og áður er vandamál með lögin og netið... fyrstu þrjú eru á kristjangud.blog.is hin koma vonandi bráðlega.

Labels: , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com