Monday, January 29, 2007

,,Rave is the refuge for the mentally deficient. It's made by dull people for dull people''

sagði Steven Patrick Morrissey
---------------------------------------

Um daginn borðaði ég sviðakjamma, ég borðaði andlitið á kind. Ég hef aldrei á ævinni hugsað um þau dýr sem ég hef lagt mér til munns. En þegar ég sá augu kindarinnar, aumkunarvert brosið og tunguna sem lá út um munnvikið, stóð mér bara einfaldlega ekki á sama. Til þess að sýna karlmennsku mína borðaði ég hálft kindarfés. Mér var óglatt, píndi matinn hálfpartinn ofan í mig. Ég velti því lengi fyrir mér hvað olli þessari vanlíðan, er það hræsni að vilja ekki borða andlit kindarinnar, en háma í sig hrygg og læri eins og ekkert sé. Er það ekki eins og að segja ,,Þú mátt drepa þennan mann ef ég þarf ekki að sjá líkið”, eða hvað? Ef maður lenti í þeim aðstæðum að nauðsynlegt væri að borða besta vin sinn, myndi maður ekki borða andlitið síðast? Andlitið er stórmerkilegur hluti líkamans, afkvæmi eru til dæmis með falleg andlit svo foreldrarnir elski þau pottþétt. En út frá þessu varð mér hugsað til meistaranna í The Smiths og annarrar plötu þeirra, Meat is Murder. Nafnið út af fyrir sig er snilld, þrjú orð á sama tíma svo róttæk og eðlileg. Umslagið skartar mynd af hermanni og krotað hefur nafn plötunnar verið á hjálm hans. Myndin er tekin úr heimildarmyndinni In the Year of the Pig frá árinu 1968 sem fjallar um Víetnam stríðið og upphaflega stóð Make War not Love á hjálmi hermannsins. Það er svo sem ekkert einsdæmi að The Smiths (og síðar Morrissey) finni upp svona snilldarnöfn á plötur. Aðrar plötur Smiðanna frá Manchester bera einnig nöfn sem eru ótrúlega mögnuð í einfaldleika sínum. Þriðja plata þeirra (og líklegast þeirra frægasta) The Queen is Dead er einnig dæmi um einfalda og grípandi staðreynd. Louder than Bombs og Strangeways, here we come (með The Smiths), Viva Hate, Kill Uncle, Beethoven Was Deaf, You are the Quarry og Ringleader of the Tormentors (með Morrissey) finnst mér einnig hágæða plötunöfn.

Hér er myndband af Smiðunum Johnny Marr (gítarleikari og lagahöfundur) og Morissey (söngvari og textahöfundur) í barnaþættinum Charlie's Bus með Sandie Shaw. Þátturinn er frá 1984, apríl nánar tiltekið. Takið eftir því þegar einn krakkinn spyr ,,Where are we going?” og Morrissey svarar ,,We’re going mad”. Kostulegt! Í lok myndskeiðsins spila síðan Johnny Marr og þáttarstjórnandinn Sandie Shaw Smiths-lagið Jeane sem kom út á B-hlið smáskífunnar Charming Man...



...og hér getið þið séð myndbandið við How Soon is Now sem er líklega þekktasta lag Meat is Murder (sérstaklega eftir að rússneski lessudúettinn T.A.T.U söng það svo eftirminnilega, man einhver eftir því?).



The Smiths - Rusholme Ruffians
Meat is Murder (1984)


The Smiths - What difference does it make
The Smiths ( 1984)

The Smiths - Frankly Mr. Shankly (live)
upphaflega á The Queen is Dead (1986)

Morrissey - You have killed me
Ringleader of the Tormentors (2006)

Labels: ,

Sunday, January 21, 2007

Slægur fer gaur með gígju

er nafnið á útvarpsþætti frá árinu 1989 þar sem Megas fjallar um ævi og störf Bob Dylan's.
Þættirnir eru á Sunnudagskvöldum á Rás 2 en einnig hægt að hlusta á netinu, mæli með þessu...
HLUSTA

Labels: , , ,

Michelle Shocked og Hipp-Hopp

Núna hef ég komið mér upp svæði hjá moggablogginu blog.is og þar get ég sett inn lög í sérstakan tónlistarspilara. Ég mun ennþá blogga hér að minnsta kosti til að byrja með, en spilarinn verður á hinni síðunni. Það væri sniðugt ef þið eruð að lesa bloggið að opna http://kristjangud.blog.is í öðrum glugga og hlusta um leið. Ég veit að þetta er svolítið vesen en mun vera svona til að byrja með, ef ég finn ekki betri lausn mun ég líklega færa síðuna alveg á blog.is.
---------------------------------------------------

Fór í skífuna í vikunni og skipti þessum disk…













…fyrir þennan…














Ég myndi segja að það hafi verið góð skipti.

The Texas Campfire Takes með Michelle Shocked var tekinn upp árið 1986 á þjóðlagahátíðinni í Kerrville í Texas. Aðdragandinn að upptökunni var að Michelle (fædd Karen Michelle Johnson árið 1962) ætlaði að taka þátt í lagasmíðakeppni hátíðarinnar. Þeir sem vildu taka þátt og vildu fá að spila þurftu að senda inn demo-upptöku en demó-ið hennar Michelle týndist í pósti og var því ekki pláss fyrir hana í dagskránni. Pete Lawrence annar eigenda breska útgáfufyrirtækisins Cooking Vinyl var á hátíðinni og heyrði hana spila á fiðlu og spurði hvort hann mætti taka upp plötu með henni. Pete og Michelle settust saman við varðeld í jaðri hátíðarsvæðisins og tóku upp plötu á Sony Walkman (vasadiskótæki) sem Pete var með. Í bakgrunni heyrist í varðeldinum, kakkalökkum og bílum að keyra framhjá. Öll útgáfan var mjög viðvaningsleg, lög hétu vitlausum nöfnum, upptökubúnaðurinn breytti hraða sumra laganna. Talandi um Lo-Fi, ennþá engar hugmyndir að íslensku nafni á Lo-Fi tónlist? Hvernig finnst ykkur Lé-Tæ (Léleg tækni)?
En allir þessir gallar gerðu í rauninni plötuna enn meira heillandi og lögin standa fyrir sínu. Lögin eru hreinræktuð amerísk þjóðlagatónlist þar sem stefnum og stílum er hrært saman og eykur það einnig áhrifamáttinn að lögin séu flutt af alþýðukonu með kassagítar sem hefur átt heldur betur stormasama ævi. Michelle er frá Gilmer í Austur-Texas og áhrifavaldar hennar eru flestir af því svæði, blökkumenn sem syngja suðurríkjablús og sveitalúðar sem syngja kántrí-tónlist. Michelle var yngst 8 systkina úr heittrúaðri mormónafjölskyldu, 16 ára flutti hún að heiman enda hafði hún róttækar skoðanir sem voru ekki vel liðnar á íhaldssömu heimilinu. Ekki löngu seinna var hún greind paranoid schizophrenia og sett inn á geðsjúkrahús. Meðal annars gekkst hún undir svokallaða Shock treatment og gæti verið að eftirnafnið Shocked sé komið frá því, en heimildum ber ekki saman um það. Hún kláraði háskóla og eftir það ferðaðist hún um allan heim í nokkur ár og bjó m.a. í Barcelona, Mílanó, London og Amsterdam. Ævintýraförin endaði með hryllingi í bænum Comiso í Ítalíu þar sem Michelle var nauðgað.- Eftir þetta hefur hún barist kröftuglega með ýmsum samtökum gegn nauðgunum, klámi og misrétti.
Árin eftir Texas-varðeldatökurnar gaf Michelle út nokkrar plötur hjá Mercury/Polygram og Cooking Vinyl. Árið 1993 skráði hún sig síðan á blöð sögunnar þegar hún kærði útgáfufyrirtækið Mercury/ Polygram fyrir að hneppa sig í þrældóm enda höfðu eigendurnir neitað að gefa efnið hennar út og einnig bannað henni að ræða við önnur útgáfufyrirtæki. Dómssátt náðist og fékk hún samningnum rift. Seinna stofnaði hún síðan sína eigin útgáfu, Mighty Sound.
Heimasíðu Michelle: www.michelleshocked.com
Hlustið á 4 lög af Texas Campfire Takes á http://kristjangud.blog.is
---------------------------------------------------

Og víst við erum í róttæklingum ætla ég að leyfa ykkur að heyra í íslensku Hipp-Hopp sveitinni Forgotten Lores sem ég hef verið að hlusta á undanfarið, alveg frábært band þar á ferð. Ég hef reyndar ekki heyrt nýju plötuna, Frá Heimsenda (sem á víst að vera mögnuð), en þessi lög eru af Týnda hlekknum frá 2003. Alltaf gaman að heyra gott Hipp-Hopp á íslensku þar sem fjallað er um alvöru hluti. Njótið vel!
Heimasíða FL: www.forgottenlores.com
Hlustið á 2 lög með Forgotten Lores á http://kristjangud.blog.is

Labels: , , , , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com