Thursday, July 31, 2008

Leigubílalögin


Undanfarið hef ég verið að renna í gegnum The Black Cab Sessions þættina á netinu. Í hverjum þætti kemur einn listamaður eða hljómsveit og spilar eitt lag. Það er svo sem ekkert merkilegt nema fyrir þær sakir að flutningurinn á sér stað í hefðbundnum lundúnarleigubíl á ferð. Allskonar tónlistarmenn hafa komið fram en oftast er músíkin einhvers konar indítónlist (hvað sem það þýðir nú til dags). Þegar þetta er skrifað eru þættirnir orðnir 50 talsins. Meðal þeirra sem hafa spreytt sig eru Death Cab For Cutie, Fleet Foxes, Noah and the Whale, Seasick Steve, Daniel Johnston og Jeffrey Lewis, svo örfáir séu nefndir.

http://www.blackcabsessions.com/
Black Cab Sessions á Youtube



Monday, July 28, 2008

conor oberst conor oberst

Eins og svo margir aðrir legg ég ávallt við hlustir þegar að fyrrverandi undrabarnið Conor Oberst (Bright Eyes) gefur út nýtt efni. Þann 5.ágúst kemur út fjórtánda plata kappans og sú fyrsta undir eigin nafni í 12 ár. Hún ber hið einkar frumlega nafn, Conor Oberst. Með honum á plötunni spilar hljómsveitin The Mystic Valley Band.

Hann er greinilega eitthvað að losna við feimnina því að auk þess að nefna plötuna eftir sér er hann í fyrsta skipti á sínu eigin plötuumslagi.

Platan er talsvert ólík síðustu plötu hans, Cassadaga, hún er hrárri og á vissan hátt persónulegri. Textarnir eru um ferðalög, sambandsslit, krabbameinssjúkan strák og litla sem enga pólitík. Tónlistin er auðmeltanleg sveitatónlist sem nær því miður aldrei að komast með tærnar þar sem skífur eins og Letting off the Happiness, Lifted or The Story Is in the Soil, Keep Your Ear to the Ground, Fevers&Mirrors og I´m wide awake it´s morning eru með hælana. Hann er greinilega að verða sáttari með lífið því að þetta er ljúf plata sem rennur ábyggilega ágætlega niður með heitum kakóbolla.

Þrátt fyrir að Conor syngi nú aftur undir sínu nafni þurfa aðdáendur Bright Eyes engu að kvíða. Upptökur á næstu plötu "hljómsveitarinnar" hefjast í Nóvember.

Einnig hefur heyrst að Conor sé að vinna með M.Ward og Jim James (úr My Morning Jacket) að gerð samstarfsplötu. Djöfull hljómar það spennandi.

Hægt er að hlusta á alla nýju plötuna hér... http://www.conoroberst.com/album/

Roskilde – 4.hluti – Laugardagur

VARÚÐ... þessi póstur er langur (nánar tiltekið 1685 orð)

Þegar að ég vaknaði snemma á laugardagsmorgun lofaði ég sjálfum mér að endurtaka mistök gærkvöldsins aldrei aftur. Nú yrði það meiri músík, enginn bjór... ókei, minni bjór. Ég ákvað að taka daginn snemma og kíkti strax klukkan 12:45 í Astoria á Wildbird & Peacedrum: Villifuglinn og Friðardrumban er dúett skipaður hressum krökkum frá Svíþjóð. Strákurinn lemur húðir á meðan stelpan ýmist syngur eða öskrar yfir. Þau kynntust víst í tónlistarháskóla þar sem þeim fannst of mikil áhersla á tækni en lítil á innlifun. Þau gefa því öllum hefðbundnum spilareglum fingurinn og gefa tilfinningunum lausan tauminn. Á köflum tókst þeim að láta styrk laganna yfirgnæfa tómleikann sem fylgdi hljóðfæraskipaninni. Best tókst þeim til í rólegri lögunum (þar sem orgel og önnur hljóðfæri voru einnig brúkuð) og þegar að þau sungu saman. En oftast fannst mér þau hljóma eins og óþekkir krakkar sem hafa komist í trommusettið hans pabba og míkrafón. www.myspace.com/wildbirdsandpeacedrums

Næst kíkti ég á danska kamelljónið A Kid Hereafter (Frederik Thaae) sem spilaði á þrennum tónleikum á hátíðinni. Hverjir tónleikar höfðu sitt þema; popppönk, metall og strengjapopp. Þennan dag var það metalfílingur í kallinum. Þetta var svona hálfgert söngleikjagrindcore, eða smile-metal eins og hann nefndi það sjálfur. Hundleiðinlegt alveg hreint. Nenni ekki að eyða mínum tíma eða ykkar í meiri útskýringar. www.myspace.com/akidhereafter

Ég hélt áfram með skandinavískt þema og kíkti á sænska hjartaknúsarann José Gonzalez. Hvert einasta lag Josés hljómar u.þ.b. nákvæmlega eins, svo að eftir nokkur lög varð ég þreyttur á fyrirsjáanleikanum. Flutningurinn var óaðfinnanlegur en tilfinningalausari en hreingerningarþjarkur. Þegar ég var að lauma mér út hljómaði hittarinn Heartbeats úr skopparaboltaauglýsingunni. Pælið þið í því hvað það er ömurlegt að vera frægur fyrir að flytja lag einhvers annars, og ekki nóg með það, heldur sló það í gegn í auglýsingu. Jósé verður nú að fara að bomba út fleiri slögörum til að hrista þetta af sér. www.myspace.com/josegonzalez

Nú stóð valið á milli Tokyo Police Club frá Kanada og Efterklang frá Danmörku. Þar sem Roskilde er draumaspilastaður allra danskra hljómsveita grunaði mig að Efterklang myndi flagga öllu, sem og þeir gerðu, og kíkti því þangað. En fyrst þurftu tónleikagestir að bíða í rúman hálftíma vegna skipulagsleysis hátíðarhaldara. Í fyrsta lagi voru þeir, eitt vinsælasta danska bandið í dag, látnir spila í Astoria, eina lokaða tjaldinu þ.e.a.s. sem hefur aðeins tvo (eða þrjá?) litla innganga. Menn hefðu nú alveg getað sagt sér að þeir myndu fylla það. Þegar að of mikið fólk mætti þurfti að bíða eftir aukaöryggisvörðum til að halda aftur af mannfjöldanum. Þetta jók bara á hitann, svitann og óróann í tjaldinu. Eníveis... svo byrjuðu tónleikarnir. Efterklang fannst mér góðir. En ýmislegt skemmdi fyrir. Frá Orange heyrðust djúpir bassatónar frá tónleikum rapparans L.O.C. og trufluðu á angurværustu augnablikum tónleikanna. Svo voru vinir þeirra í hljómsveitinni Slaraffenland þeim til halds og trausts, stundum hjálpuðu þeir til með flutninginn en þess á milli voru þeir með allt of æfð fíflalæti, sápukúlur og bréfskutlur sem þeir köstuðu í tónleikagesti. Fíflalætin gerðu þó eitthvað fyrir hinn sjónræna hluta tónleikanna (sem var mjög glæsilegur). Efterklang voru í hvítu einkennisbúningum sínum með skikkjur og aukamennirnir í rauðum íþróttagöllum. Tónleikarnir voru gríðarkraftmiklir (enda fokking mörg hljóðfæri í bandinu). Hljómsveitin hefur skapað sér sinn eigin stíl, einhvers konar epískt (en þó hresst) mix af Arcade Fire og SigurRós með bæði lifandi og rafrænum hljóðum og flottum raddútsetningum. Nokkuð gott en fæstum laganna tekst þó að hrifsa mig til sín. www.myspace.com/efterklang

Næstu tímana tók ég því rólega en kíkti þó við á Joan as Police Woman sem var skítsæmileg. Mikill fjöldi miðaldra fólks var saman komin til að hlýða á Jóhönnu. Joan Wasser hefur unnið með ýmsum flinkum listamönnum s.s. Anthony (úr The Johnsons), Rufus Wainwright og þáverandi kærasta sínum, Jeff Buckley. Nú kallar hún sig semsagt Joan as Police Woman og hefur gefuð út tvær plötur undir því nafni. Joan spilaði bæði á píanó og gítar og með henn spiluðu bassafantur og trommari. Voða mellow músík. www.myspace.com/joanaspolicewoman

Ég sá útundan mér örlítið af Judas Priest. Leður, gaddar, rokk´n´mótorhjól. Ekki mín tegund af kaffi.

Nú fóru málin að vandast. Hávaðahetjurnar í My Bloody Valentine og hinn síungi Neil Young spiluðu á u.þ.b. sama tíma. Ég afréð að kíkja á byrjunina á MBV. Ég mætti snemma til að ná góðu stæði og var því orðinn vel spenntur þegar að fyrstu drunurnur heyrðust frá gítarmagnara Kevin Shields. Strax var talið í snilldina I only said af Loveless. MBV stóðu undir nafni og spiluðu ógeeeeeðslega hátt. Eftir hvert lag skiptu báðir gítarleikararnir um gítar og fengu alltaf nýjan Fender Jaguar, einfaldur smekkur hjá krökkunum. Fyrst velti ég því fyrir mér hvort að þau væru bara að koma saman aftur til að græða pening (eins og t.d. Pixies og Happy Mondays) því að þau stóðu með hálfgerðan fýlusvip og horfðu niður á tærnar sína á meðan þau spiluðu. Svo áttaði ég mig á því að ég væri auðvitað að horfa á alvöru Shoegaze-band. Ég sá aðeins nokkur lög en voru þau öll ótrúlega góð, hafa greinilega engu gleymt þrátt fyrir langt hlé. Tónleikarnir fengu líka gríðarlega góða dóma í dönsku pressunni. Ég flýtti mér því næst yfir á Orange þar sem að gamlinginn Neil Young var um það bil að byrja. www.myspace.com/mybloodyvalentine

Njáll (ekki lengur) Ungi stóð undir mínum væntingum sem voru þónokkrar. Ég bjóst reyndar allt eins við því að hann myndi bara vera gamall og súr. En nei, það var þvílíkur kraftur í kallinum, spilaði mikið af nýjum lögum (hann er einn af fáum gömlum kempum sem semja ennþá góða tónlist), kóverlög og gamla krádplísera. Þó fannst mér fullmikið af gítarsólóum og hvert einasta lag endaði með nokkurra mínútna hávaða/sólói/brjálæði sem varð skiljanlega svolítið þreytt eftir fyrstu lögin. En ætli Neil verði ekki að fá að hafa gaman að þessu líka, það getur varla verið gaman að spila Heart of Gold í trilljónasta skipti. Eins og flestir var ég mjög sáttur með nokkurn fjölda laga af meistarastykkinu Harvest. Best fannst mér Needle and the Damage Done sem hefur alltaf hreyft við mínu litla hjarta. Ég náði ekki að klára tónleikana því mér fannst ég verða að kíkja í örfáar mínútur á tónleika Girl Talk. www.myspace.com/neilyoung Myndbandið sýnir hluta af útgáfu Neils af bítlasnilldinni A day in the life.









Girl Talk er listamannsnafn ameríkanans Greg Gillis sem hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár. Hann er nýbúinn að gefa út fjórðu breiðskífu sína Feed the Animals hjá Illegal Arts útgáfunni. Hann sló eiginlega í gegn í netheimum með plötunni Night Ripper árið 2006. Tónlistin er merkileg að því leyti að ekkert í henni er samið af Gillis. Hann blandar aðeins saman lögum eftir aðra tónlistarmenn (t.d. takti úr einu lagi og söng/rapp úr öðru). Í hvert lag notar hann búta úr að minnsta kosti 12 öðrum lögum til að búa til nýtt lag. Hann blandar oft á tíðum mjög mismunandi stefnum, rokki, rappi, elektró og fleiru og bakar þannig einstaklega dansvæna böku. Hann er þekktur fyrir villta sviðsframkomu. Þetta kvöld var engin undantekning. Hann fékk fullt af fólki upp á svið sem dansaði eins og það ætti lífið að leysa. Klæddur eins og tenniskappi frá níunda áratugnum stóð Greg kengboginn yfir tölvunni á milli þess sem að hann hoppaði um sviðið með áhorfendunum. Svo greip hann líka í hljóðnemann og kallaði hey, og áhorfendaskarinn svaraði hó. Stemmningin í Cosmopol var ólýsanleg og hver einasti maður í tjaldinu var dansandi, jafnvel súrustu fýlupúkar hnykktu mjöðmunum og stöppuðu í takt við tónlistina. www.myspace.com/girltalkmusic

Nú var ég farinn að verða ansi þreyttur en fékk mér smá hressingu og lét mig hafa það. Næst var nefnilega á svið sú hljómsveit sem ég beið hvað spenntastur eftir, Liars. Liars sönnuðu sig sem eitt framsæknasta band síðustu ára með hinni stórkostlegu Drums not Dead árið 2006. Hljómsveitin byrjaði sem hluti af Diskó-Pönk senunni í New York en flutti til Berlínar og færði sig fljótt yfir í einhverskonar tilraunakennda hávaðablöndu af indírokki, síðpönki, og No Wave (stefna sem var upp á sitt besta í NY í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins, einkenndist af hávaða, skorti á melódíum og níhílisma, dæmi um NoWave bönd eru DNA, Teenage Jesus & The Jerks og jafnvel Sonic Youth í byrjun ferilsins). Ekki var mikill fjöldi af fólki í litla Pavillion tjaldinu enda músíkin langt frá því að vera allra. Þeir sem mættu virtust þó flestir vera jafn spenntir og ég. Lygararnir komu fram sem kvartett en ekki tríó eins og venjulega og fékk því höfuðpaurinn, hinn ástralski, Angus Andrew að leika lausum hala án þess að vera bundinn við gítarinn. Hann er jafn undarlegur í persónu og hann hljómar. Persónulega fannst mér tónleikarnir mjööög góðir. Þeim tókst að endurskapa hina sérstöku stemmningu platnanna og fengu fólk jafnvel til að syngja með í nokkrum laganna. Þeir fáu áhorfendur sem voru mættir voru vel með á nótunum og dönsuðu við sítrónusúra tónlistina. Aðallega tóku þeir lög af nýjustu plötunni Liars sem kom út í fyrra og DND. www.myspace.com/liarsliarsliars

Þar sem ég hafði ekki náð að plata neinn með mér á Liars var ég einn þegar að ég kíkti yfir á Chemical Brothers. Stemmningin var gríðarleg. Tugþúsundir manna dansandi í Hróarskeldunóttinni við dúndrandi danstónlist og geðveikt ljósasjóv. Þegar að myndavélum risaskjánna var beint að efnabræðrunum sást hve gamlir þeir eru að verða. Tónlistin gaf það þó engan veginn til kynna. Því miður var ég einn, ógeðslega þreyttur og ekki á neinum ólöglegum lyfjum og nennti því ekki að stíga dans með mannfjöldanum. www.myspace.com/thechemicalbrothers

Ég rölti yfir að Cosmopol, fékk mér sæti fyrir utan og hlustaði á krónprinsa Dubstepsins Skream og Benga sem spila núna undir nafninu Magnetic Man. Wahwah-bassinn var auðvitað dýpri en Atlantshafið og taktarnir einstaklega vel slípaðir.

Klukkan var að verða 02:00 og ég fór að huga að heimferð. Ákvað þó að ég yrði að koma við í Pavillion og sjá pönkkálfana í No Age. Nýjasta LP-platan þeirra, Nouns, fékk nýlega 9,2 hjá Pitchforkmedia og verður það að teljast mjög hátt á þeim bænum. Tónlist tvíeykisins fannst mér mjög áhugaverð en ég verð samt að viðurkenna að þeir náðu ekki alveg að grípa mig. Það er þó skiljanlegt þar sem að ég var gjörsamlega uppgefinn eftir 14 tíma á tónleikasvæðinu. Ég held að ég skuldi þeim algjörlega annan séns. Þegar ég var byrjaður að dotta aftast í fámennu tjaldinu fór ég svo loksins heim. www.myspace.com/nonoage

Tuesday, July 22, 2008

Roskilde festival – 3.hluti – Föstudagur

Planið var að byrja daginn með því að sjá Band of Horses á Arena-sviðinu klukkan fjögur. En það vill stundum þannig til á Hróarskeldu að maður tefst við bjórdrykkju. Þess vegna tókst mér að mæta of seint til að fá almennilegt pláss á Hestabandið. Ég hljóp því yfir á Odeon og náði í skottið á Mugison (eða Ornelius Gumuson eins og hann var nefndur í hátíðardagskránni). Ég skemmti mér ágætlega, bandið var þétt (enda fokking landsliðið mætt, Flísarmeðlimir og Pési Ben) og einstaklega mikið rokk í Múgí. Ég reyndar hef aldrei alveg náð Mugison, kannski kann ég bara ekki gott að meta. Auðvitað var mikill fjöldi íslendinga mættur til að styðja strákana okkar, með fána og þjóðrembulega stemmningu. Hér má sjá mjög breytta útgáfu af ofurslagaranum Murr Murr sem þeir enduðu tónleikana á. Pétur Ben í essinu sínu (og suddalega þröngum buxum). http://www.myspace.com/mugison









Eftir þessa hressu byrjun á deginum kíkti ég yfir í Lounge tjaldið og tók því rólega í sandinum á meðan hinn sænski Krusseldorf spilaði sína tjilluðu ambient elektrómúsík. Roskilde vefsíðan kallar tónlistina intellegent dub. Það finnst mér asnaleg skilgreining en þar sem ég get ekki boðið betri lýsingu verður það að nægja. Huggulegt. http://www.myspace.com/krusseldorf

Nokkrir bjórar í viðbót og allir voru tilbúnir í Kongunga Leonríkis sem spiluðu á Appelsínusviðinu klukkan sjö. Predikarasynirnir (+frændinn) eru nokkurn veginn komnir úr sveittu sveitarokkinu yfir í einhvers konar indí-leikvangarokk. Það var gott þar sem að Orange hentar auðvitað einkar vel til leikvangarokks. Mér finnst nú gamla stöffið skemmtilegra en skemmti mér þó konunglega (hehei!). Kings of Leon spiluðu efni af öllum plötunum þremur sem og spánýtt dót. Guð almáttugur var með þeim í liði og splæsti í sól og sumaryl, sem smellpassaði auðvitað við hressandi tónana. http://www.myspace.com/kingsofleon


Næst var kíkt á Seasick Steve sem spilaði í minnsta tjaldinu, Pavillion. Steve þessi er bandarískur sveitablúsari sem hefur lifað ýmislegt, búið á götunni, baskað fyrir salti í grautinn og ferðast víðsvegar um heiminn en býr þessa dagana í Noregi (sem getur nú reyndar seint talist töff fyrir svona ref eins og hann). Stebbi mætti íklæddur smekkbuxum og skógarhöggsskyrtu og skartaði auðvitað sínu síða gráa skeggi. Kallinn náði upp mikilli stemmningu vopnaður engu öðru en gömlum gítar og rámri röddu (jú, og trommum í nokkrum lögum). Slagarar eins og Things go up og Chiggers (sem fjallar um pöddur í suðurríkjunum) fengu að hljóma. Tónleikarnir voru líklega óvæntasta ánægja hátíðarinnar hjá mér að þessu sinni. Eintóm gleði og sjóveiki. www.myspace.com/seasicksteve Á myndbandinu sést ekki mikið merkilegt en lagið er nett.









Það var ekki komið nóg af blús þetta kvöldið því stuttu seinna hóf Nick Cave upp raust sína og söng No Pussy Blues (enga fýsu að fá) með töffurunum í Grinderman. Drulluskítugt gráfiðringsrokkið fór vel í tónleikagesti þó að Ellefan (eða eitthvað álíka skítugt pleis) hefði hentað betur sem tónleikastaður. Grinderman er tiltölulega nýtt band, aðeins búið að gefa út eina plötu og spiluðu því aðeins í rétt rúman klukkutíma. Mulningsmannslögin nægðu ekki einu sinni í uppklappið og brugðu þeir á það ráð að enda á Bad Seeds laginu Tupelo. Nick var í stuði og verður eiginlega bara meira töff með aldrinum. www.myspace.com/grinderman


Nick brosir sínu breiðasta í rauða Michael Jackson leðurjakkanum sínum.


Eftir tónleikana fór ég heim í tjald í þeim tilgangi að klæða mig í meiri föt. Mér fannst auðvitað frábær hugmynd að leggja mig í smástund áður en að ég héldi aftur á tónleikasvæðið. Ég ekki fyrr en næsta morgun. Ég fór auðvitað á feitan bömmer yfir því að hafa misst af Battles og The Streets. Mig langaði þó ekki að fara að gráta fyrr en ég sá myndbönd frá tónleikum Mike ,,Streets” Skinners. Einhver sagði að myndir segi meira en mörg orð. Líklega segja myndbönd meira en myndir svo að ég get bara sleppt því að tala. Fyrra myndbandið sýnir tvennuna Blinded by the lights og Dry your eyes af A Grand don´t come for free og seinna myndbandið sýnir magnaðar lokamínútur tónleikanna (sem fengu 6/6 í nokkrum dönskum blöðum).














Annars spilar Skinner annð hvert ár á hátíðinni (allavega 06 og 08) þannig að kannski þarf maður bara að mæta 2010 til þess að bæta upp fyrir þetta.

Wednesday, July 16, 2008

Roskilde - 2.hluti - Fimmtudagur

Umdeildasta atriði hátíðarinnar var líklega Teitur sem opnaði stóra appelsínugula sviðið á fimmtudeginum. Venjan er að kröftugt danskt rokkband opni hátíðina en nú var það færeyskur vælukjói. Mér gæti svo sem ekki verið meira sama en ákvað frekar að kíkja á dansk/gríska/indónesíksa einsmannsbandið Choir of Young Believers. Bandinu hefur vaxið fiskur um hrygg og er ekki lengur sólóverkefni hins fjölþjóðlega Jannis Noya Makrigiannis heldur 8 manna hljómsveit. Tónlistin er tilfinningaþrungið indípopprokk ala Band of Horses og My Morning Jacket. Tónlistin nær að dansa á brún þess að vera of dramatísk en dettur þó aldrei í þann fúla pytt. Bandið var hörkuþétt og innlifunin mikil. Svo sannarlega frábær byrjun á hátíðinni eftir nú-rave leiðindi gærkvöldsins. www.myspace.com/choirofyoungbelievers


Ég náði þó ekki að klára tónleikana þar sem aðeins klukktíma síðar hóf Brooklyn-nýhippabandið MGMT leik í Odeon tjaldinu. MGMT (áður þekktir sem The Management) gáfu út hina frábæru Oracular Spectacular í lok síðasta árs (stafrænt, kom út á föstu formi í Janúar). Platan er svo mikil sumargleði að hún ætti eiginlega að fylgja með öllum tvöföldum pyslupökkum frá SS. Mæli með að allir kaupi/steli plötunni ekki seinna en núna. MGMT er í grunninn aðeins tveir gaurar en þeir mættu með fullt rokkband og stóðu sig hörkuvel. Frumraunin er hlaðin ótrúlega grípandi og/eða dansvænum slögurum og áttu piltarnir því í engum vandræðum með að halda upp stemmningu. Fengu allir helstu hittararnir að hljóma og tóku áhorfendur vel undir. Konsertinn endaði svo á að hljómsveitin steig út af sviðinu en stofnmeðlimirnir tveir, Ben og Andrew urðu eftir, ýttu á play á græjunum sínum og sungu Kids íklæddir hippaskikkjunum sínum. Góður endir á góðum tónleikum. www.myspace.com/mgmt Á myndbandinu spila þeir hið einstaklega Bowie skotna Weekend Wars (af Oracular Spectacular).





Eftir mikla umhugsun var ákveðið að fá sér Texas Chili Dog og finna sér gott pláss fyrir Radiohead í stað þess að kíkja á einhvern þeirra minni spámanna sem spiluðu á hinum sviðunum. Radiohead eru týpískt tónlistarhátíðaband og kunna þetta svo sannarlega. Eitt af fáum böndum sem púlla það almennilega að spila á Orange. Renndu í gegnum einhverja tvo tíma af efni, heil 24 lög. Tóku næstum öll lögin á In Rainbows og bönns af gömlum slögurum. Útvarpshausinn var nokkuð tilkomumikill í ljósaskiptunum og urðu fæstir fyrir vonbrigðum. Hápunkturinn að mínu mati var líklega Paranoid Android sem kom frábærlega út. Enduðu svo á Karma Police (HÓSTcrowdpleaserHÓST). Eina almennilega myndbandið á youtube er af lokalaginu. www.myspace.com/radiohead



Monday, July 14, 2008

Tónleikar í vikunni

Auðvitað ættu allir sem mögulega geta að gera sér ferð austur á Seyðisfjörð í vikunni á Listhátíð Ungs fólks á Austurlandi (a.k.a. Lunga). Fyrir utan listasmiðjur og annað gaman munu eftirfarandi listamenn koma fram: Trentemöller og Kasper Bjorke (DK), Bang Gang, Dísa, Bloodgroup, FM Belfast, B.Sig, E.T. Tumason, Benni Hemm Hemm, Borkó, Morðingjarnir, Reykjavík, Gísli galdur, Curver, Hjalti Jón og Miri. Á óopinberum tónleikum víðsvegar um bæ munu svo Slugs, Fist Fokkers, Mark Zero, (Cassette), Auxpan, For a Minor Reflection og fleiri spila.
Slugs eru einmitt á túr um landið þessa dagana. Von er á fyrstu plötu þeirra drengja á næstunni, vafalaust skítugasta plata ársins.


Á þriðjudaginn er Hip-Hop kvöld á Organ, fram koma Josh Martinez (CAN), Sleep (CAN) og DJ Flip (IRE). Meira veit ég ekki.

En ef þú ætlar að halda þér í bænum gætiru a.m.k kíkt yfir í Hafnarfjörð á miðvikudaginn (semsagt 16. júlí). Þar munu Agent Fresco, Dead Model, Toggi og Jan Mayen spila á bílastæðinu við hlið Súfistans. Tónleikarnir byrja 19:00. Jahh... reyndar svona hæfilega spennandi line-up.


Sama kvöld munu hið stórkostlega rokkband Fistfokkers og síðrúnksbandið For a Minor Reflection hita upp fyrir Austurferð sína með tónleikum á Dillon. Mæli með þessu!

Á Föstudeginum leika Trentemöller og Kasper Bjarke (DK) fyrir dansi á Tunglinu (skemmtistaðnum þ.e.a.s.). Kostar bönns af pening, 2500 kall.


Laugardaginn 19.júlí spila svo Singapore Sling, Kid Twist og The Way Down á Organ. Tónleikarnir eiga að byrja kl 22:00 og ef ég þekki SS rétt munu þeir standa eitthvað fram eftir nóttu.

Labels:

Roskilde - 1.hluti - Upphitunarhátíðin

Með lækkandi sól og langþráðum frítíma mun ég byrja að blogga aftur af fullum þunga. Umfjöllunarefnin verða svipuð og áður en ýmsir nýir liðir verða kynntir til sögunnar. En til að byrja með verð ég auðvitað að fjalla um Hróarskelduhátíðina sem var haldin í byrjun júlí.

Upphitunarhátíðin

Á sunnudeginum sá ég norsku indírokkstrákana í Rumble in Rhodos. Þeir litu út svolítið eins og At the drive-in með ofvirkan Halldór Gylfason sem söngvara. RIR spiluðu kraftmikið indírokk með bragðbætiefnum úr ýmsum áttum, hljómuðu sæmilega en ekkert mikið meira en það. http://www.myspace.com/rumbleinrhodos


Slagsmålsklubben spiluðu ótrúlegt en satt á Pavillion Junior á mánudeginum klukkan níu. Það hljóta að hafa verið góðar ástæður fyrir því að þessir sænsku sprelligosar hafi ekki spilað á sjálfri tónlistarhátíðinni enda búnir að byggja upp nokkuð stóran aðdáendaskara á norðurlöndum. A.m.k hálftíma fyrir tónleikana var orðið troðfullt í tjaldinu og allir greinilega í partýstuði. Meðlimirnir 6 spiluðu svo fyrir dansi í tæp þrjú korter (sem verður að teljast allt of stutt). Höfuðpaurinn var einum of meðvitaður um að reyna að vera töff og var því frekar tilgerðarlegur á köflum. Byrjaði tónleikana á að æsa tónleikagesti með því að öskra ,,Let´s kick this fucking shit, motherfuckers!” og kenndi þeim seinna hvernig heimurinn virkar: ,,last night we took ecstacy and now we are here...”. En að mínu mati voru tónleikarnir flottir, hefðu getað verið flottari. Gott partý eins og við var að búast af SMK. Þetta myndband gefur fólki kannski hugmynd um stemmninguna en litla um tónleikana sjálfa.







http://www.myspace.com/slagsmalsklubben

Hin íslensk/færeyska Bloodgroup fékk það skemmtilega verkefni að vera síðasta band á upphitunarhátíðinni. Misjafnar skoðanir voru á frammistöðu sveitarinnar en allir verða að vera sammála um að þau voru hress. Persónulega finnst mér tónlistin hundleiðileg og því lítið meira um það mál að segja. Þeir sem eru ósammála mér um gæði tónlistarinnar ættu endilega að skella sér á Seyðisfjörð um helgina og sjá krakkana spila á L.ung.A. http://www.myspace.com/bloodgroup

Labels: , ,

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com