Dönsk Tónlist

Turboweekend
Kaupmannahafnartríóið Turboweekend eiga víst að vera hinir dönsku Devo, veit ekki með það en þeir eru helvíti flottir engu að síður. Spila eðal nýbylgjurokk klæddir eins og brjálaðir vísindamenn.

Oh No Ono
Þetta band er náttúrlega orðið frekar stórt nafn eftir útgáfu plötunnar Yes í fyrra. Einstaklega hresst Helíum-fyllt Nýbylgju-Electroskotið-Fönkrokk

Snake & Jets Amazing Bullit Band
Mymusic.blog.is tókst að troða þessum íslandsvinum inn í hausinn á mér með endurteknum póstum um þá. Bendi ég áhugasömum á að kíkja þangað og lesa um félagana.
A Kid Hereafter
Vá ennþá meiri fíflagangur og hressleiki, festist óþægilega mikið á heilann. Á engann hátt hægt að lýsa stefnu þessarar sveitar… breytist á svona 15 sekúndna fresti: IndíSöngleikjaSýruPoppPönk eða eitthvað á þá leið. Meðlimirnir eru 6 en söngvarinn A Kid Hereafter (Frederik Thaae) stjórnar hinnum meðlimunum harðri hendi. Frederik þessi er einnig að skapa sér nafn sem einn efnilegasti upptökustjórinn í Danmörku um þessar mundir. Verð reyndar að viðurkenna að svona hressleiki getur orðið pirrandi við endurtekna hlustun.

The Raveonettes
http://www.myspace.com/theraveonettes
Djöfull pissaði ég í buxurnar yfir fyrstu plötu töffaradúettsins The Raveonettes. Það var EP-platan Whip It On sem kom út á Cruncy Frog árið 2002. B-myndalúkkið, svalleikinn, einfaldleikinn strákur/stelpa-melódíurnar og drulluskítugur fuzzgítarinn heillaði mig upp úr skónum. Einnig fannst mér skemmtilegt að Sune Rose Wagner setti sér reglur varðandi lögin, minnir að þau hafi helst ekki mátt fara yfir 3 mínútur og áttu öll að vera í sömu tóntegundinni, Bb. Eftir Whip It On kom breiðskífan The Chain Gang of Love. Hún var aðallega undir áhrifum frá popptónlist sjötta áratugarins og var mun fágaðri, ekki jafn skítug og einhvern veginn ekki jafn beitt. Því miður fannst mér platan einstaklega leiðinleg, svo leiðinleg að ég nennti ekki einu sinni að kaupa þriðju plötuna, Pretty in Pink. Efast meira segja að nenni að kaupa nýjustu afurðina Lust Lust Lust sem á víst að vera svolítið afturhvarf til gítarhávaða Whip It On. Danirnir eru voða hrifnir af plötunni og valdi Soundvenue skífuna bestu dönsku plötuna á árinu, aðeins örfáum vikum eftir útgáfu hennar. Þess má geta að ég hafði planað að fara að sjá hljómsveitina á Innipúkanum fyrir nokkrum árum en var ekki hleypt inn sökum ungs aldurs, algjör bömmer, var semi fúll útí 12tóna í langan tíma fyrir að hafa selt mér miðann til að byrja með.

Me and the Horse I rode in on
http://www.myspace.com/meandthehorse
Eina sem ég veit um bandið er að þetta er einsmannsverkefni frá Århus. Maðurinn á bakvið það heitir Henry og eru öll lögin tekin upp í svefnherberginu hans. Frumburður hans er í prentun á meðan þessu orð eru skrifuð, en þetta verður 7 laga EP plata og mun bera heitið Ghost Hospital. Tónlistin er ljúf kassagítartónlist (sörpræs sörpræs) með einföldum rafrænum töktum og ljúfum röddum. Engin bylting í gangi þarna þannig séð, en gott engu að síður.