Undanfarið hefur nafnið Jóhanna hljómað í eyrum mér undarlega oft. Ég ákvað að skoða málið nánar og segja ykkur frá Jóhönnunum mínum.
Joanna Newsom – EmilyLagið Emily með bandarísku söng- og hörpuleikkonunni Jóhönnu Newsom er hreint út sagt stórkostlegt. Það er á nýrri plötu Jóhönnu sem nefnist Y´s og hefur fengið óaðfinnanlega dóma víðast hvar og er uppseld í allri Evrópu sem og í Ameríku (og kemur því ekki til Íslands fyrr en eftir áramót). Platan inniheldur 5 lög sem eru öll örlítið lengri en venjuleg þriggja mínútna popplög (Emily er rúmar 12 mínútur). Ég hef ekki heyrt fleiri lög af nýja gripnum, þó að þau séu eflaust fáanleg ólöglega á netinu. Ég vil nefnilega ekki eyðileggja upplifunina sem fyrsta hlustun verður vonandi (kannski er ég farinn að hafa of miklar væntingar). Mörg virt nöfn úr (jaðar)tónlistarheiminum koma að gerð plötunnar, má þar nefna að strengjaútsetningar voru í höndum Van Dyke Parks sem þekktastur er fyrir samstarf sitt við hinn snargeðveika Brian Wilson úr Beach Boys (Smile platan). Steve Albini sá um upptökustjórn en hann hefur áður unnið með Nirvana (In Utero), PJ Harvey, Ensími og fleiri snillingum. Síðast en ekki síst sá Jim O’Rourke (fyrrverandi meðlimur Sonic Youth) um lokavinnslu plötunnar. Lagið Emily heyrði ég fyrst á tónleikum Jóhönnu í Fríkirkjunni og vakti það strax athygli mína og var eina nýja lagið sem ég man greinilega eftir af þeim mögnðu tónleikum. Upphitun á tónleikunum var í höndum Bills nokkurs Callahans, sem oft kallar sig Smog (eða (Smog)) og er hann einmitt kærasti Jóhönnu. Umslagið af Y´s virðist vera mjög glæsilegt og unnið í sama stíl og 16.aldar meistararnir máluðu. Myndin er í miðalda-stíl og finnst mér það passa vel við tónlistina hennar og finnst mér einhvers konar miðalda stemmning í nokkrum lögum af fyrri plötunni The Milk-Eyed Mender og þá sérstaklega í Peach, Plum, Pear. Er ekki alveg viss hvaða hljóðfæri er leikið á og skapar þannig þessa stemmningu, netið segir mér að það sé rafmagns-harpa. Einnig heyrir maður áhrifin frá ýmis konar þjóðlagatónlist m.a. amerískri fjallatónlist. Hér getið þið hlustað á Emily; Peach, Plum, Pear og svo séð myndbandið við Sprout and the Bean
Bob Dylan – Visions of Johanna
Það er ekki ýkja langt síðan ég hlustaði í fyrsta skipti á ,,Blonde on Blonde” með Bob Dylan. Málið er að ég ætla að fara í gegnum allan feril Dylans í réttri röð. Ég held að hann hafi gefið út u.þ.b. 30 stúdíóplötur en einnig mikið magn af tónleika og bootleg-plötum. Fyrstu þrjár plöturnar (1962-4) eru fáránlega góðar en næstu þrjár (1964-5) ekki alveg jafn fáránlega góðar. Nú hélt ég kannski að leiðin lægi aðeins niður á við en Ljóska á ljósku sem kom út árið 1966 er í augnablikinu mín uppáhalds plata af þessum 7 (A.T.H í augnablikinu). Eftir að Bobby hætti að einbeita sér að pólitískum söngvum fór hann yfir í mun persónulegri sálma en náði ekki að fullkomna þá list fyrr en á Ljósku-plötunni. Lögin eru hvert öðru magnaðra og finnst mér Visions of Johanna þó bera naumlega af. Eins og venulega vill Dylan ekkert segja um hvað lagið er, en margir eru á þeirri skoðun að það fjalli um sambandsslit hans og fólk-söngkonunnar Joan Baez (þó að öðrum þyki ólíklegt að hann hafi samið svo fallegt lag um konu sem fór eiginlega í taugarnar á honum). Önnur kenning er að Jóhanna sé komin af Gehanna = Ge-Hinnom sem er víst hebreska og táknar lífið eftir dauðann. Textinn sem virðist í fyrstu vera ljóðrænt kjaftæði er ótrúlega margslunginn og magnaður. Í senn þjóðfélagsgagnrýni, dópað ástarljóð, sjálfsádeila og margt fleira. Þess vegna hefur lagið verið uppáhald margra Dylan-fræðinga sem geta endalaust brotið heilann um merkingu Jóhönnu. Hin meinta fyrirmynd Jóhönnu; Joan Baez er alveg handviss um að Bobby sé að syngja um hana, reyndar hefur hún haldið því fram að mörg laga hans fjalli um hana (sem er harla ólíklegt).
Hér má heyra lagið sjálft og hér á að vera hægt að sækja allan
Blonde on Blonde diskinn. Að lokum fann ég stutt myndskeið frá árinu 1963 þar sem Dylan og Jóhanna Baez syngja saman annað af mínum uppáhaldslögum Dylans, When the Ship Comes In af The times they are a-changin'.
Serge Gainsbourg – JoannaFranski pervertinn, tónlistarmaðurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Serge Gainsbourg (fæddur Lucien Ginzburg) er hérna með lag um Jóhönnu. Ef einvher sem les þetta kann frönsku má sá hinn sami endilega þýða
textann fyrir mig. Eina sem ég veit er að hann fjallar um Jóhönnu sem dansar, spennandi! Hver þessi Jóhanna er og af hverju hún er að dansa í New Orleans og Lousiana veit ég ekki en væri mjög þakklátur ef einhver gæti sagt mér það. Lagið kom út á breiðskífunni Colour Cafè árið 1975. Serge fæddist árið 1928 og var kominn af rússneskum gyðingum sem flúðu frá heimalandinu til Frakklands. Seinna gerði hann mikið grín af uppruna sínum, nasistum og mörgu fleiru sem þótti tabú. Serge vakti fyrst athygli þegar að lagasmíð hans Poupée de cire, poupée de son sigraði söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) en lagið var flutt af France Gall sem keppti fyrir hönd Lúxemborgar. En það var árið 1969 sem hann varð heimsþekktur þegar hann tók upp lagið Je t'aime... moi non plus (Ég elska þig...ekki ég heldur) með kærustunni sinni Jane Birkin. Lagið þótti einstaklega dónalegt enda heyrast samfarastunur allt lagið (sögusagnir herma að þær séu ósviknar). Lagið var bannað í fjölmörgum löndum, þar á meðal Íslandi og Bretlandi, en var einnig fordæmt af páfa. Karlinn prófaði sig áfram í nánast öllum mögulegum stefnum tónlistar og hefur skapað sér sess sem einn merkasti tónlistarmaður og textasmiður Frakklands. Serge Gainsbourg lést úr hjartaáfalli árið 1991, þá 63 ára (fyrir þá sem kunna ekki að reikna). Ekki tókst mér að finna lagið á alnetinu og ég kann ekki að setja lög sjálfur inn svo að ég ætla að leyfa ykkur að heyra lagið Je t'aime... moi non plus og einnig stórborganlega (stórkostlega + óborganlega) fyndna upptöku frá 1986 þar sem Gainsbourg og ung og efnileg söngkona að nafni Whitney Houston hittast í spjallþætti (sem sýndur er beint).
Sungið er um Joan of Arc (Jóhönnu af Örk) í Bigmouth Strikes Again með meisturunum í
Joan er fyrsta fórnarlamb Maxwells Edisons og silfurhamars hans í einu misheppnaðasta lagi
Maxwell´s Silver Hammer.
sem syngur What if God was one of us.
Endilega bætið við fleiri Jóhönnum í athugasemdirnar.